Friday, December 30, 2005

Ekki fjórða valdið?

Hagsmunatengsl milli atvinnulífs og fjölmiðla?
=== === === ===
Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um Paul Watson. Hallast samt helst að því að hann sé klikkaður.
=== === === ===
Jæja, Bretar riðnir á vaðið. Hvað skyldi líða langt þar til íslenskir kynvillingar og einhleypingar fá að ættleiða?
=== === === ===
Ríkisstjórn Pakistans hefur gefið fyrirmæli um að öllum erlendum nemendum verði vísað úr trúarlegum skólum (madras) fyrir áramót. Flestir sýna þeir víst ekkert fararsnið á sér. Þetta er nokkuð djarft teflt, pólitísk séð. Ef ríkisstjórn gefur fyrirmæli og þeim er ekki hlýtt, þá er hún hreint ekki eins trúverðug á eftir og áður. Ætli pakistanskir klerkar treysti pólitískum ítökum sínum svona vel?
=== === === ===
Stríðsherrar í Mogadishu í Sómalíu hafa stofnað eigin ríkisstjórn, og þar með er orðið til þriðja klofninslandið, ásamt Puntlandi og Sómalílandi.
=== === === ===
Nepalskir maóistar hafa hótað því spilla sýndarkosningunum 8. febrúar, að vísu með þeim fyrirvara að fólk verði ekki drepið og því verði ekki rænt. Konungsstjórnin býður á móti starfsmönnum við kosningarnar umtalsverðar fjárhæðir í tryggingu fyrir öryggi sínu - allt að 700.000 rúpíum.

Úr fréttum

Bjarga listaverkum, bjarga pandabjörnum, ef fólki? Iss...
=== === === ===
Í Mogga gærdagsins birtist þessi frétt í aðeins drýgri útgáfu. Þar voru FARC-skæruliðar kallaðir „eiturlyfjaskæruliðar“. Það er bein -- gagnrýnislaus -- þýðing á narcoterror. Gildishlaðin orð í fréttaflutningi, enda fer ekki milli mála hverja Moggi styður. Vinstrisinnaða eiturlyfjaskæruliða eða dauðasveitir og heimsvaldasinnaða leppstjórn? Ekki erfitt val. Það er að segja, ekki erfitt fyrir alla.
=== === === ===
Í fyrradag birtist grein á Vantrú, alveg hreint ágæt, sem er þýdd af undirrituðum. Upprunalegu greinina, eftir Joe Kay, má lesa hér.
=== === === ===
Moggi heldur uppteknum hætti:
Á morgun, föstudag, heldur Evo Morales í fyrstu utanlandsför sína frá því hann var kjörinn forseti. Leiðin liggur til Kúbu en Morales er aðdáandi Fídels Kastró Kúbuleiðtoga og kveður hann vopnabróður í baráttunni gegn „heimsvaldastefnu" og „ný-frjálshyggju".
Hvers vegna eru gæsalappir þarna? Afneitar Morgunblaðið því að heimsvaldastefna og nýfrjálshyggja séu til í alvörunni?
=== === === ===
Það var lagið!
=== === === ===
Hér getur að líta athyglisvert viðtal við Sergo Beria, son Lavrenty Beria, þar sem ýmislegt áhugavert kemur fram viðvíkjandi Sovétríkjunum, stjórnarháttum Stalíns, aðdraganda seinni heimsstyrjaldar, ráðstefnunum í Yalta og Tehran o.fl.

Wednesday, December 28, 2005

Úr fréttum RÚV

Loftárás á PFLP. Slæmt mál.
=== === === ===
Úr fréttum RÚV:
Meðferð fanga í fangelsum í Írak hefur oft sætt gagnrýni. Í fyrra mánuði fundu bandarískir hermenn 170 fanga í leynifangelsi innanríkisráðuneytisins í Bagdad, sumir þeirra höfðu verið sveltir og aðrir sætt pyntingum með rafmagni og fingurneglur þeirra verið rifnar af.
Það er ekki látið fylgja sögunni hvað gerðist eftir að hermennirnir fundu þessa fanga. Þeir fengu skipanir um að láta kjurrt liggja. Hermönnunum leið illa að skilja fangana eftir í höndum kvalara sinna, og þeir sögðu frá þessu. Hreint og beint ógeðslegt.
=== === === ===
Morales byrjar með góðu fordæmi.

Monday, December 26, 2005

Ilíónskviða

Það rifjaðist upp fyrir mér í nótt hvað Ilíónskviða eftir Hómer er magnað verk. Það rifjaðist þannig upp fyrir mér, að ég sá myndina Troy í sjónvarpinu. Hún er alveg eins léleg og Illugi Jökulsson lýsti henni. Hún gerði mér hins vegar það gagn að minna mig á hvað upprunalega kviðan er endalaust betri. Jamm.

Nepal: Gyanendra á leið í útlegð?

Grein á Samudaya: Náinn ættingi Gyanendra harðstjórnarkonungs í Nepal segir að sér lítist ekki á blikuna og að gyanendra frændi og fjölskylda séu að undirbúa líf í útlegð. „Skák og mát,“ segir hann um stöðuna eftir að Prachanda lýsti yfir einhliða vopnahléi um daginn: „We need to get out of Nepal, before Prachanda makes another move.“ Haft er eftir Prachanda: „[W]e will participate in a free and fair election—i.e. no interference from the King and from the Royal Nepal Army—if such an election is held within months, otherwise we will be forced to renew the armed struggle and to begin blockading the major cities“ ... „[Gyanendra] will not hold elections, he knows that he will lose, and the Maoists will figure very prominently in any such exercise.“

Ég hvet þá sem eru áhugasamir um byltinguna í Nepal til að lesa þessa grein á Samudaya í heild sinni.

