Monday, March 2, 2015

Málaflokkur fatlaðra, ríki, sveitarfélög, stéttarfélög

Ég sé á fréttasíðu Ríkisútvarpsins að félagsmálaráðherra „segir það ekki koma til greina að ríkið taki aftur við málefnum fatlaðs fólks. Enginn niðurskurður hafi verið til sveitarfélaganna vegna málaflokksins.“ - En viti menn: „Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga segir þrjá milljarða vanta upp á.“

Þetta þarf því miður ekki að koma á óvart. Málaflokkurinn var færður frá ríki til sveitarfélaga 1. janúar 2011 og hafði þá yfirfærslunni verið frestað að minnsta kosti einu sinni vegna þess að undirbúningi var ábótavant. Ríkisendurskoðun hafði varað við því að tekjustofnarnir sem færðust með málaflokknum til sveitarfélaganna væru ekki nógu gildir, enda hafði málaflokkur fatlaðra verið fjársveltur um langt skeið árin á undan. Ekki nóg með það að sveitarfélögin keyptu þarna köttinn í sekknum, ef það má orða það þannig, heldur endurtóku þau sömu mistök og þegar þau yfirtóku grunnskólana frá ríkinu nokkrum árum áður. Þá fylgdu líka skertir tekjustofnar með og sveitarfélögin því í senn ábyrg fyrir málinu og þröngur stakkur skorinn.

Arkitektar þessarar mislukkuðu yfirfærslu voru Guðbjartur Hannesson, þá félags- og tryggingamálaráðherra og Halldór Halldórsson, þá bæjarstjóri á Ísafirði og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Það var fleira bogið við þetta heldur en tekjustofnarnir. Það var líka tekist á um stéttarfélagsaðild stuðningsfulltrúa við málaflokk fatlaðra. Ég var á þeim tíma formaður Félags ráðgjafa og stuðningsfulltrúa (sem er fagfélag innan SFR - stéttarfélags í almannaþjónustu). Við söfnuðum undirskriftum téðra stuðningsfulltrúa, þar sem þess var krafist að þeir fengju sjálfir að ráða stéttarfélagsaðild sinni. Hér er frétt Mogga af því þegar varaformaðurinn, Guðjón Bjarki Sverrisson, afhenti Guðbjarti undirskriftir 800 félagsmanna.

Niðurstaðan í stéttarfélagsaðildinni var sólarlagssákvæði, sambærilegt við þá félaga Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar sem unnu á Borgarspítalanum þegar hann rann inn í Landspítalann. Þeir sem voru í SFR fengu að vera þar áfram, aðrir fóru í bæjarstarfsmannafélögin. Vegna hárrar starfsmannaveltu er nú um það bil helmingurinn hættur og hinn helmingurinn af stuðningsfulltrúunum, einkum á sambýlunum, kominn í einhverja tugi bæjarstarfsmannafélaga.

Þar tvístraðist heil stétt og vandséð hvernig hún getur náð samtakamætti á nýjan leik.

No comments:

Post a Comment