Thursday, January 22, 2015

Mannfýla af gamla skólanum

Ég ætla ekki að fullyrða að Gústaf Níelsson sé rasisti, í þeim þrönga skilningi þess orðs að hann aðhyllist kynþáttahyggju. En hann er alveg greinilega haldinn útlendingaandúð. Það er nákvæmara hugtak en rasismi, þótt "xenófób" sé óþjálla orð þegar verið er að munnhöggvast. Hræðslan við múslima, "Ísland er síðasta vígið, og það er að falla" og tillaga hans um að afnema trúfrelsi í landinu með því að banna íslam -- svona birtist hræðslan, sem reiði. Þegar maður er hræddur, þá upplifir maður sig veikan, en hatur og reiði eru valdeflandi fyrir fordómapoka eins og Gústaf. Þetta er í daglegu tali kallað rasismi, en það er auðvitað ónákvæmt hugtak. Útlendingaandúð er hins vegar nákvæmara hugtak.

Ég ætla ekki að halda því fram að Gústaf Níelsson sé hommahatari, í þeim þrönga skilningi að hann vilji hommum beinlínis illt. En hann fyrirlítur homma (og lessur) alveg greinilega og finnst allt í lagi að veitast að þeim með háði. Ég hef sjálfur heyrt hann tala þannig á Útvarpi Sögu, tala um "blómálfa" og "dillibossa" og fleira slíkt, sem maður hélt að heyrði sögunni til. Og maður heyrði á röddinni að hann setti stút á munninn til að herma eftir "krútt"-rödd, ef þið skiljið hvað ég á við. Svona fordómar eru orðnir svo sjaldgæfir á Íslandi að ég var eiginlega alveg gáttaður. Hvort sem hommahatur er nákvæmt eða ekki, eru hommaandúð, hommafælni og hommafóbía eru allt hugtök sem eiga vel og nákvæmlega við Gústaf.

Ég ætla heldur ekki að fullyrða að Gústaf sé kvenhatari. En hann hefur lýst sér sem "íhaldi af gamla skólanum", hefur tekið þátt í baráttunni gegn fóstureyðingum, og hefur unnið við að reka fatafellustað. Ég held að menn sem reka fatafellustaði, án þess að vera karlrembur, séu álíka sjaldgæfir og albínó-tapírar. Á Íslandi. En það er auðvitað strangt til tekið ekki hægt að útiloka að Gústaf sé mikill jafnréttissinni, og hafi bara verið að grínast með hinu öllu.

Það er orðin til sérstök grein fréttamennsku á Íslandi, sem gæti heitið "Hvað finnst Brynjari Níelssyni um [mál]?" Þessar einstaklega ómerkilegu fréttir eru svo algengar að þetta virðist vera hluti af stöðluðu verklagi íslenskra blaðamanna. Finna upp á frétt, finna heimildir fyrir henni, spyrja Brynjar Níelsson hvað honum finnist og láta svo prófarkarlesa. Botninum í þessari tegund frétta hlýtur samt að vera náð þegar það er orðið fréttnæmt að Brynjar Níelsson segi Gústaf bróður sinn ekki hata neinn. Og það í tveim fréttum, frekar en einni.

Ég hef heimildir fyrir því að Gústaf Níelsson hafi verið hrekkjusvín þegar hann var barn. Og hann er við sama heygarðshornið í dag. Hann ber ekki tilhlýðilega virðingu fyrir fólki sem slíku, og þess vegna finnst honum allt í lagi að drulla yfir þá sem eru ekki nákvæmlega eins og hann sjálfur. Fólk sem þolir öðrum að vera öðruvísi, fólk sem lætur ekki segja sér hverja það má elska, fólk sem trúir ekki á kirkjuna, fólk sem er ekki með litla skorpna sjálfsmynd og typpi.

No comments:

Post a Comment