Wednesday, January 14, 2015

Fáfróður karlsauður

Ég er ekki vanur að hafa samúð með Sjálfstæðisflokknum, en mikið virðist það vera pínlegt að vera með svona drumbi eins og Ásmundi Friðrikssyni í þingflokki. Meinleysisleg hugmynd hans um að taka múslima fyrir og mismuna þeim afhjúpar tregan skilning á mannréttindum. Eins og oftast, þegar fáfrótt fólk tjáir útlendingaandúð sína -- eða þegar lævísir stjórnmálamenn tjá hana við fólk sem þeim finnst vera fáfrótt -- þá tekur Ásmundur það sérstaklega fram að hann sé sko ekki rasisti og þetta sé sko enginn rasismi: „Ég er nú ekkert þannig“ segir karlinn. Nei, þeir sjá það oftast ekki sjálfir, er það? Það er eftirtektarvert, að þetta segja eiginlega aldrei neinir nema rasistar þegar þeir eru að tala um rasisma. Já, meðan ég man, það er best að taka fram að ég tel Ásmund ekki tilheyra lævísa hópnum.

Ef orðið „rasisti“ vekur hugrenningartengsl um hatursfulla fanta með kvalalosta, þá er það misskilningur. Flestir rasistar eru hvorki snoðaðir nasistar né fullir af hatri eða illmennsku. Þeir eru hins vegar oft fullir af ótta eða vanmáttarkennd -- og tómir af viti. Þeir óttast það sem þeir skilja ekki. Þeir eru oftast venjulegt, óupplýst fólk. Svolítið eins og Ásmundur Friðriksson.

Ásmundur gleymir ekki möntrunni um að það þurfi að „taka þessa umræðu“ -- sem rasistar nota alltaf til að svara gagnrýni á tortryggnis- og óttaboðskap. „Aðspurður um að gefa nánari skýringar á orðunum segist Ásmundur ... aðallega vera að varpa fram spurningum til að vekja umræðu um þessi mál.“ Jæja, ef spurningin er hvort eigi að mismuna fólki vegna trúarskoðana, þá er svarið einfalt: Nei, Ásmundur, það á ekki að gera það.

Ég eltist ekki við einhverjar sögur sem Ásmundur hefur heyrt með sínum trúgjörnu eyrum.

En hvað í andskotanum er „múslimisti“?

Ásmundur spyr „hvort við þurfum ekki að hugsa málið og vanda okkur til framtíðar“ -- spurningin svarar sér sjálf, auðvitað á að gera það. Og hvað á þá að passa? Það væri góð byrjun að mismuna ekki innflytjendum og ýtta þeim ekki út á jaðar samfélagsins. Og að sjálfsögðu þarf íslenskt samfélag að breytast í takt við breytta samsetningu þess. Eins og það hefur alltaf gert. En ekki hvað?

En hvað er það sem hann óttast um? „Það eru þessi algildu gildi um samfélag og að það sé byggt á kristinni trú. Ég hef áhyggjur af því að mikill minnihluti þjóðarinnar vilji úthýsa kristinni trú úr grunnskólum.“ -- Það var nefnilega það. Voru það ekki skuggalegu útlendingarnir sem ógna siðnum í landinu! Á Þorláksmessu birtist grein eftir mig á Vísi, þar sem ég reyndi m.a. að þurrka aðeins upp eftir Ásmund. Þótt mér finnist leiðinlegt að þurfa að endurtaka sjálfan mig, verður bara að hafa það: 
Það má fyrirgefa karlinum fyrir að halda að hann sé í meirihluta, en það setur að manni stugg yfir hvernig honum finnst eðlilegt að fara með minnihlutahópa: þeir megi ... vera til, bara ef þeir ... sætta sig við að vera annars flokks. Þetta er trúfrelsi Ásmundar, að meirihlutinn kúgi minnihlutan.
Þar stóð reyndar líka:
Íslendingar ... sem standa utan kristinna trúfélaga eru miklu fleiri en innflytjendur sem standa utan kristinna trúfélaga. Það erum við, sem höfum flykkst út úr kirkjunni af sívaxandi þunga undanfarna áratugi. Það erum við, sem erum þyngsta lóðið í baráttunni fyrir trúfrelsi. Það erum við, þjóðin.
Ég leyfi þessu bara að standa og skýra sig sjálft.

Ásmundur segir að það eigi að gera eðlilegar kröfur til innflytjenda um þekkingu á sögu þjóðarinnar og viðurkenningu á þeim gildum sem íslenskt samfélag er reist á. Gott og vel -- það ætti þá líka að gera þær kröfur til Alþingismanna, að þeir hefðu grundvallarskilning á sögu og gildum þjóðarinnar, eins og sagan og gildin eru í alvörunni en ekki eins og þau eru kennd í sunnudagaskólanum þar sem nýjasta hetja kristilegu íslensku teboðshreyfingarinnar virðist hafa meðtekið mestalla sína visku.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir segist halda að karlsauðurinn hafi bara „komist óheppilega að orði“. Ég held að hann hafi ekkert komist óheppilega að orði. Ég held að hann sé bara vitlaus.

4 comments:

  1. Góður Vésteinn!

    Haukur Kristinsson, Sviss

    ReplyDelete
  2. ég held að það sé rétt hjá þér Vésteinn að hann sé bara vitlaus. Kveðja Mamma Þórðar

    ReplyDelete