Wednesday, August 17, 2005

Palestína, R-listinn, smávegis fleira


Landtökukona kveikir í sér í mótmælaskyni. Þessi hreyfing messíanskra þjóðernis-bókstafstrúarmanna, Appelsínustakkarnir, er vægast sagt varasöm. Þeir nota sama einkennislit og stuðningsmenn Jústsénkós í Úkraínu og láta eins og þeir séu ísraelska útgáfan af sams konar hreyfingu, sem þeir eru ekki. Þeir eru fasistahreyfing í fæðingu - eða, réttara sagt, nýfædd fasistahreyfing. Þeir eru margir, mótiveraðir, öfgafullir, ofbeldishneigðir, sannfærðir um guðlegt réttmæti sitt og fullir af fyrirlitningu á nágrönnum sínum, Palestínumönnum. Því lýðræði, sem þrátt fyrir allt hefur þrifist í Ísrael, er líka hætta búin af þessum brjálæðingum. Svona samhentur, fjölmennur og vel skipulagður hópur á nefnilega frekar auðvelt með að taka völdin. Avnery spáir borgarastríði í Ísrael. Ég held að það sé of mikil bjartsýni. Frammi fyrir svona kónum kemur almenningur sjaldan nokkrum vörnum við. Þeir munu sennilega taka völdin án þess að þeim verði veitt ýkja mikil mótspyrna.
Þá verður grátur og gnístran tanna. Þá fyrst verður þjóðernishreinsun, sem um munar, framkvæmd á Palestínumönnum. Án þess að lítið sé gert úr þjáningum þeirra hingað til. „Ýtt út í eyðimörkina.“
Ekki síður uggvænlegt er til þess að hugsa, að það sama gæti gerst í Bandaríkjunum. Þar eru kristnir bókstaftrúarmenn voldugir og ríkir og með drjúgan hluta þjóðarinnar á sínu bandi. Demókratar eru í besta falli hlægilegir, í versta falli glæpsamlegir, þykjast vera valkostur við últra-hægrimenn, en eru ekki nema „diet últra-hægri“, ef svo má að orði komast. Í Bandaríkjunum er enginn sem núna er reiðubúinn að verja lýðræði og mannréttindi heima fyrir ef til kastanna kemur. Enginn. Eina aflið sem er fært um það er almenningur sjálfur, en hann er sjóvgaður og værukær, áhugalaus og afvegaleiddur - og auk þess óskipulagður.
Gott er til þess að hugsa að svona getur aldrei gerst á Íslandi. Nei, íslenskur almenningur er vakandi og með á nótunum. Lýðræðið stendur föstum fótum hérna vegna þess að almenningur stendur um það vörð. Hér kemst enginn upp með að fótum troða vilja almennings eða beita lúabrögðum eða baktjaldamakki til að ná sínu fram. ...
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þegar umhverfisvinir héldu lautarferð á Austurvelli um helgina, þá þurfti valdstjórnin auðvitað að mæta og minna á hvað armur hennar væri langur. Handtók einn fyrir engar sakir og misþyrmdi prófessor á áttræðisaldri. Handtakan hefur fengið nokkra umfjöllun í fjölmiðlum, en hvernig stendur á því að maður hafi ekkert séð um prófessorinn sem var lemstraður eftir lögregluna?
Annars er komið upp tjald við Reykjavíkurtjörn (við suðvesturenda stóru tjarnarinnar), þar sem eitthvað verður um að vera á næstunni.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Eins og R-listinn hefur verið upp á síðkastið held ég að ég eigi ekki eftir að sakna hans. Það er reyndar synd hvernig hefur farið fyrir þessu þó merkilega framtaki, að sameina vinstrivænginn og koma íhaldinu frá völdum í borginni – um leið og það er lærdómsríkt að listinn hafi á endanum kiknað undan sjálfum sér. R-listinn er ábyrgur fyrir ófáum heimskupörum sem gera það að verkum að áframhaldandi seta hans á valdastólum hefði ekki verið neitt sérstaklega jákvæð. Mun íhaldið standa sig betur? Ég efast um það (þótt ég viti það auðvitað ekki með vissu). Vilhjálmur Vilhjálmsson sagði í Mogganum að það góða gengi sem Sjálfstæðismenn væntu í komandi borgarstjórnarkosningum væri ekki að þakka klúðri R-listans heldur því sem Sjálfstæðismenn hefðu gert sjálfur. Della. Sjálfstæðismenn hafa veitt R-listanum aðhald á sama hátt og stjórnarandstaða gerir vanalega: Með því að gagnrýna flest sem stjórnin gerir. Sumt hefur vissulega hitt í mark, annað hefur verið klúðurslegra. Þegar öllu er á botninn hvolft reynist R-listinn fullfær um að skemma sjálfan sig innan frá upp á eigin spýtur.
Eins auðvelt og manni virðist það hefði gerað verið, að lappa upp á hann, eða jafnvel blása alveg nýju lífi í hann. Ef ég hefði ráðið þessu hefðu Framsóknarflokkurinn og skransalinn fengið að róa. Það hefði verið það fyrsta. Þátttaka og hlutverk Framsóknarflokksins nægir mér sem ástæða til að kjósa ekki R-listann. Síðan hefði ég boðið Frjálslynda flokknum að taka þátt í listanum á jafningjagrundvelli. Össur Skarphéðinsson hefði orðið borgarstjóraefnið og tveir varaborgarstjórar yrðu tilnefndir, annar úr VG og hinn úr F-listanum. Sætunum á listanum hefði ég skipt svona: SVFÓSVÓFSVFSVF þar sem S er Samfylking, V eru VG, F er F-listi og Ó eru óháðir. Meðal málefna á stefnuskrá fyrir kosningarnar hefði ég sett: Bindandi atkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar, hvort eigi að leggja hann niður við fyrsta tækifæri eða ekki. Miklar endurbætur á leiðakerfi Strætó, og að ókeypis verði í Strætó, alltaf og fyrir alla. Þéttari byggð í formi fleiri háhýsa nálægt miðbænum. Aðkoma borgarinnar að orkusölu til stóriðju yrði líka lögð undir atkvæði.
Nýr R-listi hefði unnið stórsigur, Framsóknarflokkurinn þurrkast út og íhaldið lotið í lægra haldi aftur. Flókið, ekki satt?
Það er sagt, að þegar menn setjast að samningaborði, eigi þeir að tala saman á þeim nótum að þeir ætli að semja – það er að segja, ef þeir ætla það í alvörunni. Annað hvort hefur viðræðunefndin um framtíð R-listans ekki vitað þetta, ellegar þá að einhverjir í henni vildu innst inni ekki semja, giska ég á. Hverjir það hefðu átt að vera veit ég ekki og þykist ekki vita. En í öllu falli hefur þessu merkilega framtaki verið klúðrað, virðist vera.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í ljós er komið að ýmislegt er gruggugt við frásögur lögreglu af dauða Brasilíumannsins í London um daginn.

No comments:

Post a Comment