Monday, May 2, 2005

Í gær var fyrsti maí, eis og einhver kynni að hafa tekið eftir. Ég fór, eins og góðum erkikomma sæmir, í kaffi hjá herstöðvarandstæðingum og svo í kröfugöngu. Í kröfugöngunni og á fundinum á eftir á Ingólfstorgi sýndist mér vera viðvera flestra þeirra hreyfinga sem andæfa súverandi ástandi. Samtök herstöðvarandstæðinga, Náttúruvaktin, Femínistafélagið, Félagið Ísland-Palestína, nokkur verkalýðsfélög. Með öðrum orðum, þarna voru samankomnir flestir aðrir en verkalýðurinn sem þetta á víst að snúast um. Sjálfur bar ég fána Íraks á stöng.
Já, þarna voru allir nema verkalýðurinn. Ég held að fjöldaágiskun Morgunblaðsins, 1000 manns, sé ekki fjarri lagi. Heldur fleiri í sjálfri göngunni, held ég, en ekki mikið fleiri á fundinum. Það er til lítils fyrir Moggann að gera lítið úr mannsöfnuðinum þegar hann er lítill í alvörunni. Það felst enginn úrdráttur í því að kalla fámennan hóp fámennan, en það er það sem þessi hópur var.
Þá er komið að því að benda fingri ásökunarinnar.
Get ég áfellst vinnandi fólk á Íslandi fyrir að finnast 1. maí ekki eiga erindi við sig? Nei, það finnst mér ekki. Dagskráin var bara hreint ekki spennandi fyrir fólk sem vildi frekar hvíla lúin bein (og huga) yfir Stöð tvö. Ég er hræddur um að það verði bara að viðurkennast, að þetta er orðið frekar gamaldags. Ekki að mér hafi ekki fundist fólk eiga erindi, en fyrst fólkinu sjálfu finnst það ekki eiga erindi, hvernig er þá annað hægt en að velta því fyrir sér?
Get ég áfellst verkalýðsforystuna, gelda krata með deiga branda í vopnabúrinu, standandi á sömu fúnu sápukössunum og undanfarna öld? Tja, varla. Í fyrsta lagi er bara verið að gera það sem í gamla daga stóð alltaf fyrir sínu, og ekki skrítið að menn haldi áfram að smala fánaliðinu á fundi þegar þó 1000 mæta. Á hinn bóginn hefur Guðmundur Gunnarsson, forseti Rafiðnaðarsambandsins, stungið upp á því að breyta kröfugöngunni í pylsugrill í Fjölskyldugarðinum. Það mundi örugglega trekkja betur, þótt lítið færi fyrir blóðhitanum.

Æ, ég held að það þurfi bara að skoða þessi mál alveg upp á nýtt. Á hvaða grundvelli er hægt að höfða til vinnandi fólks í dag? Upp á hvað er hægt að bjóða, sem hefur meira aðdráttarafl en sjónvarpsdagskráin? Já, það þarf tvímælalaust að endurskoða þetta, af hispursleysi. Það er einhver hlekkur keðjunnar brostinn. Hver? Er kannski "vandamálið" það, að það séu engin vandamál lengur til að krefjast úrlausnar á? Eða er fólk orðið þreytt á innantómu orðagjálfri? Eða nennir það ekki út í útsynninginn?

Ég kem víst ekki með neitt almennilegt svar við þessu hér og nú. Læt frekar spurninguna hanga eins og snöru, sjálfum mér og öðrum til umhugsunar. Skjótið bara að vild, það er auðvelt að hitta þessa skotskífu, og sá sem hittir í miðjuna, festir fingurinn á "málinu" fær verðlaun.

No comments:

Post a Comment