Friday, August 19, 2005

Við Reykjavíkurtjörn suðvestanverða stendur stórt, dökkgrænt tjald, sem til skamms tíma stóð við Kárahnjúka. Það tjald hefur tekið við hlutverki mótmælabúðanna eða, réttara sagt, hýsir núverandi mótmælabúðir. Lítið endilega við ef þið eigið leið hjá. Þarna verður dagskrá fram að mánaðamótum.
Á morgun verður mótmælaskrúðganga frá Hallgrímskirkju kl. 13 og gengið niður að Tjörn/í Hljómskálagarð þar sem verður sprell. Komið og takið þátt. Mótmælendurnir, sem iðulega eru látnir líta út eins og ungæðislegir, nytsamir sakleysingjar, ellegar þá ofstopafullir öfgamenn, hafa verið hafðir fyrir rangri sök. Þetta er hið ljúfasta fólk.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Andfélgsleg [sic] hegðun nudduð á brott - þetta minnir mig næstum bara á "Galdra og pólitík". Að kalla hegðun barna úr fátækrahverfum "andfélagslega" er einfaldlega tilraun til þess að kriminalisera kúltúr æskunnar. Það leysir engan vanda heldur býr til afbrotamenn úr krökkum sem hafa ekkert gert af sér. Vandamálin, sem vissulega eru til staðar í fátækrahverfunum, stafa af fátækt. Það er fátæktin sem þarf að leggja til atlögu við, og það verður ekki gert með neinu handleggjanuddi. (Kannski að þetta nudd sé samt í sjálfu sér ekkert slæm hugmynd...)
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Eini maðurinn sem dæmdur hefur verið vegna hryðjuverkaárásanna gegn Bandaríkjunum var í dag dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir þýskum dómstól þegar mál hans var tekið þar fyrir að nýju. Maðurinn, Mounir Motassadeq sem er marokkóskur, var dæmdur fyrir að hafa verið félagi í hryðjuverkasamtökum en dómurinn var kveðinn upp í Hamborg.
Hins vegar var kveðið upp fyrir dómnum að engar sannanir lægju fyrir um að Motassadeq, sem er 31 árs, tengdist árásunum í Bandaríkjunum með beinum hætti.
(Mbl)
Hann tengdist árásunum 11. september ekki, segir dómstóllinn. Það hefur enginn annar maður verið dæmdur fyrir aðild að árásunum, og dómi þessa náunga var hnekkt/breytt við áfrýjun. Athugið svo eitt: Á skjalinu þar sem Ósama bin Laden sjálfur er eftirlýstur af FBI eru talin upp nokkur ódæði sem hann er sagður tengjast -- en þar er 9/11 ekki á meðal! Hverju sætir??
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
„Grátandi fjölskyldur voru dregnar út af heimilum sínum og settar nauðugar upp í flutningabíla“ (*) og „[í]sraelskir lögregluþjónar og landnemar grétu saman þegar brottflutningur hófst frá stærstu landnemabyggð gyðinga á Gaza-svæðinu í dag.“ (*)
... mér sýnist hluttekningin vera talsvert meiri hjá Vísi, þegar það eru gyðingar sem eru fluttir nauðungarflutningum, en mig minnir að hún sé þegar Palestínumenn eiga í hlut. Ég hef spurt mig hvort fréttaflutningur af þessu sé of mikill. Þetta er PR-stunt og taktískt undanhald, sem er til þess hugsað að slá ryki í augu heimsbyggðarinnar og láta líta út fyrir að Ísraelar séu þó að gera eitthvað. En í raun eru þeir bara að styrkja sína eigin vígstöðu með því að sleppa takinu af nokkrum stöðum sem eru mjög kostnaðarsamir. Á sama tíma eru þeir í óða önn að koma upp aðskilnaðarmúrnum og dettur ekki í hug að leggja niður stærri landtökubyggðirnar á Vesturbakkanum - sem eru, allar sem ein, kolólöglegar. Athugið líka að annars vegar þessi aðgerð er einhliða en ekki í samráði við Palestínsku heimastjórnina. Hins vegar er það auðvitað sigur í sjálfu sér fyrir Intifada Palestínumanna, að þeim takist að hrekja Ísraela úr víghreiðsum sínum á Gaza. Það er sigur fyrir Intifada, og ekki skrítið að Palestínumenn fagni því sem vissulega er sigur, þótt varnarsigur sé.