Saturday, July 16, 2005

Hollar ábendingar og annað röfl


Bróðir minn vísar í þrjár súper greinar eftir gamla góða Uri Avnery. Tékkið endilega á þeim. Umfjöllunarefnið eru landtökumennirnir í hernumdri Palestínu og útistöður þeirra við alla í kring um sig, nú síðast guðföður sinn Sharon.

Fyrst ég er að vísa í góðar greinar, þá ætla ég að feta í fótspor Dodda og Hreins Hjartahlýs (og sjálfsagt fleiri) og vísa í súper grein doktor Jakobssonar á Múrnum: „Það teljast ekki allir með“ - það taka sko ekki margir Sverri Jakobssyni fram þegar hann fer í bæinn, sem sagt er...

...og fyrst minnst er á Hrein (eða Hreinan?) Hjartahlýjan, þá vil ég líka benda á skrif hans að undanförnu, þar sem kennir margra áhugaverðra grasa. Hreinn, þú ert frábær.

Mér hefur upp á síðkastið (og reyndar oft áður) þótt gæta nokkurs misskilnings á því hvaða hugmyndir ég hef um al Qaida og mögulega aðkomu vestrænna stjórnvalda að hryðjuverkum í eigin ranni. Ég þarf eiginlega að reifa þetta mál í greinarkorni og skýra afstöðu mína. Ég nenni því ekki núna, en kem því vonandi í verk á næstunni.

Einn heiðursmaður skipti um símafyrirtæki nýverið og sagðist hafa sagt upp viðskiptum sínum við ríkið. Undirritaður henti það á lofti: „Mikið væri það sniðugt ef maður gæti bara sagt upp viðskiptum sínum við ríkið og orðið einhvers konar fullvalda einstaklingur.“ Mikið fannst mér ég þá vera snjall.

Musharraf hershöfðingi (ég neita að kalla valdaræningja forseta, þótt hann sé „okkar tíkarsonur“) ætlar að reyna að uppræta öfgar og bókstafstrú - með lögregluvaldi. Mikið væri lífið einfalt ef það væri hægt að lagfæra djúpstæð samfélagsmein með því að banna þau bara með lögum. Ég leyfi mér að hafa efasemdir um að þetta eigi eftir að ganga vel hjá honum.

Fór um daginn í fornbókabúð og keypti stafla af kommabókum, þar á meðal Ritgerðir eftir Maó Tse-tung, í íslenskri þýðingu Brynjólfs Bjarnasonar og fleiri heiðursmanna, í þrem bindum. Fyrir átti ég ritgerðasafn eftir Maó á ensku, í fimm bindum. Í hreinskilni sagt veit ég ekki hvort ég á nokkrun tímann eftir að nenna að lesa þetta allt. Eins og fleiri er Maó lítt vinsæll meðal flestra, skiljanlega, enda með ófá mannslíf á samviskunni. Það er samt synd að draga þá mynd upp af honum að hann hafi verið einhver ómennskur manndjöfull. Hvað sem líður illvirkjum sem framin voru í valdatíð hans, þá er eitt og annað í ritum hans sem ástæðulaust er að virða að vettugi. Nú verð ég sjálfsagt kallaður „maó-apologisti“ - en Maó átti sínar góðu hliðar líka.

No comments:

Post a Comment