Sunday, December 6, 2015

Af landsfundi Alþýðufylkingarinnar

Alþýðufylkingin hélt vel heppnaðan landsfund um helgina. Sjá hér um stjórnarkjör.

Þar var m.a. samþykkt gagnmerk ályktun um heilbrigði- og velferðarmál, sem lýsir m.a. „beiskri gremju yfir þeirri hörðu sveltistefnu sem íslenska heilbrigðiskerfið hefur verið rekið eftir um langt árabil og miðar að vaxandi einkavæðingu.”
Um nýjan Landspítala við Hringbraut segir:
Áformin um að byggja fokdýrt, nýtt háskólasjúkrahús á óhentugum stað - áform sem líta út fyrir að vera óstöðvandi - virðast klikkuð, en skiljast þegar fjármögnunin er tekin með í reikninginn: að brasksjóðir atvinnurekenda- og verkalýðsaðalsins fái tækifæri til að fjárfesta í byggingum og leigja þær svo ríkinu með öruggum tekjum áratugi fram í tímann - það er hvöt sem við berum kennsl á. Þar ræður ágirnd og gróðafíkn fjármagnsins för, en ekki hagsmunir sjúklinga eða almennings.
Þá segir, um leiðina út úr ógöngum íslenska heilbrigðiskerfisins:
Lykillinn að því að endurreisa þessa máttarviði þjóðfélagsins er félagsvæðing heilbrigðis- og velferðarkerfisins, sem og félagsvæðing fjármálakerfisins. Sú síðastnefnda losar um fjármagn, sem núna rennur úr opinberum sjóðum í óseðjandi hít gróðadrifins fjármálakerfis, og væri betur komið í þágu heilsu og velferðar.

Landsfundurinn ályktaði líka um kreppu auðvaldsskipulagsins, heimsvaldasinnaðan stríðsrekstur og nauðsyn byltingar:
Almenn kreppa auðvaldins hefur nú farið dýpkandi um árabil og möguleikar þess til vaxtar og þróunar eru tæmdir. Að sama skapi verður afætueðli auðvaldsskipulagsins alls ráðandi og átök fara harðnandi milli stórvelda og bandalaga þeirra um auðlindir og áhrifasvæði. Í þeim átökum er mannslífum fórnað í stórum stíl og velferð fólksins um allan heim höfð að skiptimynt.
Þar segir líka:
Þrátt fyrir aukna þekkingu á umhverfi og náttúru eykst umhverfisvá á flestum sviðum, þannig að sífellt stærri svæði jarðarinnar verða óbyggileg, hlýnun af manna völdum er að fara úr böndunum og vistkerfum hrakar.
Að óbreyttu heldur áfram glundroði og upplausn samfélaga. Styrjaldir heimsvaldasinna magnast og leysa upp samfélagsinnviði heilla heimshluta.
Hvað er þá til ráða?
Til að hindra að [þessi þróun] haldi áfram er hins vegar nauðsynlegt að fólkið taki til sinna ráða og sameinist um stefnu sem miðar að því að svipta auðstéttina sínum efnahagslegu og pólítísku yfirráðum í samfélaginu og endurreisa það á félagslegum forsendum. Pólitísk og félagsleg skipulagning með þetta markmið er lífnauðsyn fyrir íslenskt samfélag eins og alls staðar annars staðar. Framtíð mannkyns og siðmenningar er í húfi.

Svo var samþykkt ályktun um brýnt mál: samningsrétt verkalýðsfélaganna. Tilefnið er samkomulag SALEK-hópsins, sem ber sterkan þef af stéttasamvinnustefnu. Þar stendur meðal annars:
Reynslan sýnir hins vegar að stéttasamvinnustefnan hefur aldrei skilað neinum árangri til bættra kjara fyrir verkafólk. Það hefur aldrei náð neinu fram án baráttu. Við óbreytt ástand eru lágmarkskjör alþýðunnar hins vegar stillt við hungurmörk til að tryggja auðstéttinni hámarksgróða.
Líka:
Sú breyting sem helst þarf að gera á vinnumarkaðsmódelinu er að losna við sjálftöku fjármálaauðvaldsins út úr raunhagkerfinu og styðja baráttu vinnandi fólks fyrir réttlátum hlut.

No comments:

Post a Comment