Monday, May 16, 2005

Siðrof og firring


Marx taldi að kapítalískir framleiðsluhættir gerðu verkemenn firrta vegna þess að framleiðslutækin væru í annars eigu, arðurinn rynni til annarra, og sjálf framleiðslan líka. Í staðinn fyrir að framleiða til eigin nota eða í eigin þágu, legðu verkamenn til vinnuafl og hugvit, festu hæfileika sína í form framleiðslunnar, og yrðu sjálfir firrtir fyrir vikið.
Eitthvað held ég að sé til í þessu.
Annað held ég samt að sé nauðsynlegt að taka til greina, að minnsta kosti jafn veigamikla breytu, ef ekki veigameiri: Fjölskyldumunstur. Menn eru hjarðdýr, mönnum er náttúrulegt að búa í félagi við aðra menn, einkum fjölskyldu sína. Vinnustaður utan heimilis, þar sem laun eru það lág að mikillar (tímafrekrar) vinnu er þörf til að ala önn fyrir fjölskyldunni -- að ógleymdum tilbúnum þörfum sem fólk rembist við að mæta -- gera það að verkum að það verður rof í fjölskyldunni. Foreldrarnir vinna úti og eru stressaðir eða dauðþreyttir fyrir framan sjónvarpið á kvöldin. Börn eru geymd í skólum og umgangast aðallega önnur börn (eins þroskandi og það er) og gamalmennin eru falin sjónum samfélagsins á þar til gerðum stofnunum.
Þarf þetta að vera svona? Er þetta óhjákvæmilegur fylgifiskur kapítalískra þjóðfélagshátta? Ekki veit ég það ... en ekki hjálpa þeir til, svo mikið er víst. Þar sem afstæður vinnu og eignar eru firrtar (fólk vinnur án þess að eiga og á án þess að vinna) er strax kominn brestur ... en þegar við bætast firrtir heimilishættir, þá hættir manni að lítast á blikuna.
Já, það þarf að hugsa þetta dæmi ofan í kjölinn. Kapítalisma verður ekki rutt úr veginum svo glatt, nema betra tilboð komi. Framleiðslu- og samfélagshættir sem þjóna mannlegum þörfum betur en kapítalismi gerir mundu, þykist ég vita, ruðja honum úr veginum á svipaðan hátt og kapítalisminn ruddi á sínum tíma lénsveldinu úr vegi. Kapítalismi hefur sitt aðdráttarafl svo fólk getur reynt að loka augunum fyrir göllum hans, en gallarnir eru samt áfram til staðar. Ef fólki stæðu aðrir framfærsluhættir til boða, þar sem kerfisbundnu óréttlæti og kerfisbundinni firringu hefði verið úthýst, þori ég að veðja að þeir framfærsluhættir yrðu fljótir að ná vinsældum.
Kapítalisminn gufar ekki upp af sjálfu sér. Það hefur sýnt sig að það er ekki hægt að bæta fyrir gallana á honum. Nýs kerfis er þörf. Nú er bara að leggja höfuðið í bleyti ... og það sem meira er, bretta upp ermarnar.

No comments:

Post a Comment