Saturday, August 13, 2005

Á Al Jazeera segir frá því hvernig bandarískir hermenn hafi stillt upp vopnum við lík af Írökum (og íraska fanga) og kallað það svo fallna andspyrnumenn, sem í raun voru fallnir óbreyttir borgarar. Margir jafnvel á unglingsaldri. Annað eins hefur nú skeð. Það er þekkt hvernig Hinn konunglegi her Nepals klæðir dauða menn í maóistabúninga og segist hafa drepið einhver ósköp af byltingarmönnum.
Þegar herir eða aðrar vígasveitir grobba sig sjálfar af mannfalli í röðum óvina, þá er ástæða til að taka öllum tölum (og öðrum upplýsingum) með fyrirvara. Auðvitað reyna allir styrjaldaraðilar að gera sinn hlut sem mestan og hermanna sinna sem bestan, og hverjum dettur í hug að stríð sé einskorðað við vígvöllinn? Nei, það er ekki síður háð í fjölmiðlum, þar sem barist er um almenningsálit, trúverðugleika og traust eða hræðslu. Sérhver her reynir að virðast ósigrandi, og reynir að láta andstæðinga sína sýnast veika á svellinu.
Þegar menn hafa hag af því, að fólk haldi á annan veginn eða hinn, hver sem sannleikurinn er, þá er rétt að efast sérstaklega um hreinskilni þeirra!

No comments:

Post a Comment