Tuesday, December 6, 2005

Skuldaskil við tvo lesendur + fleira

Ég hef trassað að svara tveim frómum mönnum sem svarað hafa mér í ummælakerfi.

Eftir 30. nóvember-færslu hefur AndriÞ spurt hvernig A.N.S.W.E.R. hafi tekist til með allsherjarverkfallið sem átti að lama Bandaríkin í einn dag þann 1. desember. Það er nú það. Ég hef engar spurnir af því. Maður hefði án efa heyrt eitthvað -- þótt ekki væri nema frá þeim sjálfum -- ef þetta hefði verið söxess. Mín ágiskun er því að árangurinn hafi verið minni en skipuleggendur bjuggust við, með öðrum orðum að þetta metnaðarfulla tiltæki hafi misheppnast.
Það er auðvelt að vera vitur eftir á, en ef einhver nennir að fletta því upp hér á blogginu, þá hafði ég efasemdir strax frá byrjun og þótti þetta of djarft teflt. Of mikið lagt undir, en of litlar líkur á árangri. Ég leyfði mér samt að vona, svo að orð mín voru ekki eins stór og ástæða hefði verið til. Ég var skeptískur þá, en sé núna að ég hefði átt að vera miklu skeptískari. Eftir á að hyggja (auðvelt að segja það) liggur auðvitað í augum uppi að þetta var einfaldlega allt of stór biti að kyngja.
Já, ég hefði átt að segja það þá og vera mjög klár núna að hafa séð það fyrir. Ef, ef...
=== === === ===

Í annan stað eru undirtektir Arngríms lærða við grein dagsetta 28. nóvember. Þeim undirtektum vil ég svara í nokkrum liðum.
Arngrímur „þykist skilja hann útfrá marxísku sjónarhorni, en marxisti er [hann] ekki, þótt marxískt samfélag sé vissulega [hans] útópía líkt og flestra annarra jafnaðarmanna.“ Það er rétt að marxísk undiralda er sterk í greininni. Með „marxísku samfélagi“ þykist ég vita að Arngrímur eigi við það sem ég kalla kommúnisma. Burtséð frá því hvort ekta kommúnismi mun nokkru sinni komast á eða ekki, þá samsinni ég því að hann sé góð átt að stefna í.
Með öðrum orðum,“ heldur Arngrímur áfram, „af því ég veit þú munt koma til með að spyrja mig hvernig ég geti aðhyllst marxíska útópíu án þess að vera marxisti, eða að ég vilji gjörbylta hagkerfinu án þess að vera marxisti“ svarar hann:
1. Ég trúi ekki að marxísk útópía gengi til lengdar því ég trúi ekki að enginn myndi koma til með að misnota kerfið til að skara eld að eigin köku. Ég aðhyllist því marxíska útópíu aðeins sem ideal-type samfélag, en ekki í raunveruleikanum.
Í stuttu máli má segja að stéttaskipting fari eftir aðstöðu manna til að misnota kerfið til að skara eld að eigin köku. Á því þjóðfélagslega millistigi sem sósíalismi nefnist, er stéttaskipting afnumin, og eiginlegur kommúnismi -- það sem Arngrímur kallar „útópíu“ -- rennur ekki upp fyrr en stéttaskipting heyrir sögunni til. Það er að segja, þegar menn eru ekki lengur í aðstöðu til að arðnýta hver annan. Ég tek undir að ekki einu sinni besta samfélag haldist óspillt til lengdar meðan það er stéttskipt -- og einmitt þess vegna er það afnám stéttaskiptingarinnar sem að mínu mati greinir „útópíu“ marxista frá eiginlegum útópíum. Hvernig afnám stéttaskiptingar fer fram er hins vegar efni í sérstaka umræðu...
Arngrímur heldur áfram: „2. Ég trúi því að einhverjar breytingar þurfi að gera á hagkerfinu svo það hætti að geta þjónað myrkraverkum valdamikilla einstaklinga og höggva megi á hnúta grófrar misskiptingar, fákeppni og mannréttindabrota. Hins vegar tel ég ekki ráðlegt að bylta því svo gjörsamlega, að almenningur verði fyrir siðrofi af þeim völdum. Hagkerfið, nokkuð breytt, mætti nota til að þjóna þörfum jafnaðarstefnunnar. Hagkerfið gjörbreytt gæti valdið ófyrirséðum og illviðráðanlegum vandkvæðum.
Ég tel einmitt að gjörbylting -- eðlisbreyting -- sé nauðsynleg, og það sem meira er, ég tel sennilegt að hún sé óhjákvæmileg, ef mannkynið hefur ekki tortímt sjálfu sér fyrst. Ég hef hins vegar afar takmarkaða trú á að hún geti farið farsællega fram með valdaráni eða offorsi. Ég neita því ekki að byltingar hafa mikla tilhneigingu til að fela í sér ofbeldi á einhverju stigi, en á heildina litið efast ég um að það þurfi að vera mikið. Vandlega framkvæmda gjörbyltingu, já takk. Afdrifarík mistök -- sama og þegið.
Nú tel ég Arngrími lærða svarað að sinni og vona að svar mitt falli ekki í grýttan jarðveg.
=== === === ===

Evrópusambandið vill að Sameinuðu þjóðirnar miðli málum í Nepal. Þótt maóistar hafi framlengt einhliða vopnahlé sitt um mánuð er samt barist, þótt bardagarnir séu heldur takmarkaðir að umfangi.
=== === === ===

Fimm lögreglumenn falla í Perú í fyrirsát sem eignuð er leifunum af Kommúnistaflokki Parú - maóistum (sem hefur verið kallaður „Skínandi stígur“, ranglega að því er mér skilst). Þeir eru kannski ekki alveg af baki dottnir ennþá?

No comments:

Post a Comment