Monday, May 23, 2005

Nú er hún gamla Grýla dauð...


...eða það skyldi maður ætla. Andi hennar svífur samt ennþá yfir vötnum í nútímanum og virðist hafa tilhneigingu til að líkamnast í körlum með yfirvararskegg. Afsakið, í ófreskjum með yfirvararskegg.
Ég trúi ekki á ófreskjur og á „illmenni“ trúi ég ekki heldur. Tilhneiging okkar til að mála skratta á veggi, þar sem í rauninni er fólk af holdi og blóði, er ekki bara arfavitlaus og einfeldningsleg: Hún er hættuleg. Ef við álítum harðstjóra vera einhvers konar ófreskjur eða ómenni, þá getum við ekki annað en misskilið þá og misskilið hvernig þeir virka: Hvernig þeir komast til valda, hverjir styðja þá, hvað það er sem fer úrskeiðis.
Ef við styðjumst við aulaskýringar um að „Stalín hafi verið svo vondur“ eða að „Hitler hafi nú bara verið brjálæðingur“ -- þá tökum við ekki alvarlega ógnina sem stafar af einræði og gerræði. Ef við eignum veikum einstaklingum ábyrgðina á því að heilt þjóðfélag fari til fjandans -- þá erum við á hálli braut. Alla vega ætti það að vera okkur áminnung um að taka til hendinni í geðheilbrigðismálum!
Sú frumspekilega hughyggja sem stýrir þankagangi þess sem sér Hitler, Stalín og slíka kóna sem brjálæðinga sem eigi sér ekki líka í sögunni, er feigðarflan. Skrípamynd af raunveruleikanum skilar okkur ekki öðru en skrípaskilningi á honum og kemur þannig í veg fyrir að við myndum okkur raunsæja og allsgáða afstöðu.
Skilningsleysi á atburðum fortíðarinnar er því sem næst uppskriftin að því að þeir endurtaki sig.
Heimsstyrjöldin síðari var ekki heilaspuni geðsjúklings. Hún var það sem hlaut að gerast þegar hið nýja, iðnvædda stórveldi Þýskaland krafðist síns hlutar af kökunni. Ógnarstjórnin var það sem hlaut að leiða af ógnarlegri stéttaspennu kreppunnar. Helförin var afleiðing þess að valdastéttina vantaði blóraböggla til að kenna um ófarir landsins og hristi upp þjóðrembingslega ofbeldishreyfingu.
Sá sem er nægilega glöggur til að bera kennsl á fyrirboðana á millistríðsárunum ætti að vera nógu glöggur til að sjá svipaða fyrirboða í dag: Hið iðnvædda stórveldi Bandaríkin rambar á barmi efnahagslegs hruns, grátt fyrir járnum. Með á báti eru bandalagsríki þeirra (þar á meðal nýlendan Ísland). Kreppa stendur fyrir dyrum; atvinnuleysi er þegar orðið grafalvarlega mikið í mörgum Vesturlanda: Vestræna valdastéttin gerir kröfu um að fá stærri hluta af kökunni til að geta haldið áfram að þrútna út. Spenna milli stétta fer vaxandi, sem sést best á því hvernig ríkisstjórnin herða tökin og eftirlitið með almenningi til að geta haft hemil á honum ef í harðbakka slær. Afturhaldssöm og herská hugmyndafræði nýkóna og bókstafstrúarmanna heldur stjórnkerfi Bandaríkjanna í heljargreipum. Blórabögglana þekkjum við, þeir eru kallaðir „hryðjuverkamenn“ og munu vera í flestum skúmaskotum ef vel er að gáð.
Teiknin eru á lofti: Ef við þykjumst vera fær um að draga lærdóma af sögunni, þá spyr ég: Hvenær var betra tækifæri en núna? Um leið og við minnumst loka síðari heimsstyrjaldarinnar, þá fljótum við sofandi að feigðarósi hinnar þriðju, sem háð verður um síðustu dreggjar ódýrrar olíu. Ég efa að hún verði ódýrari, í mannslífum talið, en þær tvær fyrri. Fylkingarnar eru þegar farnar að myndast en eina fylkingu vantar ennþá: Það er hin skipulega fylking vinnandi fólks sem lætur ekki bjóða sér þetta lengur og tekur örlög sín í eigin hendur í stað þess að vera att fram á blóðvöll sem fallbyssufóðri. Sú hreyfing er ekki til í dag og þeir sem segja það sem hún mundi segja eru settir á jaðar stjórnmálanna eins og gólandi vitleysingar.
Það þarf að snúa þessu dæmi við. Það þarf að fylkja alþjóðlegri sveit vinnandi fólks í sókn. Hver gerir það? Það sjálft, enginn annar. Ég er svartsýnn á að ofbeldi skili miklu. Andspyrna gegn ofbeldi hefur sitt að segja, svo og þrýstingur heima fyrir á ríkisstjórnir til að þær slíðri sverðin ... en þegar öllu er á botninn hvolft verða styrjaldir ekki umflúnar meðan þrælvopnaðar elítur bítast um takmarkaðar auðlindir.

No comments:

Post a Comment