Bandaríkjastjórn hefur sett lög sem lúta að samskiptum við Nepal. Af pólitískum ástæðum er stuðningur hennar við Gyanendra minni en áður hefur verið og -- öfugt við síðasta ár -- eru maóistar ekki kallaðir hryðjuverkamenn (sjá grein). Þetta óvænta útspil Bandaríkjastjórnar má sjálfsagt rekja til valdaráns kóngsdruslunnar í febrúar sl. og þeirra ljótu stjórnarhátta sem hann hefur stundað. Enn fremur samt til þess að hann verður stöðugt óvinsælli og það styttist í að hann hverfi frá völdum. Það gengur vitanlega ekki að veðja á þann sem er að tapa. Kóngurinn er að tapa núna, sjöflokkarnir eru þá væntanlega þeir sem Bandaríkjastjórn veðjar á -- allavega veðjar hún seint á maóistana, og þá eru ekki margir eftir.

Helsta deilumálið um þessar mundir eru samt fyrirhugaðar sýndarkosningar 8. febrúar, þar sem allt mun fara fram eftir höfði konungsins og hans vilji verða -- ef hann þá fær að ráða því. Vegna þess að það stefnir ekki í að þær verði lýðræðislegar nema á yfirborðinu, hafa sjöflokkarnir og maóistar lýst því yfir að þeir muni sniðganga þær -- og ekki nóg með það, heldur gera sitt besta til að spilla þeim líka, þótt það kosti ofbeldi. Það er hárrétt hjá þeim; falskosningar eru verri en engar kosningar. Kantipur Online greinir frá því í dag (afsakið, ég finn því miður ekki link á fréttina sjálfa), að bandalag sjöflokka og maóista hafi boðið konungi áframhaldandi vopnahlé gegn því að hann aflýsi plat-kosningunum. Að öðrum kosti má búast við hörðu: Formaður CPN(UML) talar um umsátur um Katmandú og aðrar helstu borgir* og Thapa innanríkisráðherra segir stjórnina taka „hótanirnar“ alvarlega.* Skiljanlega, reynslan ætti nú að hafa kennt þeim það.

Annars hafa maóistar samþykkt að taka upp samstarf við alþjóðlegar hjálparstofnanir og leyfa þeim að athafna sig á yfirráðasvæði sínu. Það er auðvitað ekkert nema gott um það að segja.

Saturday, December 24, 2005

Í hverju ætli þessar „úrbætur“ eigi að felast?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Geigerteljarar til að njósna um serkneska brjálæðinga sem gætu verið með kjarnorkuvopn heima hjá sér. Já, best að nota geigerteljara til að fylgjast með þeim. Það minnir mig á að maður ætti að koma kjarnorkusprengjunum í kjallaranum fyrir á sakleysislegri stað.

Friday, December 23, 2005

Lotu lokið í NYC?

Verkfall starfsfólks við almenningssamgöngur í New York leit út fyrir að geta verið upphafið á nýrri lotu í hnefaleikakeppni mannkynssögunnar, stéttabaráttunni. En viti menn, eftir þungar hótanir hefur forystan brugðist. WSWS skrifa um málið:
The sudden end of the New York transit strike: A preliminary assessment“,
Billions in bonuses for Wall Street execs; mayor enounces “selfish” transit workers“ og
Behind the media onslaught on the transit workers
Kemur það á óvart? Sé höfð hliðsjón af verkalýðssögu Bandaríkjanna undanfarin 80 ár, þá nei -- það kemur hreint ekki á óvart. En eru það vonbrigði? Já, svo sannarlega. Hins vegar má búast við að þessu sé hreint ekki lokið. Það kemur annað verkfall eftir þetta verkfall og eftir því sem efnahagskerfið missir dampinn, þess harðari verða stéttaátökin. Þar kemur að sósíaldemókratískri verkalýðsforystu verður skipt út fyrir nýja pólitíska forystu vinnandi fólks í Bandaríkjunum og annars staðar. Eða, eins og stóð á plakatinu, „Gráttu ekki, væna mín, byltingin nálgast.“
=== === === ===
Evo Morales er tilvonandi forseti Bólivíu!* Góð frétt það!
=== === === ===
Jósef og María færu um 15 eftirlitsstöðvar

Thursday, December 22, 2005

Af verkfalli í NYC o.fl.

Gleymið ekki friðargöngu á Þorláksmessu!
=== ~~~ === ~~~ ===

„Verkfallið í New York bitnar á röngu fólki, saklausu, vinnandi fólki, þeim fátækustu, sem nota almenningssamgöngurnar mest,“ heyrir maður fólk segja. Þetta er ekki rétt. Verkfall hjá almenningssamgöngum tefur eða hindrar fátækt, vinnandi fólk, já -- en það er ekki þar með sagt að það bitni helst á þeim. Verkfall í almenningssamgöngum sligar fyrst og fremst fyrirtækin sem fá ekki starfsfólk sitt í vinnu, eða a.m.k. ekki á réttum tíma. Það jafngildir næstum því verkbanni á atvinnulífið. Verkafólk við almenningssamgöngur er bráðnauðsynlegt, eins og svo margt annað verkafólk, en er meira en það: Það er svo gott sem ómissandi. Það er því eins gott að það sé gert vel við það. Það er mikil umræða um þetta mál á síðum sem ég fylgist með. Á WSWS eru greinarnar „The New York transit strike: A new stage in the class struggle“ og „New York transit workers set up picket lines: "Today's strike is for all working people"“ og á AlterNet skrifar Don Hazen „NYC transit strike: morning one“ -- og á eftir þeirri síðastnefndu eru auk þess áhugaverðar umræður. Í stuttu máli sagt, þá verðskulda þessir heiðursmenn, sem er í verkfalli, fullan stuðning.
=== ~~~ === ~~~ ===

Varríus bloggar um sr. Flóka og það er ekkert slor.
=== ~~~ === ~~~ ===

Bandarískur dómstóll úrskurðar að kennsla á „vitrænni hönnun“ brjóti í bága við stjórnarskrána. Lesið um málið.
=== ~~~ === ~~~ ===

Indian government steps into Nepalese political crisis
=== ~~~ === ~~~ ===

Þessu afreki er ég feginn að hafa átt þátt í!
=== ~~~ === ~~~ ===

Fór í gærkvöldi á hreint ágætlega heppnaðan fjöldafund um náttúruvernd, sem fram fór í Hallgrímskirkju. Fá sæti voru auð.
=== ~~~ === ~~~ ===

Ef einhver þarna úti hefur enn ekki lesið hið nýja grundvallarrit mannkynsins, Ruhnama eftir Túrkmenbasa, þá má nálgast það í heild sinni hér.