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Næstum því allir Íslendingar voru á móti því að Ísland styddi árásina á Írak. Samt mættu ekki nema nokkur þúsund manna á útifund til að mótmæla henni. Jafnvel þótt það væri gott veður. En þegar til stendur að horfa á trúða og drekka áfengi, þá er búist við 100.000 manns. Ég get ekki annað en sagt það sem mér dettur í hug, þótt ég viti að það sé óvinsælt meðal margra skoðanasystkina minna:
Það er eitthvað bogið við þennan mótmælakúltúr. Annað hvort er eitthvað að (a) mótmælum sem slíkum eða (b) þjóðinni sem slíkri. Eða eru fleiri möguleikar? Ég sé ekki betur en að annað hvort sé brotalömin sú að mótmælafundir séu illa sóttir vegna þess að fólk telur þá ekki hafa nein áhrif, ellegar þá að fólki standi svo á sama að það nenni ekki að standa upp af rassgatinu og slökkva á sjónvarpinu í einn klukkutíma.
Því miður held ég að það sé ekki sanngjarnt að segja að það sé fólkið sem sé svona miklir vitleysingar. Mótmælafundir eru fyrirsjáanlegir og ráðamenn búast við mótmælum þegar þeir taka ákvarðanir sem þeir vita að eru óvinsælar. Hvenær áorkaði mótmælafundur síðast einhverju á Íslandi? Þá held ég nú að beinar aðgerðir, hvort sem þær eru að hlekkja sig við vinnuvélar eða sökkva hvalaskipum, séu nú árangursríkari. En ennþá erum við reaktíft-megin við hið pólitíska frumkvæði.
Fólk vill búa við annars konar samfélag. Eftir hverju er það að bíða, með að byggja það bara upp? Það gerist ekki af sjálfu sér, sama hversu lengi við bíðum. Nýtt samfélag verður ekki skapað á löggjafarþingi. Og umfram allt verður það ekki að veruleika með því að mótmæla sjúkdómseinkennunum á því gamla. Jamm, það er ekki eftir neinu að bíða.
Segi ég og held áfram að sitja á rassgatinu sjálfur.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Lögregla ósátt við aðdróttanir“ um að hún láti undan pólitískum þrýstingi. Ja, ég er bara ósáttur við að hún láti undan honum. Ef hún hættir því, þá hætta líka „aðdróttanirnar“. Aðfarirnar gegn mótmælendunum hafa verið lögreglunni til háborinnar skammar. Ofbeldi, hótanir, einelti, njósnir. Símahleranir, heimildarlausar húsleitir, hrindingar á prófessorum á áttræðisaldri, óeðlilega mikil eftirför í leyfisleysi ... án þess að neitt af glæpasamtökunum sem eru að fremja umhverfisspjöll fyrir austan hafi lagt fram kæru (af ótta við neikvæða umfjöllun og að í málaferlunum verði dreginn fram skítur um þá). Þrýstingurinn er pólitískur. Þeim er gefið að sök að vera ógn við öryggi og allsherjarreglu. Ógn við öryggi eru þeir ekki, og hvað í andskotanum er eiginlega allsherjarregla? Er hún skilgreind í lögum? Nei, þeim verður bolað úr landi til þess að hindra þau í að viðra skoðanir sínar. Auk þess verður síðasti mótmælandinn hvort sem er farinn af landinu fyrir mánaðamót, þannig að brottreksturinn - ólöglegur, að sjálfsögðu - er ekki til þess gerður að koma þeim úr landi heldur er hann pólitískur, og til þess að þeir eigi ekki afturkvæmt næstu árin.

Já, lögregluofbeldi getur líka gerst hér.

No comments:

Post a Comment