Wednesday, May 18, 2005

Þegar Kóraninum var sturtað niður í klósettið í Guantanamo pyntingabúðunum, var eins og brysti stífla í Afghanistan, Pakistan og víðar og rosaleg mótmæli brutust út ... og Bandaríkjastjórn kennir Newsweek um að hafa birt illa ígrundaða frétt og þannig "látið þetta gerast" ... þvílík vitleysa. Það getur verið að þessi frétt hafi verið neistinn sem kveikti bálið, að hún hafi verið gikkurinn, en ólgan var þarna fyrir, spennan skapaðist ekki út af einhverri frétt heldur út af framferði áðurnefndrar Bandaríkjastjórnar gagnvart þessum heimshluta. Gráupplagt, samt, að kenna Newsweek um þetta. Eins og allt hafi verið með kyrrum kjörum áður en fréttin spurðist út. Hah! Góður þessi.
Ég vil gera orð Jesaja spámanns að mínum þegar hann segir (32:17): Og ávöxtur réttlætisins skal vera friður, og árangur réttlætisins rósemi og öruggleiki að eilífu. Af réttlæti hlýst friður, ró og öryggi. Af óréttlæti hlýst ófriður, órói og óöryggi. Þarna hitti Jesaja naglann á höfuðið ... og bókstafstrúarmenn mættu taka þetta til greina. Réttlæti fyrst - þá fylgir hitt í kjölfarið.

No comments:

Post a Comment