Tuesday, May 3, 2005

Enn af 1. maí


Síðasta andsvar (frá Hauki) er tilefni til að skrifa aðeins meira um 1. maí.
Múgamaðurinn sem situr í lánasúpu, með heimili sitt veðsett, situr í LaZBoy stól og horfir á 28 tommu sjónvarp, sem hann hefur keypt á lánum, eins og fína jeppann sinn ... er honum vorkunn? Tja, það má kannski segja að fólk eigi að kunna fótum sínum forráð sjálft - og það ætti að kunna það - en ég get nú samt ekki sagt að mér finnist það allt í lagi. Lifnaðarhættir okkar, vinnandi Vesturlandabúa, eru niðurgreiddir með óheyrilegu arðráni í þriðja heiminum, og neyslan sem er að sprengja okkur er að talsverðu leyti á lánum, sem, ólíkt því sem einhverjum gæti virst, eru ekki það sama og gjöf. Vinnandi Íslendingar hafa verið friðþægðir nógu mikið til að kaupa þá til fylgilags við valdastéttina, og getur maður áfellst fólk fyrir að gleypa við gylliboðum? Tja, ég spyr bara.
Verkalýðurinn getur étið það sem úti frýs vegna þess að stéttabræðrum gæti ekki verið mikið meira sama hverjum um annan. Bræðralag vinnandi manna er horfið.
Vissulega fer lítið fyrir stéttarvitund á Íslandi í dag. Vissulega er það svo. Ég vona samt að það sé ekki svo til frambúðar - og ég sé ekki annan betri hest að veðja á, heldur en að vita hvort hægt er að blása lífi í glæðurnar.
Síðan geta þeir sem í alvörunni eru ósáttir við að láta troða á sér hist einir sér, án kúkalabbanna sem halda þeim niðri ... og skipulagt alvöru baráttu.
Já, en gallinn við það er að alvöru barátta verður ekkert háð af fámennum hópi óstýrilátra ungmenna. Við getum haft hugmyndirnar, en við höfum ekki vöðvana til að stinga upp arfabeð þjóðfélagsins upp á eigin spýtur. Sá eini sem hefur það er mannfjöldinn sem finnst hann ekki vera verkalýður vegna þess að hann á þægilegan hægindastól.
1. Maí er minningarathöfn um gamla baráttu en það þarf engum að koma á óvart að forn frægð gagnist lítið í dag. Það er einfaldlega kominn tími til að gefa skít í aumingjana sem mynda Íslenska alþýðu og fara að vinna að einhverju sem skiptir máli.
Gefa skít og gefa skít ... mér líst betur á að reyna að finna framsæknari leiðir til að fá þessa alþýðu til að spenna vöðvana. Það er ekki hægt að vera sár út í fólk fyrir að mæta ekki á 1. maí ef því finnst það ekki eiga erindi. Kannski að þetta form, kröfugangan, sé í alvörunni úrelt. Ég sé alla vega ekki að það skili miklu eins og ástatt er. Fólk getur tuðað í kaffitímum en svo verið tregt til að taka til hendinni þegar á reynir. Eða hvað, hefur reynt á? Ég vil geta þess í framhjáhlaupi að ég labbaði frá Ingólfstorgi upp á Garðastræti og leit þar í sjoppu ... labbaði til bara niður Fischersund, og sýndist ég sjá þar inn um glugga á nýlegu hóteli, hvar tveir erlendir verkamenn voru að leggja teppi. Á 1. maí. Eini innflytjandinn sem ég sá á fundinum var að tína dósir. Er 1. maí dagur nostalgíu fyrir ráðsetta verkalýðsrómantíkera? Er 1. maí orðinn meinlaus farvegur fyrir háleitar hugsjónir, meinlaus í þeim skilningi að hann sé ekki minnsta ógn við ríkjandi skipulag? Tja, er það ekki bara?
Alla vega, ég held að það þurfi að hugsa þetta dæmi alveg frá grunni. Hætta að ríghalda í hugmyndir sem þjóna ekki markmiðum dagsins, en leggja höfuðið í bleyti eftir nýjum. Ég, fyrir mitt leyti, held að þetta sé hægt með því að setja fram prógram sem fólk tekur til sín og vill taka þátt í. Slíkt prógram mundi einkum felast í nýju skipulagi á atvinnuvegunum, þannig að sameign og samvinna kæmu í stað vinnustaða-stigveldis og þjónkunar við fjármagnseigendur. Slíkt prógram getur haft drjúgt forskot á kapítalíska atvinnuhætti, og dregið til sín fólk, bæði vinnandi fólk og neytendur ... en það þarf að útfæra það nánar, sem ég geri ekki hér og nú.
Verkamaður samtímans áskilur sér rétt til að sitja heima og hvíla lúin bein á 1. maí. Nema hvað. Auðvitað kemur fólk ekki ef því finnst það ekki eiga neitt erindi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Annars er áðurnefndur Haukur nýjasti gestapenninn á Vantrú.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Blair vill þróa ný gjöreyðingarvopn.

No comments:

Post a Comment