Sunday, July 10, 2005

Fann fjársjóð á háaloftinu!


Þegar ég var lítill lék ég mér í Pleimó á háaloftinu. Einu sinni ákvað ég að stytta mér leið til velgengni í síðari leik, svo ég dró saman heilan haug af flottu dóti og faldi á vel völdum stað. Svo vel völdum að þegar til kom fann ég hann ekki aftur.

Svo liðu 15 ár.

Áðan var ég að taka til á háaloftinu (svosem ekki ítarlega) og fann aftur fjársjóðinn sem ég faldi hér um árið! Hann samanstóð af einum vörubíl með tengivagni, hvort tveggja fullt af gulli, vopnum og öðru dóti sem kemur sér vel í Pleimó. Á að giska 15 skammbyssur, 25 rifflar, nokkrir töff útlítandi karlar, nokkrar fjársjóðskistur fullar af gullpeningum, fágætir hlutir á borð við krítarpípu, fjaðurpenna, sjónauka, montprik, kórónu og ýmislegt annað.

Það er verst að ég hef ekki leikið mér í Pleimó í ansi mörg ár. Þessi fundur hefði verið hreinn hvalreki ef hann hefði verið 15 árum fyrr.

Æ, hann var nú hvalreki samt!

No comments:

Post a Comment