Thursday, May 19, 2005

Dreptu átrúnaðargoð þín


Fyrir margt löngu fundu einhverjir upp á slagorðinu hér að ofan, Kill Your Idols. Dreptu átrúnaðargoð þín. Þetta eru orð að sönnu. Það þarf ekki að taka fram að hér er átt við "dráp" í óeiginlegri merkingu: Að drepa átrúnaðargoðið sem átrúnaðargoð, ekki að finna einstakling sem maður trúir á að myrða hann í alvörunni. Sams konar hugsun er uppi á teningnum þegar hin margumtalaða bylting er annars vegar. Afnám valdastéttarinnar þýðir ekki að leiti eigi uppi alla sem hafa völd og myrða þá - þótt sumir hafi misskilið það þannig - heldur að svipta þá völdum eða - réttara sagt - losna undan valdi þeirra. Pólitískir valdamenn blasa nú við, en það væri til lítils að afnema völd þeirra eins og sér. Til að losna undan pólitísku valdi þarf fyrst og fremst að losna undan efnahagslegu valdi: Losna undan kapítalískum framleiðsluháttum. Þegar kapítalismi leikur lausum hala er það fjármagnið sem er félagslega frjálst en fólkið þarf að lúta duttlungum þess. Eðlilegra væri að fólkið væri efnahagslega frjálst og auðmagn þyrfti að lúta vilja samfélagsins. Það verður ekki gert svo vel sé án þess að losna undan ægivaldi efnahagslegrar valdastéttar og kapítalískra framleiðsluafstæðna.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Hér getur að líta málsvörn George Galloway fyrir bandarísku þingnefndinni í fyrradag. Bæði 45 mínútna myndbandsupptöku, og transkrift af því sem hann segir. Meistari Galloway var kallaður fyrir sem sakborningur en mætti sem ákærandi. Þvílíkur boxhanski, þvílík fallbyssukúla af málsvörn!

No comments:

Post a Comment