Friday, January 9, 2015

Hörð átök framundan á vinnumarkaði?

Eftir að læknar semja um launahækkun -- og allir virðast vera sammála um að sú launahækkun sé veruleg, án þess að hafa séð samninginn -- þá tala sumir forkólfar í verkalýðshreyfingunni eins og samningar lækna gefi tóninn fyrir verkfallsátök þegar aðrar stéttir fara að semja, Ríkisútvarpið segir jafvel að „Gylfi spáir hörðum átökum framundan.“ Og ekki nóg með það: „Gylfi ... segir að sú sáttastefna sem markaði síðustu kjarasamninga aðildarfélaga ASÍ og BSRB sé brostin“. Rétt nú upp hend sem trúir því að Gylfi Arnbjörnsson eigi eftir að ganga í lið með verkalýðnum og fara að leiða einhverja alvöru baráttu! Rétt upp hend!


Kratísk/ökónómísk verkalýðshreyfing gengur út á að verkamenn og atvinnurekendur komist að einhverri niðurstöðu sem báðir aðilar eru sáttir við. Atvinnurekendur verða seint sáttir við að gefa eftir eitthvað að ráði af gróða sínum. Þess vegna er sáttastefnan, sem m.a. markaði síðustu kjarasamninga, ekki bara gagnslaus, heldur skaðleg fyrir vinnandi fólk. Sem betur fer kjósa félagar íslenskra verkalýðsfélaga um samninga, og ef nógu margir kjósa gegn ónýtum samningi, þá er hann felldur. Þessi réttur er ekki sjálfsagður, á dönskum vinnumarkaði þarf t.d. meirihluti allra félagsmanna að kjósa gegn samningi til að fella hann.


Það er út af fyrir sig kannski rétt hjá Gylfa að það verði átök um næstu samninga. Að stéttabaráttan hætti að vera bara að ofan á Íslandi, og íslenskt verkafólk fari aftur að berjast fyrir kaupi og kjörum sem sæma því. Eitt fyrsta vígið sem verkalýðurinn þarf að sækja að í þeirri baráttu verður sáttastefnan, þ.e.a.s. stéttasamvinnan -- að koma fulltrúum hennar út úr forystusveit sinni. Og hver ætli sé þar eftur á listanum?

No comments:

Post a Comment