Tuesday, May 17, 2005

Árnar renna upp í móti
Gekk áðan í gegn um Hljómskálagarðinn og sá þar 14 lóur og 24 til viðbótar fyrir framan Háskólann. En annað vakti athygli mína: Straumröst sem lát suður undan brúnum tveim yfir Tjörnina. Er Lækurinn farinn að renna upp í móti? Hverju sætir þetta eiginlega? Ættum við að falla á kné, iðrast og búa okkur undir endurkomu Múhameðs?
Síðan kom ég inn í Hólavallakirkjugarð, þar sem mætti mér stór og fallegur köttur með lítinn og fallegan þrastarunga í klónum og var í þann mund að fara að bíta hann á barkann. Ég hvæsti á köttinn og sagði honum að skammast sín og greip þannig inn í þróunarkenningu Darwins af einskærri eigingirni. Síðan henti ég grjóti og ýmsu lauslegu á eftir honum og hann hljóp í burtur - og þrastarmamma rak flóttann.

No comments:

Post a Comment