Wednesday, July 13, 2005

London: Efasemdir og efasemdir um efasemdir


Eins og varðandi atburðina 11. september 2001, hefur Matti efasemdir um efasemdir mínar um það sem stjórnvöld og fjölmiðlar segja um sprengingarnar í London. Svo það komi fram, þá set ég fyrirvara við (a) hvað fólk virðist vera fljótt að úrskurða að íslamskir bókstafstrúarmenn hafi verið að verki (einir) og (b) hvað stjórnvöld eru strax farin að gera sig líkleg til að misnota sér þessi ógæfuverk í pólitísku skyni. Varðandi fyrri liðinn, þá veit ég ekki hverjir voru að verki. Tony Blair er margfaldur lygari og hefur hagsmuni af að skýringarnar séu á þennan veginn eða hinn, svo ég vantreysti því sem kemur frá honum eða öðrum innan breska stjórnkerfisins. Það tengist svo aftur seinni liðnum: Vegna þess hvað stjórnvöld eru fljót að ætla að nýta sér hryðjuverkin í eigin þágu, og vegna þess að fyrir liggja óteljandi dæmi um að stjórnvöld (ýmissa landa) framkvæmi sjálf ódæðisverk gegn eigin borgurum einmitt til að nýta sér þau í pólitísku skyni, þá er óvarlegt að útiloka að sninister element innan stjórnkerfis Bretlands sjálfs hafi komið nálægt þessu - ég sé ekki að slík element ættu ekki að vera til skoðunar.

Matti skrifar um hvernig Donald MacIntyre gat keypt vopn og sprengiefni í fyrrum Júgóslavíu. Nú veit ég ekki hvort hann hafði í huga þau orð mín að „[s]prengiefnið í árásunum í London [sé] talið hafa verið hernaðar-sprengiefni. Hvaðan? Ekki vitað. Grunsamlegt? Kannski.“ Ég veit ekki hvað fólk les úr þessum orðum mínum, en af minni hálfu meinti ég ekki annað en það sem ég skrifaði: Kannski grunsamlegt. Það er ekki flókið að verða sér úti um vopn og sprengiefni ef maður er staðráðinn í því. Ef element í breska stjórnkerfinu eiga þarna hlut að máli, þá dreg ég líka í efa að þau mundu nota sprengiefni sem aðeins element í breska stjórnkerfinu gætu nálgast! Það væri einum of heimskulegt!

Öryggisæfingin margumtalaða ... ég veit ekki hvað slíkar æfingar eru algengar, en þær eru varla daglegt brauð. Mér þykir hins vegar athyglisvert að þarna hafi svipað verið uppi á teningnum og 11. september, að það hafi verið í gangi æfing þegar alvöru árás var gerð. Tilviljun? Það getur verið, en það er þá merkileg tilviljun.

(Hvað varðar David Galbraith og/eða þá hugmynd að árásirnar hafi beinst að múslimum, þá hef ég ekkert um það að segja.)

Annars bætir Matti við:
ps. Munið þið eftir því þegar því var spáð að Osama bin Laden kæmi í leitirnar fyrir síðustu forsetakosningar í Bandaríkjunum. Í raun væri fyrir löngu búið að handtaka hann og stjórn Bush væri að geyma hann! Hvað varð um þá kenningu? :-)
...ef ég man rétt var ég einn þeirra sem veltu vöngum yfir þessu á sínum tíma. Bin Laden kom ekki í leitirnar, jafnvel þótt mjög mjótt væri á munum í kosningabaráttunni, og það er auðvitað engin „staðfesting“ á neinu, að hann hafi sent frá sér myndband sem hlaut að styrkja Bush. En fyrst spurt er hvað hafi orðið um þá kenningu, þá er því til að svara, að það kom á daginn að hún stóðst ekki. Það þarf varla að orðlengja það meira. Ætli bin Laden verði nokkurn tímann „dreginn fram í dagsljósið“? Ætli hann sitji ekki bara á hreppstjórasvítunni á Hotel Dubai með Havanavindil og lífverði á launum hjá CIA? Tja, því ekki það?

