Saturday, December 10, 2005

Blöðin í dag og aðrar fréttir

Í Blaðinu í dag er sagt frá kvenkyns vísinda- og fræðimönnum á blaðsíðu 24. Greinin er hvorki auðkennd höfundi, né er heimilda getið. Auk þess eru ósköp fá dæmi nefnd um merkilegar konur úr sögu vísinda og fræða. Sko ... í fyrsta lagi efast ég ekki um að hlutdeild kvenna hafi verið vanmetin alla tíð. Hún hefur hins vegar sjaldan verið eins mikil og karla, enda hafa karlar haft greiðari aðgang að menntun mest alla mannkynssöguna, og ráðið ríkjum. Í öðru lagi lyktar þessi grein sterkt af pólitískri rétthugsun. Það verður að representera alla hópa jafnt, jafnvel þótt þeir hafi, stéttarstöðu sinnar vegna, lagt misjafnlega mikið af mörkum. Mér þykir það leitt, en framlag karla til vísinda og fræða hefur, sögulega séð, verið talsvert meira en helmingur af heildinni. Söguna er reynt að endurskrifa samkvæmt ídentítets-pólitík samtímans.
=== === === ===

Í Morgunblaðinu fjallar Davíð Logi um Mahmoud Ahmadinejad. Hann segir forviða að það sé eins og Ahmadinejad standi á sama þótt Íran einangrist. Ég sé ekki að leikflétta Ahmadinejads sé sérstaklega flókin. Málflutningur hans höfðar til þjóðarstolts Írana, og shííta í nágrannalöndunum líka. Auk þess gæti hann vel skorað prik meðal reiðra lágstéttarmanna íslamska eða arabaheimsins. Hann styrkir stöðu sína á heimavelli -- og ef svo fer, sem vel getur farið, að íslamskar byltingar steypi harðstjórum af stóli einhvers staðar, þá er hann fyrirfram búinn að veðja á íslamistana, veðja á byltinguna. Ég sé ekki betur en að hann spili þetta mjög greindarlega.
=== === === ===

Pyntingar eru ekki bara grimmúðlegar, heldur heimskulegar líka, í Kína eru smábændur óánægðir -- skiljanlega -- og leynifangelsin voru líklega í Póllandi. Kemur eitthvað af þessu mér mjög á óvart? Nei, ég get ekki beinlínis sagt það.

No comments:

Post a Comment