Sunday, May 8, 2005

Til hamingju með daginn...


60 ár frá sigrinum á nasistum. Mér finnst áberandi í umræðunni um síðari heimsstyrjöldina og um helförina, hvað eitt fær litla athygli miðað við annað. Það er and-kommúníski broddurinn í nasismanum. Síðari heimsstyrjöldin var umfram annað hugsuð sem (haka)krossferð gegn Sovétríkjunum, og það voru umfram annað fórnir Sovétríkjanna sem á endanum unnu bug á nasismanum. Og þótt það sé óvinsælt að þakka Stalín nokkurn skapaðan hlut, þá verður að viðurkennast að honum og Mólótoff tókst, með naumindum, að snúa taflinu Þýskaland (+ Vesturveldin) vs. Sovétríkin = útþurrkun Sovétríkjanna við, svo að útkoman varð Þýskaland vs. Sovétríkin + Vesturveldin = útþurrkun nasismans. Þvílíkar fórnir, þvílík blóðtaka. Maður fölnar við tilhugsunina um að fasisminn, sú ægilega stjórnmálahreyfing, sé að ganga í endurnýjun lífdaga, og það í því ríki heimsins sem ber höfuð, herðar og hné yfir öll önnur. Þegar fasismi með rætur í kristnum fúndamentalisma og bráðfeigum síð-kapítalisma fer að spenna vöðvana af alvöru, þá verður ekki gaman ... og ég óttast að þess sé ekki langt að bíða.
Í því samhengi má minnast hins sem ég gat um í byrjun, en það er helförin. Helförin var ekki bara kerfisbundin útrýming á gyðingum og sígaunum, heldur var broddinum í upphafi beint gegn þeim sem fastast stóðu gegn nasistum: kommúnistum og verkalýðsleiðtogum. Þegar þeim hafði verið rutt úr vegi kom röðin að næsta dagskrárlið. And-kommúnismi var það sem nasistar lögðu umfram annað áherslu á ... og það er annað sem ég óttast að við eigum eftir að sjá aftur. Mun Bandaríkjastjórn smala saman bandarískum vinstrimönnum og skjóta þá? Ég leyfi mér að efast um það ... en hvað er þess langt að bíða, að hröð stjórnarandstaða verði kriminaliseruð? Ég bara spyr.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hér er annars góð frétt: Í Bretlandi kom RESPECT Coalition tveim mönnum á þing, þar af var annar sjálfur George Galloway! Það var nú gott hjá þeim.

No comments:

Post a Comment