Thursday, July 7, 2005

Í gær (miðvikudag) keyrði ég austur í Skálholt, þaðan til Selfoss, aftur í Skálholt, aftur á Selfoss og svo heim. Í dag (fimmtudag) keyrði ég aftur í Skálholt, síðan á Sólheima í Grímsnesi (þar sem ég hitti þennan gaur) og svo austur á Þingvelli, frá hinum eiginlegu Þingvöllum suður fyrir Skálabrekku, svo til baka og Gjábakkaheiði og Laugardal inn í Skálholt aftur og svo Þrengslaleið til Reykjavíkur.
Ég er með svo miklar harðsperrur í lærunum og sitjandanum að það er eins og ég hafi farið ríðandi austur í Skálholt og heim...
Ég hafði gleymt því hvað Skálholt er svakalega glæsilegur staður. Bæjarstæðið er meiriháttar, útsýnið, náttúran, tignin yfir þessu bæjarstæði... Húsakjarninn í kring um kirkjuna er líka smekklegur. Annað sem er glæsilegt eru Sólheimar í Grímsnesi. Þegar ég ók niður heimreiðina leið mér eins og ég væri að koma inn í annan heim... gróðurvin, undurfagran skóg... það vantaði bara blómálfana, hehehe...
Í dag rættist enn fremur draumur sem ég hef átt mér frá bernsku: Ég er eigandi að heilli beinagrind af dauðri rollu. Ær ein skreið í vetur undir barð eitt, og bar þar beinin – sömu bein og ég bar áðan heim til mín. Þegar beinin veðrast betur er þarna komið stofustáss.

No comments:

Post a Comment