Monday, March 16, 2015

ESB, rétt ákvörðun, röng málsmeðferð

Eins og fastir lesendur mínir vita, er ég fortakslaus andstæðingur ESB-aðildar Íslands. Því styð ég að umsóknin sé tekin til baka og helsta gagnrýni mín við afturköllunina er að hún hefði mátt verða fyrr.

Að því sögðu, er naumast hægt að láta málsmeðferðina óátalda. Ríkisstjórnin segir að stjórnarandstaðan hafi drepið málið með málþófi síðast þegar það var tekið upp í þinginu. Því hafi þurft að fara þessa leið. Laggó - en það var samt ekki það sem þeir lögðu upp með í kosningabaráttunni. Þeir sögðust báðir, Framsókn og Sjálfstæðis, mundu leggja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ef það hefur eitthvert gildi að segja tæpum tveim árum seinna hvað aðrir hefðu átt að segja þá, þá hefðu þeir átt að segjast mundu bara slíta viðræðunum. Það er heiðarlegt að segjast ætla að gera það, og ef maður er kosinn út á slíka yfirlýsingu hefur maður líka umboð til að gera nákvæmlega það.

Þá eru reyndar ótalin brögðin sem síðasta ríkisstjórn beitti til að koma málinu áfram. Eins og að selja aðildarviðræður sem eitthvert "kíkja í pakkann"-dæmi og fara svo fram með stórfellt aðlögunarferli. Eða að semja um að leggja fram ráðherrafrumvarp en legga síðan fram ríkisstjórnarfrumvarp.

Hvað um það. Ég styð að umsóknin sé dregin til baka, og þótt fyrr hefði verið, en það er vont bragð af málsmeðferðinni.

No comments:

Post a Comment