Thursday, July 28, 2005

Kárahnjúkabúðir, almennt um mótmæli og strategíu okkar íslenskra vinstriöfgamanna


Ég get ekki sagt að ég sé undrandi á því að tjaldbúðirnar við Kárahnjúka hafi verið teknar niður. Satt að segja þykir mér gefa auga leið að fólk, sem er þarna í þeim erindagjörðum að reyna að stöðva framkvæmdir, sé litið óhýru auga af fyrirtækjunum sem standa í framkvæmdunum, og þegar eignaspjöll eru annars vegar - auk þess þegar fólk hlekkjar sig við vélar og á jafnvel í handalögmálum við réttvísina - þá þykir mér ekki skrítið að valdstjórnin grípi í taumana. Mér þykir reyndar athyglisvert að það komi í hlut Prestssetrasjóðs, af öllum landsins stofnunum, að setja stólinn fyrir dyrnar.
Samúð mín er með mótmælendum við Kárahnjúka. Hvað sem því líður, hversu góð hugmynd þetta er/var í sjálfu sér, og hvað sem líður einstökum aðgerðum, þá er samúð mín með málstað mótmælendanna. Ég hef svosem sagt það áður, að ég hef misst trúna á mótmælum sem baráttuaðferð. Ég mótmæli vissulega stundum, þegar ástæða er til ... en það er frekar til þess að gera lýðum ljósa andstöðu mína, reka upp ramakvein þess sem ofbýður valdníðsla, ofbeldi eða óstjórn, eða einfaldlega til þess að friða mína eigin samvisku. Mótmæli eins og sér áorka samt ekki miklu. Sem liður í stærri strategíu geta þau gert það -- en sem afmörkuð aðgerð er í mesta lagi hægt að vinna varnarsigur með þeim.
Þegar að er gáð erum við ekki svo fá, sem látum okkur mikilsverð mál varða og leitum að lausnum til að byggja betra samfélag. Við erum ekki svo fá. Verkefni okkar eru heldur ekki óyfirstíganleg, öðru nær. Vandinn er í nokkrum þáttum:
a) Við erum tvístruð. Hvert í sínu horni áorkum við litlu og aðgerðir okkar verða samhengislausar hver við aðra.
b) Við erum stefnulaus. Afmarkaðar aðgerðir, án þess að við vitum að hverju við stefnum í stærra samhengi, eru vonlausar.
c) Við erum ótrúverðug. Helmingurinn af okkur eru gamlir hippar sem hafa staðið í pólitísku ströggli í áratugi án þess að áorka miklu. Hinn helmingurinn eru ungæðislegir krakkar fullir af draumórum. (Ég býst við að ég falli í síðari hópinn.)
d) Tengsl okkar við félagslegt umhverfi eru of veik. Á fyrsta maí mátti sjá kröfugöngu sem samanstóð aðallega af fulltrúum hinna ýmsu grasrótarhreyfinga, og af starfsmönnum verkalýðsfélaga. Í hinni fámennu göngu virtust ekki vera ýkja margir mættir sem hlunnfarnir launamenn. Þegar grasrótarstarf er annars vegar, hvar eru þá tengslin við verkalýðshreyfinguna, við atvinnulífið, við menningarstarfsemi, við fjölmiðla?
Aflið sem megnar að breyta samfélaginu er fólkið sem myndar það. Ef það fólk (almenningur) er ekki með okkur á bandi, þá eigum við ekki eftir að gera neina byltingu, enga stórkostlega breytingu á samfélaginu. Ef við náum ekki til fólks, þá ættum við að setjast niður og hugsa málin upp á nýtt.
Tvístrað lið stenst harðsnúinni fylkingu ekki snúning. Afturhaldsöflin hafa alla tíð haft vit á að fylkja liði sínu á vígvelli stjórnmálanna. Gegn slíkri fylkingu er ekki hægt að berjast nema fylkt sé liði á móti. Hvar er þessi fylking? Eftir hverju erum viða ð bíða, að mynda hana?

No comments:

Post a Comment