Hreinn Hjartahlýr bendir á heimasíðu Juan Cole (sem er hin athyglisverðasta; ég á örugglega eftir að skoða hana oftar) og vitnar í Cole þar sem hann skrifar:
First, we still have no idea who did this. It is very likely the "Qaeda al-Jihad in Europe" group that claimed responsibility immediately. Their statement appeared very quickly after the bombings and yet had none of the appearance of being rushed. That suggests it was carefully composed before the fact. The rumors that the statement has errors in the Arabic or the Quran citation are absolutely incorrect, and al-Sharq al-Awsat came to the same conclusion in its Saturday edition.
Ég hef ekki séð þessar yfirlýsingar, kann ekkert í arabísku, og ætla ekki að vefengja það sjálfur að yfirlýsingarnar séu á réttri arabísku. Hvorki hef ég forsendur til þess, né skiptir það svo miklu máli. Það er ekki flókið að koma saman yfirlýsingu á réttri arabísku, enda enginn hörgull á fólki sem talar hana. Þessi "Leynisamtök al-Qaeda í Evrópu" eru merkilegra umhugsunarefni. Hvaða fólk leynist á bak við þetta heiti? Hvaða hagsmunir? Hver sem er gæti kallað sig einhverju svona nafni. Ef Cole hefur rétt fyrir sér má leiða getum að því að þeir sömu og skipulögðu árásirnar hafi einnig samið yfirlýsinguna og sent hana út. Þeir sömu, hverjir svo sem þeir eru.

Már skrifaði líka, m.a.: „En svona samsærisköltismi er náttla trúarbrögð eins og hver önnur, og ég býst ekki við að snúa neinum af sinni leið.“ Svona samsæris„költismi“? Við skulum átta okkur á einu: Samsæri er ekki það sama og samsæri. Það er til fólk sem aðhyllist vægast sagt langsóttar samsæriskenningar, t.d. margvíslegar kenningar sem fela í sér geimverur, svo dæmi sé tekið. Þeim hópi tilheyri ég ekki, svo það komi fram, og frábið mér slíkan samanburð. Ég tilheyri hinsvegar þeim hópi sem sér ástæðu til að vantreysta stjórnvöldum og gruna þau um græsku þegar slæmir atburðir gerast af mannavöldum og viðkomandi stjórnvöld hafa hagsmuna að gæta af þeim. Ég held að fáir neiti því að næg séu dæmin um myrkraverk stjórnvalda gegn sínum eigin þegnum í pólitísku skyni. Það er ekki ástæða til að treysta heiðarleika eða einlægni stjórnvalda, stjórnmálamanna eða embættismanna. Þegar maður finnir reykjarlykt leitar maður að upptökunum.

Má fannst ekki mikið koma til greinar sem ég vísaði í á Propaganda Matrix. Ég skal síðastur manna neita því, að Alex Jones og félagar eiga það til að draga full-djarfar ályktanir! Æfingarnar 11. september eru hins vegar ekki þeirra heilaspuni, þær stóðu yfir í alvörunni.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Einnig var spurt hvað ég hefði að segja um hryðjuverkin í Madríd í fyrra. Ég hef það að segja um þau að hr. Aznar (a) var allt of fljótur á sér að kenna ETA um þau og (b) gerði (misheppnaða) tilraun til að notfæra sér árásirnar í pólitísku skyni. Röksemdir hans voru eitthvað á þessa leið: „Hryðjuverkamennirnir reyna að hræða Spánverja frá þátttöku í Íraksstríðinu; kjósið mig til að sýna að þið óttist ekki.“ Spænskir kjósendur létu ekki glepjast og kusu Zapatero & Co. í staðinn. Hvort Marokkómennirnir sem voru handteknir voru sekir eða saklausir veit ég ekki.
Mér er ekki kunnugt um aðild Spánverja sjálfra að sprengingunum í Madrid, en mér er kunnugt hvernig reynt var að nota þær spænskum valdamönnum til framdráttar.

No comments:

Post a Comment