Tuesday, July 26, 2005

Hér getur að líta mynd af meintum sprengjumönnum í London á dögunum:

Trúverðug mynd, ekki satt? Við fyrstu sýn, jú. Er nánar er að gætt er ég ekki eins viss. Sjáið manninn með hvítu derhúfuna ... skoðið hann vel ... lesið svo þetta. Hefur verið átt við þessa mynd? Hefur verið fiktað við mynd sem yfirvöld senda frá sér? Ég veit ekki mikið um myndvinnslu -- en mér þykir þetta líta einkennilega út.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Mér finnst skrítið hvað sumir láta sér fátt um finnast, að Arna hafi fengið meðferðina sem hún fékk á Ben Gurion-flugvelli. Sumir bloggarar, sum vefrit, sumir aðstoðarmenn utanríkisráðherra ... mér þykir það í frásögur færandi að fólk sæti illri meðferð af hendi opinberra starfsmanna, af ásetningi og í landi sem íslenska ríkisstjórnin telur til vina sinna. Það er nú það. Íslenska ríkisstjórnin er aumur leppur fyrir heimsvaldasinna. Hún er meira að segja svo grátbrosleg að reyna að halda úti vísi að eigin heimsvaldastefnu. Út af fyrir sig er ekkert óeðlilegt við það; kapítalískar ríkisstjórnir eru meira og minna sama eðlis hvar sem þær eru -- en engu að síður hallærislegt á svona litlu leiksviði eins og Íslandi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hef núna tekið strætó þrisvar sinnum með nýja leiðakerfinu. Get ekki sagt að ég sé bergnuminn. Get hins vegar sagt að af skyssum og afglöpum R-listans er þessi ekki sú minnsta. Ekki segi ég að þessu nýja kerfi sé alls varnað -- öðru nær, það hefur ýmsa kosti -- en gallarnir eru þónokkrir líka, þar á meðal nokkrir alvarlegir. Ég nenni satt að segja ekki að rekja það hér og nú -- aðrir hafa gert það annars staðar, ég kann að gera það síðar -- en á heildina litið er ég óánægður með þetta nýja kerfi. Það þarfnast mikilla og skjótra endurbóta.

No comments:

Post a Comment