Wednesday, December 21, 2005

Verkfall í NYC o.fl.

Verkfall í New York: Verkalýðsfélagið sektað“ -- þarna er komin ein af ástæðunum sem stundum eru nefndar sem rök gegn stofnanavæddri verkalýðshreyfingu, það er hægt að sekta verkalýðsfélagið. Mér, fyrir mitt leyti, finnst það reyndar ekki duga sem rök -- verkfall sem er haldið út, og er sigursælt á annað borð, getur um leið gert þá kröfu að slíkar verði felldar niður. En spánsku anarkistarnir fóru aðra leið árin fyrir borgarastyrjöldina. Þeir höfðu einfaldlega engin formleg verkalýðssamtök. Þeir skipulögðu sig, já, en þegar atvinnurekendur vildu ganga að hreyfingu þeirra, þá gripu þeir í tómt. Ekkert félag. Enginn „aðili“ til að semja við eða hefna sín á.
=== === === ===
Hér er nokkuð sem ég er viss um að fáir höfðu hugmynd um: Dr. Baburam Bhattarai, næstráðandi í Kommúnistaflokki Nepals (maóistum), er ekki bara framúrskarandi byltingarleiðtogi og fræðimaður, heldur er hann einnig mjög fær skákmaður. Hann hefur m.a. sigrað Max Euwe, þáverandi forseta FIDE, og teflir blindfjöltefli við fjölda andstæðinga.
=== === === ===
Bush: Trúverðugleiki Bandaríkjanna beið hnekki vegna Íraksmálsins“ -- no shit, Sherlock.
=== === === ===
Sumir eru að fara í prófkjör.
=== === === ===
Meiri launahækkanir en sést hafa hjá öðrum hópum“ -- hvar er væl út af launaskriði núna?

Tuesday, December 20, 2005

El-Masri, verkfall í NYC, fleira

Khaled El-Masri lýsir hrikalegri lífsreynslu í greininni „America Kidnapped Me“ -- hann var tekinn fastur saklaus af útsendurum bandarískra pyndingameistara og sætti illri meðferð mánuðum saman. Hann hefur nú stefnt George Tenet, með tilstyrk ACLU.
=== === === ===
Verkfall í almenningssamgöngum New York. Það er nú þannig, að þegar vinnandi fólk fær ekki sanngjörn laun, þá getur það neyðst til þess að fara í verkfall. „Bloomberg [borgarstjóri] minnir á að láglaunafólk, með mun lægra kaup en stjórnendur almenningsfarartækja, skaðist mest á verkfallinu.“ Pff, lýðskrum. Þetta er nú einu sinni óvenjuleg staða verkafólks í almenningssamgöngum, að verkfall þeirra lamar miklu meira út frá sér en flestra annarra starfsgreina. Verkfall þeirra jafngildir næstum því verkbanni út í hagkerfið. Því meiri ástæða til að ganga að kröfum þeirra.
=== === === ===
Svo er hér nýjasta fréttin: „Sharon þarf að fara í megrun“ -- einmitt -- og Titanic var ekki hannað fyrir ísjaka.
=== === === ===
Morgunblaðið er samt við sig. Á opnunni á síðum 22-3 er grein neðantil um Evo Morales í Bólivíu. Af henni leggur stækan hægridaun. Staksteinar hafa líka skemmtilega meinfýsinn brodd í garð Samfylkingarinnar. Skorað á Dag að ráðast nú strax á Ingibjörgu, Stefán og Steinunni.
=== === === ===
BRILLIANT FOOLS“ heitir ágæt grein á medialens.org. Þar er fjallað um hvernig mainstream-blaðamenn fara með þá sem segja óþægilegan sannleika um ráðamenn:
„It is a brutal fact of modern media and politics that honesty and sincerity are not rewarded, but instead heavily punished, by powerful interests with plenty at stake. It does not matter how often the likes of Pinter, Le Carré, Noam Chomsky and John Pilger are shown to be right. It does not matter how often the likes of Bush and Blair are shown to have lied in the cause of power and profits. The job of mainstream journalism is to learn nothing from the past, to treat rare individuals motivated by compassion as rare fools deserving contempt.“
=== === === ===
Stefán Pálsson skrifar um jólasveina og jólasveinafár.
=== === === ===
Illfyglið er farið að blogga aftur.
=== === === ===
LA Times skrifar um Church of Scientology ef þið hafið áhuga á að lesa um vitfirringu.

