Friday, January 23, 2015

Tipp-ex í Flateyjarbók: Þjóðminjasafn Egyptalands

Menn hafa lært mikið um forvarnir á fornminjum og öðrum hlutum undanfarna áratugi en ennþá sitja forverðir við heysáturnar af verkefnum sem forverar þeirra í starfi bjuggu til. Í Ísrael eru forverðir t.d. ennþá að pilla límband af Dauðahafshandritunum.

Menn hafa líka lært mikið í safnafræði og í að miðla því sem söfn geyma. Íslenska þjóðminjasafnið er gott dæmi um þá breytingu; þegar ég var lítill var hilla með miða, þar sem stóð "Prjónastokkar" og svo lágu þar 40 prjónastokkar í röð. Og önnur hilla með öskum, önnur með trafastokkum o.s.frv. -- ég veit að þetta er dálítil einföldun, en ég hygg að fólk viti hvað ég meina: "Gamla" safnið raðar upp rosalega mörgum munum. "Nýja" safnið reynir frekar að miðla þekkingu í gegn um fjölbreyttari og hugmyndaríkari upplifun. Það er alla vega hugmyndin.

Það er ennþá til fullt af gamaldags söfnum. Ég skoðaði Hofjagd- und Rüstmuseum í Vínarborg
Hjálmur Skanderbegs Epírótakappa er
geymdur á Hofjagd- und Rüstmuseum í Vínarborg
Mynd: Wikipedia
(herklæða- og veiðisafn) fyrir nokkrum árum og það var nánast sjúklegt dæmi um "gamla" safnið. Salur eftir sal af gömlum brynjum. Og síðast þegar ég kom á British Museum voru þar ennþá tilgangslausir salir með mörghundruð grískum vösum.

Þjóðminjasafn Egyptalands er samt það versta sem ég hef skoðað. Ef Egyptalandi væri stjórnað af meira viti, meiri metnaði og meiri umhyggju, þá ætti þetta safn að vera eitt flottasta þjóðminjasafn í heimi. En það er það ekki. Það er rykfallið, illa upplýst, og minnir sumpart meira á geymslu heldur en sýningarsali. Þar eru salir þar sem standa 50 gamlar steinkistur. Í salnum við hliðina eru aðrar 50 steinkistur og í þarnæsta sal enn aðrar 50 steinkistur.

Ég skoðaði helgrímuna frægu af Tútankamon, gullgrímuna. Hún var flott, ótrúlega flott, en umgjörðin sem henni var búin var dapurleg. Ég verð að taka fram að hún var samt ekki eins dapurleg og restin af safninu -- en langt frá því að vera samboðin þessari gersemi.

Við stóðum þarna og skoðuðum eitthvert gamalt signet eða hring eða eitthvað. Aðrir gestir voru farnir úr úr herberginu. Þá kom vörðurinn og spurði hvort við vildum taka myndir með flassi. Við sögðum honum að það mætti ekki, það stóð skilti að það væri bannað. Iss, hann hélt nú að það skipti ekki máli. Við skyldum bara láta hann hafa seðla í lófann, þá væri það ekki lengur bannað!

Nú er í fréttum að einhver fábjáni, sem er kollegi þessa varðar, hafi verið að þrífa helgrímuna og rekið sig í hana þannig að skeggið brotnaði af! Það mætti kannski fyrirgefa klaufaskap sem kannski getur hent hvern sem er - en það sem gerir þennan fábjána að fábjána er að í staðinn fyrir að kalla til forverði og láta þá taka málið að sér, reddaði hann því bara sjálfur. Með epoxy-lími. Límdi skeggið skakkt á, svo það sést rifa á milli, og límið klíndist íka út fyrir límflötinn - en þessi hálfviti skrapaði það bara af með sköfu. Og rispaði gljáfægt gullið um leið. Og þetta gerði hann fyrir framan stóran hóp af túristum:
Fábjáni að vinna spjöll á menningararfi mannkynsins
Mynd: AP Photo/Jacqueline Rodriguez, hér fengin frá Yahoo News
Þetta er um það bil eins heimskulegt og krota óvart í Flateyjarbók og leiðrétta það svo með tipp-exi.

Víða um heim liggja ómetanlegir egypskir fornleifafjársjóðir á söfnum. Egyptar krefjast þess oft að fá þá til baka. Það er réttmæt krafa í sjálfu sér - en það væri óábyrgt að senda ómetanlega muni á safn þar sem þeir eru ekki a.m.k. sæmilega öruggir. Egyptum er því miður greiði gerður með því að halda þessu frá þeim, á meðan þeir geta ekki komið sér upp þokkalegri aðstöðu fyrir þjóðminjasafnið sitt, og ráðið safnverði sem er klaufskt, heimskt og spillt.

No comments:

Post a Comment