Saturday, May 21, 2005

Kratabroddarnir hafa valið sér nýjan formann ef það fór framhjá einhverjum. Ég er að hugsa um að kalla Samfylkinguna framvegis „kratabroddana“ eins og góðir menn kölluðu Alþýðuflokksmenn hér á árum áður. Mér hefur aldrei fundist Össur vera efni í leiðtoga í stórum flokki. Mér finnst Ingjibjörg hins vegar vera það. Þannig að ég held að þetta hafi verið vel valið hjá kratabroddunum ... þótt þeir fái ekki mitt atkvæði út á það.
~~~ ~~~ ~~~
Ég datt í dag niður á Einræðisherrann eftir Chaplin í sjónvarpinu. Sú mynd hlýtur nú að vera með þeim áhrifaríkari. Chaplin sagði eftir stríðið að hann hefði ekki gert þessa mynd, hefði hann vitað hvað ætti eftir að gerast. Ekki það að það sé gert grín að þjáningum fólks; skrumskælingin á fíflagangi nasistanna er ekki beint fyndin, þótt fyndni sé blandað inn í. En þvílík mynd. Tilraun til að stappa stálinu í fólk sem helst hefði gefist upp fyrir þessari martröð.
Talandi um martröð, það var að renna upp fyrir mér hvað stjórnartíð nasista í Þýskalandi er fjarri manni. Það jaðrar við að mér finnist súrrealískt að þetta hafi gerst í alvörunni ... að atburðir stríðsáranna og áranna á undan jaðri við fjarstæðu -- en standa þeir þó það nærri okkur í tíma að maður þekkir fólk sem var þarna. Hverju er um að kenna? Ég býst við að það sé það, hvernig þessir atburðir hafa öðlast hálf þjóðsagnakenndan blæ. Það er auðvitað stórvarasamt ef hryllingur verður svo fjarlægur okkur að hann fái smugu til að endurtaka sig. Ég er því miður hræddur um að þess sé ekki langt að bíða, þótt með öðru móti verði.

No comments:

Post a Comment