Monday, December 19, 2005

„And-heimsvaldasinni“

Bent hefur verið á að þegar kirkjunnar menn (og ýmsir aðrir trúmenn) reyni að skilgreina trúleysi skilgreini þeir það yfirleitt þannig að í raun sé það ekki til. Ætli það sé svipaður tendens á ferðinni í þessari grein International Herald Tribune? Fyrirsögnin: „'Anti-imperialist' wins presidency in Bolivia“ -- hvers vegna eru gæsalappir? Eru and-heimsvaldasinnar kannski ekki til í alvörunni? Eða eru þeir vitleysingar vegna þess að heimsvaldasinnar séu ekki til í alvörunni? Í öllu falli er IHT einmitt hluti af heimsvaldasinnaðri mainstream-pressu Vesturlanda, svo það er óhætt að setja fyrirvara við fréttaflutning þeirra þegar þeir nota svona einkennilegar gæsalappir.
Allavega efast ég um að þeir séu svo miklir trotskíistar að ástæðan sé að Morales sé ekki sannur and-heimsvaldasinni. (Ég efast líka um að þeim finnist, eins og mér, það vera reaktíf nafngift að kenna sig við, að vera and-eitthvað. Mér finnst hljóma eins og eitthvað bjáti á þegar sjálfs-skilgreiningin snýst um afneitun á því sem andstæðingurinn stendur fyrir.)

Friday, December 16, 2005

Þrennt

Ég kom í gær í búsáhaldaverslun Þorsteins Bergmann á Skólavörðustíg og bætti nokkrum stykkjum af forljótu leirtaui í innbúið mitt. Þar sem ég beið eftir að borga rak ég augun í forláta grip: Skeggbolla. Skeggbolli er venjulegur kaffibolli að því undanskildu að innan úr þeirri hlið sem snýr að manni gengur bríkm sem skýlir yfirvararskegginu fyrir kaffi. Skeggbolla sá ég fyrst á minjasafninu á Skógum undir Eyjafjöllum fyrir á að giska 15 árum síðan -- og núna hef ég loksins eignast slíkan.
=== === === ===
Ég settist í gær á Kaffi Hljómalind, eins og ég stundum geri. Þar er farið að selja lífrænt ræktaðan kóla-drykk! Ég mæli með því að fólk prófi hann, mér fannst hann góður.
=== === === ===
Að lokum: Ég held að ég hafi séð í gegn up plott í Spiderman-framhaldssögu Morgunblaðsins. Kvennsan sem býr hjá Pétri og Mary Jane er í raun Tarantúlan. Þ.e.a.s. Tarantúlan er ekki karl heldur þessi kvennsa í dulargerfi. Það kemur í ljós hvort þetta er rétt hjá mér. Ég er sannfærður. Ef þetta er rétt verð ég mjög glaður.

Thursday, December 15, 2005

Af vopnahléi í Nepal

Nepalska krúnan ætlar ekki að svara einhliða vopnahléi maóista með gagnkvæmu vopnahléi. Karltuskan hann Gyanendra hefur, pólitískt séð, verið málaður út í horn með þessu snjalla útspili maóista. Núna er það Gyanendra konungur sem stendur afhjúpaður sem helsta hindrunin fyrir friði í Nepal, með mannréttinabrotaherinn sinn. Það er því ekki skrítið að hann hafi neyðst til þess að skipa viðræðuhóp til að freista samninga við maóista.
=== === === ===
„Loksins er Bush farinn að tala við okkur eins og við séum fullorðið fólk,“ heyrði ég hægrisinnaðan Bandaríkjamann segja eftir að Bush lét þessu ummæli falla: „Sem forseti þá ber ég ábyrgð á þeirri ákvörðun að fara inn í Írak. Og ég ber einnig ábyrgð á því að bæta fyrir það sem miður fór með því að endurskipuleggja leyniþjónustu okkar. Það erum við að gera." Eins og fullorðið fólk? Eins og trúgjarnt, gleymið, fordómafullt og hrekklaust fullorðið fólk kannski. Írak er gott dæmi um að íhlutun heimsvaldasinna er af hinu slæma.
=== === === ===
Hér getur að líta samkeppni sem hefur hlotið misjafnar undirtektir -- keppt er í hönnun á vefsíðu fyrir herská samtök í Írak, og fyrstu verðlaun eru að fá að taka í gikkinn í árás og drepa Bandaríkjamenn. Ég skil að þetta höfði til sumra -- en fjandinn hafi það, þetta er nú ekki smekklegt!

Monday, December 12, 2005

Nánar af velþóknun á ráðstöfunum borgarstýru

Kommadistró Íslands verður í Snarrót í kvöld milli kl. 20 og 22. Frábært úrval af góðum bókum, já. Nánar hér.

=== === === ===

Það er rétt að ég skýri nánar hvers vegna ég er ánæður með Steinunni Valdísi Óskarsdóttur þessa dagana.

Í fyrsta lagi þykir mér það gott í sjálfu sér að þeir lægst launuðu séu hækkaðir í launum. Ekki vegna þess að ég, sem ófaglærður heilbrigðisstarfsmaður, tilheyri sjálfur hópi sem getur stutt kröfur sínar við þetta fordæmi, heldur af einfaldri réttlætiskennd. Hún spurði hvenær ætti að hækka laun þeirra lægst launuðu ef ekki í miðju góðæri. Ég tek undir þá spurningu, hvenær þá? Það ber að nota hvert tækifæri til að minnka launabil fólks og færa í réttlátara horf.

Í öðru lagi: Nú hækka leikskólakennarar í launum. Aðrar láglaunastéttir krefjast þess að fá sambærilega hækkun. Launaskrið fer af stað. Verðbólga, gengisfelling... Verkföll, stéttaátök. Það er í stéttaátökum sem sögunni vindur mest fram. Það er í átökum sem vinnandi fólk vinnur sigra. Þetta er eitt sprek á þann bálköst stéttaátaka sem verður skíðlogandi fyrr en varir. Aðaldrumbarnir í þeim kesti undir katli átakanna verða vitanlega hvellurinn þegar hagkerfi Bandaríkjanna bræðir úr sér, og svo olíukreppan sem virðist ætla að hitta á nokkurn veginn sama tíma. Eins og ég hef áður sagt eru skemmtilegir tímar í vændum fyrir þá sem hafa gaman af kreppum.

