Thursday, May 26, 2005

Tungunnar bröttu fjöll


Ég er ennþá að hugsa um grein Njarðar P. Njarðvík um íslenskt mál í Lesbók Morgunblaðsins á laugardaginn var. Hún var gagnmerk og tímabær. Boðskapurinn var í stuttu máli þessi: „Við löbbum ekki um tungunnar bröttu fjöll.“ Er fátæklegur orðaforði ekki líklegur til að geta af sér fátæklega hugsun? Hvernig getur maður meint það sem maður segir, ef manni eru ekki töm orðin til að segja það sem maður meinar? Er það snobb eða hégómi að leggja rækt við eigið málfar, að hafa eigið móðurmál í heiðri? Ég hafna því algjörlega. Algjörlega.
Að mínum dómi er íslenskt mál einhver dýrmætasti gimsteinn sem okkar molbúaþjóð hefur áskotnast. Hvaða réttlætingu hefðum við fyrir tilvist okkar sem sérstaks menningarsamfélags, sérstakrar þjóðar, ef ekki væri fyrir málið? Er okkur í alvörunni ekki sárt um að horfa upp á útlenskuslettur og letilegan orðaforða þynna út tjáningarmátann okkar?
Mál þarf að vera lifandi til að það geti spriklað á tungu manns. Eins virðingarvert og það annars er, að fólk sé duglegt að búa til nýyrði, þá þvælir það og steinrennir málið ef þau eru þunglamaleg. Stofnanamál er andleg torfgröf. Fréttir eru fluttar með tilgerðarlega mörgum nafnorðum. Blaðamenn og ráðherrar gera sig þráfaldlega seka um aulalegt málfar. Hér þarf að reiða til höggs hundapísk málverndarinnar. Aðallega á okkar eigin lend.
Ég vildi að fleiri legðu sig fram um að vanda til málfars síns. Að lesa illa skrifaðan texta er eins og að aka holóttan veg. Texti sem er vel skrifaður er hressandi og nærandi fyrir andlegt atgervi manns. Ég held í alvörunni að það sé mannbætandi að lesa virkilega vel skrifaðan texta – og þá er ég að tala um málfarið; innihaldið er kafli út af fyrir sig.
Hér er nýjasta viðleitni mín til að færa sjálfan mig hænufeti fjær vondu máli og nær góðu máli: Ég er hér með hættur að nota orðið „labba“ – hér eftir mun ég nota betri orð til að lýsa þeirri athöfn. Dæmi: Í gærkvöldi lötraði ég upp á Bragagötu. Eftir það stikaði ég svo heim til mín.
Já, við löbbum nefnilega ekki á tungunnar bröttu fjöll.

No comments:

Post a Comment