Friday, July 1, 2005

Uri Avnery er einn af mínum eftirlætis greinahöfundum. Nýjasta grein hans, The Day After, er frábær. Hann gerir hreyfingu ísraelskra landtökumanna, ísraelskum stjórnmálum og samskiptum Ísraela og Palestínumanna góð skil - eins og hans er von og vísa.
~~~ *** ~~~ *** ~~~

Íraska andspyrnuhreyfingin Rafidan svarar lygum Rumsfelds fullum hálsi.
~~~ *** ~~~ *** ~~~

Úzbezka blaðakonan Galima Bukharbaeva ber vitni um fjöldamorðin í Andijan í Úzbekistan í maí sl. og biðlar til Bandaríkjastjórnar að fordæma bandamann sinn og svarabróður, ógeðið Islam Karimov, forseta landsins. Ég dreg það stórlega í efa að Bandaríkjastjórn verði við þeirri bón. Ríkisstjórn Úzbekistan gegnir nefnilega mikilvægu hlutverki í alþjóðlegu pyntinganeti Bandaríkjastjórnar. Hrottaskapnum í fangelsunum þar verður ekki með orðum lýst, verktakavinna í óþverraskap. Því fyrr sem Úzbekar mölbrjóta þá glæpaklíku sem kallar sig ríkisstjórn þeirra, þess betra.
~~~ *** ~~~ *** ~~~

Í bloggi í dag bendir Ágúst Borgþór á grein í „Vef-Þjóðviljanum“, sem ber engan titil en er dagsett 30. júní. Alla jafna þykir mér lítið koma til greina þar sem höfundar er ekki getið, en í þetta skipti fýsir mig samt að tjá mig aðeins. Ágúst segir að þetta sé „drepfyndinn pistill um pólitískan rétttrúnað Morgunblaðsins“ og ég get ekki neitað því að hann er lipurlega skrifaður. Umfjöllunarefnið er Morgunblaðið og skoðanir þess á beinu lýðræði. Hinn nafnlausi höfundur segir að Morgunblaðið sé fundvíst á fátækt. Skrítið, en ég hef ekki tekið mikið eftir því. Hins vegar hefur mér stundum fundist „Vef-Þjóðviljinn“ naskur á að yfirsjást fátækt. Fyrir utan að blöð eru sjaldan fundvís á nokkurn skapaðan hlut, vegna þess að þau eru dauðir hlutir. Um ritstjóra eða blaðamenn gegnir öðru máli; þeir geta verið hinir fundvísustu ef því er að skipta.
Nafnlausi höfundurinn álítur að beint lýðræði feli í sér að fólk greiði „atkvæði um málefni annarra“ en virðist ekki hugsa til þess að fólk geti verið að kjósa um sameiginleg mál sjálfra sín og annarra. Hinn ónafngreindi höfundur sýnir reyndar aðdáunarverða hreinskilni þegar hann skýrir frá því að vefsíðan hans (sem hann kallar „blað“) sé eiginlega á móti lýðræði, eða vilji a.m.k. setja því miklar skorður. Þess í stað vilji „blaðið“ (hvernig getur blað viljað eitthvað?) meira frelsi einstaklinga - sem höfundur tekur þægilega úr samhengi við það að við erum ekki bara einstaklingar, heldur einnig samfélag. Hvað er frelsi án ábyrgðar? Hvað er frelsi án jöfnuðar? Mikhail Bakínín hafði lög að mæla þegar hann mælti hein fleygu orð: „Frelsi án félagshyggju er forréttindi og óréttlæti; félagshyggja án frelsis er þrældómur og fautaskapur.“
Hinn ónafngreindi höfundur (já, það fer í taugarnar á mér þegar greinar eru ekki auðkenndar höfundi!) bendir réttilega á að ef beint lýðræði væri meira en við byggjum við sama fjölmiðlaumhverfi og við gerum nú, þá yrði völd ritstjóra og álitsgjafa mun meiri en þau eru. Hann tekur það svosem ekki fram, en á auðvaldsfjölmiðli er lýðræðið sjaldan nokkuð - hver kaus ritstjórn Morgunblaðsins eða fréttastjóra Stöðvar tvö? Höfundurinn bætir því svo við að almenningur vilji ekki setja sig eins vel inn í málefni líðandi stundar vegna þess að hann hafi öðrum hnöppum að hneppa. Það þykir mér aum staðhæfing. Fyrir utan að fólk er ekkert of gott til að setja sig inn í mál sem varða það sjálft, þá efast ég um að nokkur verði neyddur til að taka þátt í beinu lýðræði ef hann kærir sig ekki um það!

No comments:

Post a Comment