Ég er reyndar ekki einn þeirra. Kreppur eru afleitar og andstyggilegar. En raunverulegar engu að síður. Efnahagskreppur fylgja auðvaldsskipulaginu eins og magapína fylgir ofáti. Það er þó eitt sem við mannkynið getum hlakkað til, og það er að í kreppuástandi skapast aðstæður fyrir breytingar, fyrir að andstæður séu leiddar til lykta, fyrir að stéttabaráttunni vindi fram. Því lengra sem henni vindur fram, þess fyrr rennur sá dagur upp að kreppur verði ekki til nema í sögubókum, sá dagur sem hagkerfið verður skipulagt með (a) skynsemi og (b) mannlegar þarfir í huga, en ekki bruðl og óráðsíu auðvaldsskipulagsins. Því fyrr rennur sá dagur upp að heiðarlegt fólk geti um frjálst höfuð strokið, gengið glaðbeitt til vinnu sinnar og notið afrakstursins sjálft.

Er Steinunn Valdís að hrinda af stað byltingu? Nei, það væri víst ofmælt. Svo vinstrisinnuð er hún varla.

Út af fyrir sig er það reaktíft að ætla sér að bæta hag þeirra sem höllum fæti standa með stjórnvaldsaðgerðum en gera það innan takmarka auðvaldsskipulagsins. Hver sigur sem vinnst þannig erafturkallanlegur og verður rekinn til baka við fyrsta tækifæri, eins og reynslan hefur kennt okkur. Í þessu tilfelli má hins vegar vel sjá fyrir sér jákvæðar - eða réttara sagt framsæknar - afleiðingar af annars reaktífri stjórnvaldsaðgerð.

=== === === ===

Ég held að frá sjónarmiði stéttabaráttunnar sé tvímælalaust framsæknara að pró-bisness hægrimenn, hvort sem þeir vilja láta auðvaldið ráða beint (frjálshyggjumenn) eða óbeint (í gegn um ríkisvaldið), ráði ríkjum heldur en tvístígandi, friðkaupandi sósíaldemókratar, ef valið stæði milli þessara tveggja. Pró-bisness hægrimenn mega þó eiga það að þeir eru stéttvísir, á meðan sósíaldemókratar eru stéttsvikarar, a.m.k. til lengri tíma litið, afturhaldssamir hirðgæðingar og höfuðstoðir auðvaldsins. Það er algengur misskilningur að það sé hægt að lagfæra auðvaldsskipulagið. Það er ekki hægt; það er gallað í sjálfu sér, það er kvalítatíft gallað, það byggir á göllum og snýst um innbyggða galla. Að losna við þessa galla útheimtir að losna við sjálft skipulagið sem gengur út á því að heldur þeim við.

Ég þarf varla að taka það fram að stéttvísir kommúnistar eru þeir sem ég vildi helst sjá hafa áhrif. En burtséð frá þeim, þá eru stéttvísir hægrimenn framsæknari en þýlyndi markaðir stéttsvikarar eða hrekklausir taglhnýtingar auðvaldsins.

Fram ber að koma að hér á ég við framsækni í langtímaskilningi stéttabaráttunnar. Velmegun, mannréttindi eða pólitískt og félagslegt frelsi eru aðrar breytur sem vitanlega má ekki líta framhjá -- en engin þeirra er þó hálfdrættingur á við framvindu stéttabaráttunnar.

Saturday, December 10, 2005

Blöðin í dag og aðrar fréttir

Í Blaðinu í dag er sagt frá kvenkyns vísinda- og fræðimönnum á blaðsíðu 24. Greinin er hvorki auðkennd höfundi, né er heimilda getið. Auk þess eru ósköp fá dæmi nefnd um merkilegar konur úr sögu vísinda og fræða. Sko ... í fyrsta lagi efast ég ekki um að hlutdeild kvenna hafi verið vanmetin alla tíð. Hún hefur hins vegar sjaldan verið eins mikil og karla, enda hafa karlar haft greiðari aðgang að menntun mest alla mannkynssöguna, og ráðið ríkjum. Í öðru lagi lyktar þessi grein sterkt af pólitískri rétthugsun. Það verður að representera alla hópa jafnt, jafnvel þótt þeir hafi, stéttarstöðu sinnar vegna, lagt misjafnlega mikið af mörkum. Mér þykir það leitt, en framlag karla til vísinda og fræða hefur, sögulega séð, verið talsvert meira en helmingur af heildinni. Söguna er reynt að endurskrifa samkvæmt ídentítets-pólitík samtímans.
=== === === ===

Í Morgunblaðinu fjallar Davíð Logi um Mahmoud Ahmadinejad. Hann segir forviða að það sé eins og Ahmadinejad standi á sama þótt Íran einangrist. Ég sé ekki að leikflétta Ahmadinejads sé sérstaklega flókin. Málflutningur hans höfðar til þjóðarstolts Írana, og shííta í nágrannalöndunum líka. Auk þess gæti hann vel skorað prik meðal reiðra lágstéttarmanna íslamska eða arabaheimsins. Hann styrkir stöðu sína á heimavelli -- og ef svo fer, sem vel getur farið, að íslamskar byltingar steypi harðstjórum af stóli einhvers staðar, þá er hann fyrirfram búinn að veðja á íslamistana, veðja á byltinguna. Ég sé ekki betur en að hann spili þetta mjög greindarlega.
=== === === ===

Pyntingar eru ekki bara grimmúðlegar, heldur heimskulegar líka, í Kína eru smábændur óánægðir -- skiljanlega -- og leynifangelsin voru líklega í Póllandi. Kemur eitthvað af þessu mér mjög á óvart? Nei, ég get ekki beinlínis sagt það.

