Saturday, July 23, 2005

„Ekkert gefur tilefni til afskipta“ segir Illugi Gunnarsson um mál Örnu, sem var haldið í 30 klukkutíma varðhaldi með 10 klukkutíma stífum, ógnandi og yfirþyrmandi yfirheyrslum. „Segir Illugi það ákvörðunarrétt hvers ríki fyrir sig hverjum það hleypir inn í landið.“ -- Já Illugi, en það er ekki það sem málið snýst um, heldur er það ill og ósanngjörn meðferð á íslenskum ríkisborgara. Illugi beitir gömlu strámanns-rökvillunni, -- hann er inntur álits á einhverju en svarar einhverju öðru - svarar veikari spurningu í stað þeirrar sem spurt var.
Ísraelar hljóta að ráða því hverjum þeir hleypa inn í landið - hvað svo sem okkur finnst um það, hvernig þeir fara með það vald sitt - en að halda manneskju í 30 klukkutíma og beita ógnunum og aðdróttunum - það er í meira lagi athugavert. Orð Illuga sýna kannski best hvar í flokki íslensk stjórnvöld standa - sömu íslensku stjórnvöldin og skirrtust ekki við að loka Falun Gong-fólkið inni í grunnskóla í Njarðvík hér um árið. Íslensk stjórnvöld eru illa haldin af þjónkunarlund við erlend stórveldi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Sjálfbyrgingslegur vandlætingarvaðall Egils Helgasonar gegn Múrnum og öðrum illmennum heldur áfram. Makalaust að sjá hvað hann notar alltaf breiðan pensil þegar hann málar upp heimsmynd sína. Hvers vegna vill hann ekki sjá hlutina í samhengi? Fer eitthvað milli mála hvaða hlutverk Bandaríkin og leppar þeirra spila í atburðum líðandi stundar?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þórhallur Heimisson skrifaði um hryðjuverk og bókstafstrú í Fréttablaðið í gær („Bókstafstrú - hin leynda hætta“ s. 20) og var ekki í vafa um að bókstafstrú hefði glapið fjóra múhameðstrúarmenn til ógæfuverkanna í London 7/7 sl. Bókstafstrú er jafn hættuleg og hún er heimskuleg, hver sem á í hlut. Látum liggja milli hluta að trúfélag Þórhalls sjálfs byggir á „ritningu“ þótt það sé snúið út úr henni, og það þrátt fyrir hvað stendur í henni sjálfri:
„Ég votta fyrir hverjum þeim manni, sem heyrir spádómsorð þessarar bókar, að leggi nokkur við þau, mun Guð á hann leggja þær plágur, sem um er ritað í þessari bók.
Og taki nokkur burt nokkuð af orðum spádómsbókar þessarar, þá mun Guð burt taka hlut hans í tré lífsins og í borginni helgu, sem um er ritað í þessari bók.“ (Opinberunarbókin 22:18-19)
...en látum það liggja milli hluta. Þórhallur segir að lengi hafi „það verið haft fyrir satt að það sem knýr menn til að fremja voðaverka af þessu tagi sé fátækt og vonleysi, örvænting, fáfræði og úrræðaleysi einstaklinga sem aldir eru upp við ill kjör í fátækrahverfum þriðja heimsins.“ - það er líka rétt, það er yfirleitt svo þegar um sjálfsmorðsárásarmenn er að ræða. „Nú hefur aftur á móti komið í ljós að þeir sem frömdu morðin í London voru breskir ríkisborgarar úr millistétt“ - er það? Ég efast stórlega um það. Ekki nema í þeim skilningi að átt sé við þá illa innrættu baktjaldamakkara innan breska stjórnkerfisins, sem er líklegt að hafi haft puttana í spilinu! En Þórhallur heldur áfram: „Hið sama átti við morðingjana sem flugu farþegaþotunum á turnana í New York 11. september árið 2001 og þá sem stóðu á bak við árásirnar í Madríd fyrir skömmu. Þeir voru allir vel stæðir og vel menntaðir.“ Þórhallur tilheyrir þeim hópi fólks sem heldur að nokkrir óðir menn með dúkahnífa hafi rænt flugvélunum og klesst þeim inn í skotmörk sín og bandaríska stjórnkerfið ekki komið neinum vörnum við. Sú samsæriskenning hefur svo stórkostlega annmarka að það er óhætt að afskrifa hana. Fóru bókstafstrúarmennirnir á nektarbúllu og drukku sig fulla kvöldið fyrir árásirnar? Svo segir opinbera sagan. Gera bókstafstrúaðir múslimar þannig? Nei. Skilja þeir Kórana eftir á barstólum? Millilenda útsmognir samsærisrefir á leið í flugrán, með svo stuttum fyrirvara að þeir gætu misst af fórnarlömbum sínum ef fyrra flugið tefðist? Nei. Þessi saga er uppspuni, lygi. Hún er endurtekin í sífellu þangað til almenningur trúir henni. Með öðrum orðum er almenningur heilaþveginn með henni.
Condoleezza Rice, þá þjóðaröryggisráðgjafi BNA, sagði 22. september að Bandaríkjastjórn hefði undir höndum sönnunargögn sem tengdu Ósama bin Laden við atburðina 11. september. Þau gögn yrðu lögð fram í fyllingu tímans. Þau hafa ekki ennþá verið lögð fram. Opinbera samsæriskenningin er ennþá ekki annað en órökstudd samsæriskenning. Það eru ekki rökin sem blíva þar á bæ, heldur endurtekningin. En aftur að Þórhalli. Hann segir: „Þannig að ekki var það vonleysi eða fátækt sem að baki bjó. Svo virðist sem drifkrafturinn hafi verið hugmyndafræði sem kennd er við íslamska bókstafstrú.“ Íslömsk bókstafstrú -- hættuleg og heimskuleg sem hún er -- er grýla, máluð á vegg. Það sem er á ferðinni er herská og ófyrirleitin heimsvaldastefna stórveldis (BNA) í kreppu. Í því ljósi verður að skoða þessa atburði, aðdraganda þeirra og eftirmála. það gefur auga leið að það hafa ekki allir rétt við þegar þungir hagsmunir eru í húfi. Hvernig á að bæta hergagnaframleiðendum það upp, að Kalda stríðið sé búið? Það verður að finna nýja grýlu. Það eru næg dæmi um að menn innan CIA og hersins hafi lagt á ráðin um hryðjuverk til að nota sem skálkaskjól fyrir að útfæra heimsvaldastefnu í verki. Það eru næg dæmi um slíkar áætlanir. Meðal annars áætlanir sem ganga út á að hafa bandaríska borgara fyrir (fyrstu) skotmörk. Það er líka ástæða til að ætla að sumar þessara áætlana hafi verið framkvæmdar í alvörunni. Þar á meðal ein þann 11. september 2001.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Nú þegar þetta er skrifað er gamla leiðakerfi Strætó bs. að renna sitt síðasta og í staðinn kemur nýja leiðakerfið, sem er að sumu leyti ágætt, en að sumu leyti afleitt. Ég vona innilega að það verði tekið til gagngerrar endurskoðunar mjög fljótt!

No comments:

Post a Comment