Monday, August 22, 2005

Satt ... en frekar dorkí.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Lesið hinn ágæta greinarstúf „Harðlínumaðurinn vann umbótasinnann“ eftir Sverri Jakobsson aftur, og lesið því næst fréttina „Samansafn af afturhaldssinnum“ á Vísi. „Eru ráðherrarnir flestir taldir örgustu afturhaldssinnar og andsnúnir þeim umbótum sem fyrirrennarar þeirra á síðasta kjörtímabili hafa staðið fyrir.“ Gildishlaðið málfar? Frá hvaða sjónarhorni er þetta skrifað?
Svo lengi sem Bandaríkjamenn eru gráir fyrir járnum á þröskuldinum hjá Írönum, held ég að þeir ættu bara að koma sér upp kjarnorkusprengjum sem fyrst. Þannig gætu þeir tryggt sér fælingarmátt til þess að verja land sitt fyrir Bandaríkjunum. Það virðist ekki veita af. Hvað ætli Kalda stríðið hefði verið kalt ef Sovétmenn hefðu ekki átt kjarnorkusprengjur líka?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Fleyg orð: „Einhverjir sakleysingjar héldu að Bush mundi kannski skipa aðra konu í hæstarétt. Það fólk skilur ekki eðli illskunnar.“ (Sverrir Jakobsson)
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ian Blair segist ekki ætla að segja af sér - það mætti halda að hann væri Íslendingur. Staðinn að lygum um málsatvik þegar Brasilíumaðurinn saklausi var myrtur með köldu blóði, og hefur óspart varið þá stefnu bresku lögreglunnar að skjóta til að drepa. Þessi skíthæll ætti að segja af sér og það tafarlaust.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
„Yfirvöld í Lundúnum ætla að eyða milljónum punda í auglýsingaherferð sem miðar að því að fá ferðamenn til borgarinnar en þeim hefur fækkað mikið í borginni síðan hryðjuverkaárásirnar voru gerðar í lestum og strætisvagni borgarinnar þann 7. júlí síðastliðinn.“ (*)
Hér er ókeypis ráð handa borgaryfirvöldum London (ef þau kunna íslensku): Ástæðan fyrir því að ég er ekki iðandi í skinninu yfir að koma til London er sú að það er þrúgandi að vera þar og maður getur ekki um frjálst höfuð strokið. Síðast þegar ég var þar sá ég svo margar eftirlitsmyndavélar að mér leið beinlínis illa -- sumar myndavélastæðurnar minntu úr fjarlægð helst á furuköngla! Ég hlakka til að koma til London þar sem maður getur í sakleysi sínu farið óséður inn á pöbb og kveikt sér í vindli með samþykki húsráðanda. Hvenær eða hvort það verður veit ég ekkert um.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í staðinn fyrir að láta mótmælendur komast upp með múður verður bráðum hægt að halda þeim í skefjum með því að steikja á þeim húðina með þar til gerðri vél. Það verður aldeilis gaman að vera óánægður með ástandið þegar lögregluríkið er orðið svo yfirþyrmandi að það er ekki einu sinni hægt að andmæla því lengur.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hvað varð um mál Mumia abu Jamal? Hann, sem allir voru að tala um fyrir svona áratug síðan, situr ennþá í fangelsi og hefur það ennþá jafn skítt. Hafa íslenskir unglingar gleymt honum?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
90% Chechena undir fátæktarmörkum. Það setur að mér hroll yfir níðingsskap Rússa í Checheníu (já, Bandaríkjamenn eru ekki eini kölskinn!) ... þetta litla lýðveldi sem berst fyrir sjálfstæði og er beitt skefjalausu ofbeldi og valdníðslu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Tékkið á þessari snilld!

No comments:

Post a Comment