Monday, August 15, 2005

Um leið og ég styð málstað hinna alræmdu mótmælenda heilshugar (og líkar býsna vel við þá þeirra sem ég hef kynnst), þá hef ég miklar efasemdir um ýmsar aðferðir sem þau hafa notað, svo ég taki ekki dýpra í árinni. Eða, réttara sagt, sumt held ég að þau hefðu átt að láta ógert. Veggjakrot í miðbænum, hvaða gagn gæti það gert? Gerir það nokkuð annað en að gera mótmælendurna að krökkum með skemmdarfýsn í augum almennings? Kannski afla málstaðnum nokkurra "píslarvotta" með því að fólk geti bætt einni eða tveim handtökum á afrekaskrána? Úða málningu á Jón Sigurðsson? Hvers á hann, af öllum mönnum, að gjalda? Hvers vegna henda þau ekki frekar grjóti í gegn um stofugluggann hjá Friðriki Sófussyni (forstjóra Landsvirkjunar) eða eitthvað? (Nei, ég er ekki að hvetja til þess, en FS stendur óneitanlega nær málinu en JS!)
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það sem mér þætti bjútifúl dæmi um borgaralega óhlýðni, í þágu íslensku landsbyggðarinnar, væri þetta: Allir landsins trillukarlar og bátaeigendur róa út á miðin og veiða eins og þeir geta, hvort sem þeir hafa kvóta eða ekki. Ef allir gera það er ekki hægt að handtaka neinn fyrir það. Hugmyndin er að með þessu væri mótmælt í verki kvótakerfinu sem er eins og kyrkingaról á hálsi margra útgerðarplássa. Eiga trillukarlar landsins að láta kyrkja sig án þess að mögla? Ef þeir vilja það, verði þeim þá að góðu. En ef þeir vilja gera eitthvað og stjórnmálamennirnir sitja með hendur í skauti, er þá til betri leið en þessi?

No comments:

Post a Comment