Friday, December 9, 2005

Ljúffengur kvöldmatur, fjörugir tónleikar og fleira

Til að byrja með eru tilkynningar um tvennt sem er í kvöld og lesendur eru eindregið hvattir til að mæta á a.m.k. annað hvort:
* Fjáröflunarkvöldverður í Snarrót, Laugavegi 21 (kjallara), klukkan hálf átta, matur fyrir aðeins 1000 krónur, harmonikkutónlist innifalin.
* Andspyrnutónleikar í Tónlistarþróunarmiðstöðinni, Hólmaslóð 2 -- pönk og pólitískur djöfulgangur. Aðeins 500 kr. inn. Standa frá 18:00 til 23:00.
Mér, fyrir mitt leyti, þykir afleitt að þetta skuli lenda á sama kvöldi. Ég kemst ekki sjálfur á kvöldverðinn í Snarrót, þar sem ég verð á tónleikunum með Kommadistró Íslands upp á arminn. Það þriðja, sem ég kemst heldur ekki á, er:
* Meðmælaganga aldraðra og öryrkja, sem leggur af stað frá Hallgrímskirkju klukkan 16:30 og endar með útifundi. Þeir sem komast þangað ættu endilega að gera það.
Fyrir þá sem eiga erfitt með að ákveða sig, þá er hér uppástunga að prógrammi: (1) Fara í meðmælagöngu og útifund, (2) borða kvöldmat í Snarrót í góðum félagsskap og (3) skella sér á pönktónleika eftir það. Þetta mundi ég gera ef ég gæti.
=== === === ===

Enn einn misheppnaður umhverfisverndarsáttmálinn í undirbúningi. Ég segi ykkur það, umhverfismálum verður ekki kippt í lag á meðan eiginhagsmunir og forréttindi fámennrar elítu ræður för.
=== === === ===

Nóbelsverðlaunahafinn Harold Pinter mælir af viti um stjórnmálaástandið í dag. Þetta ávarp er vel þess virði að lesa það. (Takk fyrir ábendinguna, Björn Darri.)
=== === === ===

Sam Harris skrifar um ósættanleika vísinda og trúar. Lesið það líka. (Takk fyrir ábendinguna, Björn Darri.)

Thursday, December 8, 2005

Sjö umræðuefni

Próf. Sami al-Arian hefur verið sýknaður eftir tveggja ára atlögu. Það var vitað frá upphafi að hann var handtekinn saklaus og handtakan var ekki krímínels eðlis heldur pólitísks. Mikið var að hann er sýknaður. Joe Kay rekur þetta mál, aðförina að al-Arian, og meðferðina á honum. Ruddaskapur.
=== === === ===
Klám fyrir klám nefnist herferð trúleysingja í Texas, sem bjóða klám í skiptum fyrir Biblíur.* Virðingarvert, ekki satt?
=== === === ===
Gíslatökuruddar framlengja frest sinn. Christian Peacemakers Team, sem gíslarnir tilheyra, eru með aðdáunarverðustu hjálparsamtökum sem ég hef komist í kynni við. Mér rennur til rifja sú tilhugsun að einhvers staðar sé fólk sem biðji fyrir gíslunum frekar en að setja pressu á hernámsliðið að verða við kröfum mannræningjanna.
=== === === ===
Geir Haarde, ég veit ekki hvað ég á að segja um hann. Vísbendingar eru um að Bandaríkjastjórn hafi notað lofthelgi litla sæta Íslands til þess að flytja bráð í pyndingaholur þar sem fólk er beitt hræðilegri grimmd. Condoleezza Rice segist vísa því á bug. Hver þarf rök þegar maður hefur æru sjálfrar Condi Rice að veði? Æru eins innsta kopps í búri forhertustu og sálsjúkustu lygalaupa á Vesturhveli jarðar! Bandaríkjastjórn hefur að undanförnu barist fyrir því að bann við pyntingum verði svo gott sem afnumið. Hvers vegna skyldi hún vilja það? Vitnisburður gerenda og þolenda -- ljósmyndir -- starfsemi heils skóla fyrir kvalara og hryðjuverkamenn -- prentaðir leiðbeiningabæklingar um hvernig skuli bera sig að við pyndingar -- þurfið þér frekari vitnanna við? (a) Það er vægast sagt ærin ástæða til að ætla að Bandaríkjastjórn láti pynta fanga sína. (b) Eftir það sem á undan er gengið er ótrúlegt að maður -- sem varla er hægt að kalla heimskingja -- skuli leggja trúnað á staðhæfingar Bandaríkjastjórnar. Ótrúlegt. Ég held að Geir Haarde sé ekki heimskur. Það hlýtur að þýða að hann sé eitthvað annað.
Jarmkórinn er að sjálfsögðu á sínum stað: „NATO-ríki fagna yfirlýsingum Rice um túlkun mannréttindasáttmála“ -- trúgjarnir kjánar? Siðblindir heimsvaldasinnar? Hvað getur maður kallað fólk sem lítur framhjá því að meðbræður þess séu pyntaðir?
Hér er eitt að lokum: Ef við látum Bandaríkjastjórn komast upp með það óáreitta að pynta múslima og araba í dag, hverjir munu þá verða til þess að andmæla þegar röðin kemur að okkur? Við setjum mælikvarðann sem gildir fyrir okkur sjálf líka áður en yfir lýkur. Sá sem kærir sig ekki um að vera pyntaður sjálfur á ekki að sitja þögull hjá og leyfa þrjótum að pynta annað fólk.
=== === === ===
If that which we cannot fully explain must be the product of an intelligent designer.
AND
humans cannot fully explain God (see the Bible)
THEN
God must be the product of an intelligent designer.
THUS
There is more than one God/Intelligent Designer
AND THUS
The Bible is wrong.*
=== === === ===
Greinin „Reexamining Religion“ er hin áhugaverðasta. Þar er velt vöngum yfir spurningunni hvers eðlis trú er, hvers vegna fólk trúir, og hvernig trú hefur haldist í hendur við atriði sem hafa gagnast okkur í þróuninni, svo fátt eitt sé nefnt. Stórfín grein. Takk Björn Darri.
=== === === ===
Í vikulegu fréttabréfi James Randi er pistillinn „“CREATIONISTS” CAN BE HILARIOUS“ -- ég tek undir það, ég hló upphátt þótt ég væri einsamall.

