Friday, May 6, 2005

Múgurinn virkjaður. Þjóðkirkjan í feni sínu.


Haukur skrifaði komment sem ég svara að einhverju leyti:
Vésteinn vill virkja múginn. Það er sniðug hugmynd í sjálfu sér og engan vegin ný. Hann er nú svolítill lenínisti inn við beinið, þ.e. hann álýtur að fámennur hópur skipulagðra og heitra einstaklinga geti leitt byltingu í krafti stuðnings alþýðunnar sem þurfi bara að örva hreifings.
Ég tel að þegar ólga kemur upp í samfélaginu, eins og á krepputímum, þá verði að vera til staðar eitthvað plan, einhver farvegur fyrir þessa ólgu, þannig að hún nýtist í framsæknu og félagshyggnu starfi og geti (vonandi) sprengt helgrindur kapítalismans og byggt annars konar samfélag í staðinn, byggt á húmanískum gildum og lýðræðislegu efnahagskerfi. Það er ekki sjálfgefið að þetta gerist -- og það er meira að segja vandasamt. Verðugra verkefni er hins vegar ekki til, og þess vegna tel ég það hlutverk okkar að leggja höfuðið í bleyti og reyna að byggja upp þetta plan.
Náttúruanarkistar hafa haldið því fram um langa hríð að til þess að bylting geti orðið þurfi fyrist að verða fækkun á mannkyni. Hungrið sem fygli olíutindinum sé því engan vegin slæmt.
Þetta finnst mér nú einkennileg afstaða, að hungursneyð og milljarða manna horfellir sé eitthvað annað er stórkostleg hörmung. Ekki hef ég áhuga á að lenda í þessu, svo mikið er víst.
Byltingarhesturinn sem ég veðja á er þessi: Í staðinn fyrir að taka yfir ríkisvaldið með einhvers konar valdaráni og reyna að nota það til að breyta samfélaginu, þá byrjum við á byrjuninni og breytum efnahagskerfinu, undirstöðunni sem samfélagið hvílir á. Efnahagslegt vald er í aðalatriðum það sama og pólitískt vald. Nýtt efnahagskerfi lítur dagsins ljós og í stað kapítalískra stéttaafstæðna er það stéttlaust, sósíalískt og lýðræðislegt. Þegar stéttlaust efnahagskerfi er komið á laggirnar og engin er valdastéttin, þá er kominn tími til að leggja niður ríkisvaldið eins og hverja aðra tímaskekkju.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er makalaust að fylgjast með málflutningi Þjóðkirkjunnar í umræðunni um kristniboð í skólum. Nýjasta útspilið eru freklegar rangfærslur Arnar Bárðar Jónssonar í Neskirkju, sem Birgir Baldursson kryfur í grein sinni á Vantrú, "Hvort er Örn Bárður lygari eða hálfviti?". Þjóðkirkjan ætti nú bara að vera heiðarleg og viðurkenna það sem satt er. Það getur hún auðvitað ekki sagt opinberlega, svo ég býst við að ég neyðist til að segja það: Þjóðkirkjan veit vel að kristniboð í skólum samrýmist ekki hugmyndum um borgaralegt nútímasiðferði, hún veit líka vel að ríkisrekið trúfélag er forneskjulegt, og loks veit hún vel að ef forréttindastöðu hennar væri ógnað mundu raðir hennar grisjast svo um munaði. Þjóðkirkjan er í hreinni hagsmunabaráttu, hún vill hafa stöðugt innstreymi nýrra sauða í fjárhúsið sitt, nýrra spena að sjúga.

No comments:

Post a Comment