Tuesday, May 17, 2005

George Galloway er kominn til Bandaríkjanna þar sem hann mun sitja fyrir svörum þingnefndar vegna ásakana um að hafa þegið mútur frá Saddam Hussein. Galloway hefur sagst vera til í að hafa yfirheyrsluna í beinni útsendingu í sjónvarpi. Þá útsendingu þætti mér áhugavert að sjá, þótt hún verði kannski ekkert.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Egill Helgason hefur farið mikinn að undanförnu og Stefán Pálsson er meðal þeirra sem hafa séð ástæðu til að ræskja sig yfir málflutningi hans. Hvað getur maður sagt? Egill hefur uppi - og hefur oft áður haft uppi - málflutning um kommúnisma og Sovétríkin, sem væri hægt að greiða í sundur og svara lið fyrir lið ef einhver nennti því ... og það sem er óþolandi er, að þessi söguskoðun er í senn ósanngjörn og yfirborðsleg, kemst að þeirri fyrirfram gefnu niðurstöðu að Stalín hafi verið vondur og þess vegna séu kommúnistar kjánar eða siðblindingjar og að allt sé þetta að kenna innbyggðu morð-eðli kommúnismans. Ég andvarpa bara og ætla mér ekki að fara að skrifa 55 bls. ritgerð til að hrekja þetta.
~ * ~

Sko... Ég fagna gagnrýni á Sovétríkin, á Stalín, Lenín, Marx og hvern sem er, svo fremi að hún sé heiðarleg og sanngjörn. Það er gagnrýni Egils ekki. Það er ekkert annað en barnaskapur að segja að ástæður þess að svona margt fór úrskeiðis í Sovétríkjunum hafi bara verið vegna þess að Stalín hafi verið svo vondur. Það er alveg jafn barnalegt þótt það sé vafið inn í margra metra umbúðir af orðskrúði.
~ * ~

Það er svo margt sem mér þykir athugavert við umræður undanfarinna vikna, sem hófust kannski helst af því að 60 ár eru liðin frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Hvarvetna sér maður hatur á Rússum og kommúnistum - hatur og fordóma - sem eiga ekkert skylt við heiðarlega gagnrýni. Sem ég segi, þá fagna ég heiðarlegri gagnrýni, vegna þess að hún er uppbyggileg, hvöss og málefnaleg. Sú gagnrýni sem hefur hatur að útgangspunkti slær málefnaleg vindhögg en því meira um sig með frösum.
~ * ~

Æ, ég veit ekki hvað skal segja. Egill Helgason hefur skrifað ýmislegt gott og gagnmerkt, það má hann eiga. En hann mætti alveg láta það eiga sig að ræða um kommúnisma og trúmál á þann hátt sem hann hefur gert. Þar eru strámenn, útúrsnúningar, ýkjur og rangfærslur hans ær og kýr.

No comments:

Post a Comment