Wednesday, December 7, 2005

Heilræði dagsins

Morgunblaðið skorar ekki hátt hjá mér fyrir forsíðu gærdagsins. Saddam æpandi í réttarsalnum eins og vanviti. Samhengi? Hvaða samhengi? Það hefði mátt koma fram að Saddam var að hafna lögmæti réttarins -- sem er dómstóll sigurvegarans og mun kveða upp úrskurð sigurvegarans -- og segja kvölurum írösku þjóðarinnar að þeir gætu drepið hann ef þeir vildu, hann væri ekki hræddur við það, en þennan dómstól viðurkenndi hann ekki, né lögmæti hans. Morgunblaðið birti Saddam æpandi eins og bjána. Sanngirni? Hvaða sanngirni?
(Annars var gott hjá heiðursmönnunum Saddam og Barzan bróður hans að kalla "Lifi Írak, lifi arabar, niður með einræði, lifi lýðræði" -- þeir geta sko trútt um talað!)
=== === === ===

Nú er ég hræddur um að fari að þrengja að Chavez í Venezuela. Stjórnarandstaðan sniðgekk kosningarnar og Bandaríkin kanna möguleikana á að koma honum frá. Ég er hræddur um að einhvers konar valdarán sé í uppsiglingu, mögulega samhliða borgarastyrjöld. Þegar ríkisstjórn gengur í berhögg við valdastéttina, hvað heldur sú síðarnefnda þá lengi áfram að láta það yfir sig ganga? Hvað kennir reynslan okkur, frá löndum á borð við Spán eða Chile? Humm ... þetta kemur allt í ljós, býst ég við. Chavez er ekki í auðveldri stöðu, svo mikið er víst.
=== === === ===

Jóhannes Björn skrifar um Hrunadans (1, 2) og gerir grein fyrir horfum í efnahagsmálum Vesturlanda. Fróðleg lesning, ekki mjög upplífgandi, en fróðleg og jarðbundin. Teiknin eru á lofti. Hvers vegna þverskallast áhrifamenn við að bregðast við þeim?
=== === === ===

John Chan skrifar um Rong Yiren, "rauða kapítalistann" sem var að deyja í Kína. Greinin er áhugaverð og kemur mikið inn á sögu Kína og hvernig Kínverjar hafa þóst vera meiri sósíalistar en þeir eru í rauninni.
=== === === ===

Robert Stevens skrifar um lúalega tilraun The Guardian til að koma höggi á Noam Chomsky.
=== === === ===

Forum for the Future Ends in Discord er stóráhugaverð grein um umleitanir Bandaríkjastjórnar til að koma á pólitískum breytingum í arabalöndunum. Þar kemur bæði fram hvernig Bandaríkin beita "óháðum" samtökum fyrir sig til að setja pressu á ríkisstjórnir (sbr. Georgíu, Úkraínu, Kyrgyztan og fleiri lönd) og hvað þeim gengur til með lýðræðisglamri sínu, en það er að tryggja pólitískan stöðugleika í strategískt mikilvægum löndum, frekar en að treysta á harðstjóra sem, óvinsælda sinna vegna, eru ótryggir í sessi.

Ef ég tryði á drauga...

Ég var nýverið staddur í gömlu húsi að kvöldi dags og dottaði á legubekk. Þegar ég rumskaði fannst mér ég sjá, í rökkvuðu næsta herbergi, líkt daufan bjarma í mynd konu sem gekk eða leið áfram í suðurátt. Ef ég tryði á drauga væri ég sannfærður um að ég hefði séð draug. En ég trúi ekki á drauga. Skynvillur geta vel blekkt manni sýn.

Tuesday, December 6, 2005

Skuldaskil við tvo lesendur + fleira

Ég hef trassað að svara tveim frómum mönnum sem svarað hafa mér í ummælakerfi.

Eftir 30. nóvember-færslu hefur AndriÞ spurt hvernig A.N.S.W.E.R. hafi tekist til með allsherjarverkfallið sem átti að lama Bandaríkin í einn dag þann 1. desember. Það er nú það. Ég hef engar spurnir af því. Maður hefði án efa heyrt eitthvað -- þótt ekki væri nema frá þeim sjálfum -- ef þetta hefði verið söxess. Mín ágiskun er því að árangurinn hafi verið minni en skipuleggendur bjuggust við, með öðrum orðum að þetta metnaðarfulla tiltæki hafi misheppnast.
Það er auðvelt að vera vitur eftir á, en ef einhver nennir að fletta því upp hér á blogginu, þá hafði ég efasemdir strax frá byrjun og þótti þetta of djarft teflt. Of mikið lagt undir, en of litlar líkur á árangri. Ég leyfði mér samt að vona, svo að orð mín voru ekki eins stór og ástæða hefði verið til. Ég var skeptískur þá, en sé núna að ég hefði átt að vera miklu skeptískari. Eftir á að hyggja (auðvelt að segja það) liggur auðvitað í augum uppi að þetta var einfaldlega allt of stór biti að kyngja.
Já, ég hefði átt að segja það þá og vera mjög klár núna að hafa séð það fyrir. Ef, ef...
=== === === ===

