Friday, July 29, 2005

Ég sé ástæðu til að benda á skrif á nokkrum bloggum, sem ekki sakar að líta á.

Hreinn Hjartahlýr hefur ekkert skrifað nema innblásin afreksblogg undanfarna daga. Lesið það allt, mér fallast hendur ef á á að hælæta einstök efnisatriði! En ég vil samt benda á "Drög að byltingu gegn heimskunni". Hreinn, takk fyrir að vera til og auðga líf okkar.

Þórði liggur mikið á hjarta - maðurinn sem eitt sinn gagnrýndi mig fyrir að blogga of mikið er genginn í lið ritræpusjúklinga sjálfur. M.a. skrifaði hann um leiðara Morgunblaðsins í gær (sem ég hefði klórað mér í skallanum yfir, ef ég væri sköllóttur). Styrmir segist bera meiri virðingu fyrir þeim sem mótmæli með "orðum og rökum".
Gott og vel. En hvað ef ekki er hlustað á þessi orð og rök? Ef orðunum og rökunum er ekki fylgt eftir með valdi, hvers vegna ættu ráðamenn þá ekki að skella skollaeyrum við þeim?
Borgaraleg stjórnmál snúast ekki um að komast að niðurstöðum sem eru bestar fyrir almenning. Þau snúast um að hlaða undir valda-bakland þeirra borgaralegu stjórnmálamanna sem sitja við stjórnvöl hverju sinni. Borgaraleg stjórnmál eru eiginhagsmunastjórnmál. Forréttindastjórnmál. Einkavinastjórnmál. Baktjaldamakkandi reykfylltra-bakherbergja klíkustjórnmál. Lýðræðislegt debatt er gjálfur eitt og gjamm, blandað rökvillum og frösum. Meira að segja umræðunni er stjórnað af valdastéttinni - þeim sem ráða yfir fjölmiðlunum, hvort sem það eru prívat stórbokkar eða flokksgæðingar út stjórnarflokkunum.
Fyrirætlunum þeirra verður ekki mótmælt með árangri nema til komi eitthvað sem lætur þá verða að taka tillit til þeirra. Ég er hræddur um að 100 manna útifundur breyti litlu um stuðning íslenskra stjórnvalda við Íraksstríðið. En ef verkalýðsfélögin hótuðu allsherjarverkfalli - eða viðskiptastórbokkar hótuðu að hefja stórkostlegan fjármagnsflótta úr landi - eða ef hótað væri hallarbyltingu í stjórnarflokkunum - eða ef froðufellandi dólgur sæti í Hallgrímskirkjuturni með 50 megatonna kjarnaodd ... ef slíkt vald væri í spilinu, þá yrði ekki hjá því komist að taka tillit til þess.
Ég er hræddur um að lakkúði á vinnuvél eða skyrblettir í silkislifsi hrökkvi of skammt.
Valdbeiting er tilgangslaus ef yfirburðirnir eru ekki afgerandi. Ríkisvaldið hefur einmitt afgerandi yfirburði þegar kemur að valdbeitingu, ekki síst vegna þess að hún siglir þá vindátt sem sterkust er í þjóðfélaginu þá stundina. Leiðin til þess að koma viti fyrir ríkisvaldið er að óbifandi vilji til spriklandi lýðræðis, alvöru mannréttinda, ábyrgs frelsis, vitræns þjóðarbúskapar og húmanískrar félagshyggju verði svo útbreiddur að hann verði meginstraumurinn og verði þess vegna ofan á. Til þess þarf efnahagslegan grundvöll sem er eðli stefnunnar samkvæmur, lóð þessara hugmynda í efnahagskerfinu verða að vega nógu þungt til að skipta sköpum. Já, þetta útheimtir víst geysimikla vinnu.

Hugleiðing mín um notagildi mótmæla sem baráttuaðferðar gerir Þórður líka að umtalsefni. Lesa það. Loks bendir hann á þessa grein Helga Seljan á heimasíðu Ögmundar Jónassonar. Lesa hana líka.

Síðasti bloggarinn sem ég bendi á í bili er Sverrir Jakobsson í þessu bloggi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Um daginn benti ég á þessa grein á Gagnauga þar sem fjallað er um síðasta Bilderberg-fund og spáð í spilin hvers megi vænta í fréttum á næstu misserum. Eitt atriðið var þetta:
Yuan, gjaldmiðill Kínverja leiðréttur
Reynt verður að sannfæra stjórnvöld í Kína um að leiðrétta gengi Yuansins. Vöxtur efnahags Kína hefur valdið ólgu í fjármálum heimsins og grípa þurfi til aðgerða í gjaldeyrismálum Kínverja.
Er það ekki að rætast? Það verður fróðlegt að fylgjast með, hversu mörg atriði rætast á þessum lista.

No comments:

Post a Comment