Thursday, August 18, 2005

21 útlendingi verður vísað úr landi fyrir ýktar og lognar sakir, 21 útlendingi sem þykir það mikið til landsins okkar koma að þau gerðu sér sérstaka ferð hingað til að berjast gegn eyðileggingu þess. Ég trúi því varla upp á Íslendinga að Kárahnjúkavirkjun sé að verða að raunveruleika. Þvílíkt flakandi sár í stærsta ósnortna víðerni sem fyrirfinnst í Evrópu. Að ríkisstjórnin skuli dirfast að leggja blessun sína yfir þetta -- nei, stuðla beinlínis að þessu -- á sama tíma og hún reynir að markaðssetja þetta vesalings land sem náttúruperlu norðursins. Perla schmerla. Eftir 20 ár verður ekki fallegt um að litast. Þá mun fólk allt í einu vakna upp við vondan draum: Hvað varð um fegurð landsins okkar? Hvað létum við gerast?
Kvótakerfið er að ganga af landsbyggðinni dauðri og fólk lætur það yfir sig ganga. Ef ég væri vestfirskur trillukarl, haldið þið að ég mundi láta bjóða mér að mega ekki róa til fiskjar? Ekki aldeilis. ÉG skil ekki í mönnum að brjóta ekki þessi fábjána lög. Óréttlátum lögum ætti enginn að fylgja. Ríkisstjórnarflokkarnir eiga hagsmuna að gæta í kvótakerfinu þannig að ekki munu þeir afnema það. Ekki forsætisráðherrann sem í tíð sinni sem sjávarútvegsráðherra kom því á til að byrja með. Til að fylla vasana af blóðpeningum. Júdasargulli. Kemur sínu eigin fólki (nema auðvitað sínum allra nánustu) á vonarvöl og býður svo upp á þetta helvítis rusl í staðinn, virkjun og álver. Að þetta eigi að laga atvinnuástandið er ryk sem slegið er í augu auðtrúa fólks, en er í raun skálkaskjól til þess að bandarísk stórfyrirtæki geti mokað inn peningum með því að rústa litla sæta landinu okkar.
Eigum við skilið að búa í þessu fallega landi ef við förum svona með það? Tja ... ef við skemmum það, þá verðum það víst við sem sitjum í drullunni í framtíðinni. Þeim svíður sem undir mígur. Verði okkur bara að góðu.
Ef á ferðinni væri heiðarlegur vilji til að forða sjávarplássum landsins frá hruni, þá yrði kvótakerfinu gjörbreytt og kvótanum úthlutað til sveitarfélaga sem byggðakvóta.

21 útlendingi verður sparkað úr landi, ólöglega, fyrir að mótmæla ólöglegri virkjun og ólöglegu álveri.

21 píslarvottur.

No comments:

Post a Comment