Í annan stað eru undirtektir Arngríms lærða við grein dagsetta 28. nóvember. Þeim undirtektum vil ég svara í nokkrum liðum.
Arngrímur „þykist skilja hann útfrá marxísku sjónarhorni, en marxisti er [hann] ekki, þótt marxískt samfélag sé vissulega [hans] útópía líkt og flestra annarra jafnaðarmanna.“ Það er rétt að marxísk undiralda er sterk í greininni. Með „marxísku samfélagi“ þykist ég vita að Arngrímur eigi við það sem ég kalla kommúnisma. Burtséð frá því hvort ekta kommúnismi mun nokkru sinni komast á eða ekki, þá samsinni ég því að hann sé góð átt að stefna í.
Með öðrum orðum,“ heldur Arngrímur áfram, „af því ég veit þú munt koma til með að spyrja mig hvernig ég geti aðhyllst marxíska útópíu án þess að vera marxisti, eða að ég vilji gjörbylta hagkerfinu án þess að vera marxisti“ svarar hann:
1. Ég trúi ekki að marxísk útópía gengi til lengdar því ég trúi ekki að enginn myndi koma til með að misnota kerfið til að skara eld að eigin köku. Ég aðhyllist því marxíska útópíu aðeins sem ideal-type samfélag, en ekki í raunveruleikanum.
Í stuttu máli má segja að stéttaskipting fari eftir aðstöðu manna til að misnota kerfið til að skara eld að eigin köku. Á því þjóðfélagslega millistigi sem sósíalismi nefnist, er stéttaskipting afnumin, og eiginlegur kommúnismi -- það sem Arngrímur kallar „útópíu“ -- rennur ekki upp fyrr en stéttaskipting heyrir sögunni til. Það er að segja, þegar menn eru ekki lengur í aðstöðu til að arðnýta hver annan. Ég tek undir að ekki einu sinni besta samfélag haldist óspillt til lengdar meðan það er stéttskipt -- og einmitt þess vegna er það afnám stéttaskiptingarinnar sem að mínu mati greinir „útópíu“ marxista frá eiginlegum útópíum. Hvernig afnám stéttaskiptingar fer fram er hins vegar efni í sérstaka umræðu...
Arngrímur heldur áfram: „2. Ég trúi því að einhverjar breytingar þurfi að gera á hagkerfinu svo það hætti að geta þjónað myrkraverkum valdamikilla einstaklinga og höggva megi á hnúta grófrar misskiptingar, fákeppni og mannréttindabrota. Hins vegar tel ég ekki ráðlegt að bylta því svo gjörsamlega, að almenningur verði fyrir siðrofi af þeim völdum. Hagkerfið, nokkuð breytt, mætti nota til að þjóna þörfum jafnaðarstefnunnar. Hagkerfið gjörbreytt gæti valdið ófyrirséðum og illviðráðanlegum vandkvæðum.
Ég tel einmitt að gjörbylting -- eðlisbreyting -- sé nauðsynleg, og það sem meira er, ég tel sennilegt að hún sé óhjákvæmileg, ef mannkynið hefur ekki tortímt sjálfu sér fyrst. Ég hef hins vegar afar takmarkaða trú á að hún geti farið farsællega fram með valdaráni eða offorsi. Ég neita því ekki að byltingar hafa mikla tilhneigingu til að fela í sér ofbeldi á einhverju stigi, en á heildina litið efast ég um að það þurfi að vera mikið. Vandlega framkvæmda gjörbyltingu, já takk. Afdrifarík mistök -- sama og þegið.
Nú tel ég Arngrími lærða svarað að sinni og vona að svar mitt falli ekki í grýttan jarðveg.
=== === === ===

Evrópusambandið vill að Sameinuðu þjóðirnar miðli málum í Nepal. Þótt maóistar hafi framlengt einhliða vopnahlé sitt um mánuð er samt barist, þótt bardagarnir séu heldur takmarkaðir að umfangi.
=== === === ===

Fimm lögreglumenn falla í Perú í fyrirsát sem eignuð er leifunum af Kommúnistaflokki Parú - maóistum (sem hefur verið kallaður „Skínandi stígur“, ranglega að því er mér skilst). Þeir eru kannski ekki alveg af baki dottnir ennþá?

Friday, December 2, 2005

Nepal og Hvíta-Rússland

Maóistar í Nepal framlengja einhliða vopnahlé sitt um mánuð. Það er gott. Góðs viti. Þegar hugmyndafræði eða hugsjón mæta pólitík þurfa menn oft að gera taktískar tilslakanir eða koma til móts við keppinauta. Því íhuga maóistar nú að falla frá kröfu um tafarlausa lýðveldisstofnun, en fallast á táknrænt konungdæmi, svo fremi að konungurinn boði til lýðræðislegs stjórnlagaþings. Frá því greindi Baburam Bhattarai í útvarpsviðtali á dögunum. Sko ... gott og vel, það skiptir auðvitað miklu að ná þeim áfangasigri að það verði boðað stjórnlagaþing, en ég átta mig ekki á hversu lýðræðislegt það getur verið ef konungurinn boðar það. Samt sem áður, ef maóistum og þingræðisflokkunum tekst að þvinga hann til þess eru það í rauninni þeir sem boða það, ekki hann, þótt hann geri það að nafninu til.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hvíta-Rússland: Lög gegn uppreisn alþýðu“ þykir mér einkennilega slagsíð fyrirsögn. Ætli Ólafur Sigurðsson hafi samið fréttina? Appelsínugula byltingin í Úkraínu var alls engin „uppreisn alþýðu“ heldur einfaldlega uppreisn bælds hluta valdastéttarinnar sem nýtti sér uppsafnaða ólgu og pískaði upp í uppreisn sem kvalítatíft var í þágu Vesturvelda og vesturhallandi valdastéttar. Slík uppreisn er auðvitað yfirvofandi í Hvíta-Rússlandi -- og slæmt sem ástandið er núna, þá yrði það ekki breyting til batnaðar, er ég hræddur um.