Monday, December 12, 2005

Nánar af velþóknun á ráðstöfunum borgarstýru

Kommadistró Íslands verður í Snarrót í kvöld milli kl. 20 og 22. Frábært úrval af góðum bókum, já. Nánar hér.

=== === === ===

Það er rétt að ég skýri nánar hvers vegna ég er ánæður með Steinunni Valdísi Óskarsdóttur þessa dagana.

Í fyrsta lagi þykir mér það gott í sjálfu sér að þeir lægst launuðu séu hækkaðir í launum. Ekki vegna þess að ég, sem ófaglærður heilbrigðisstarfsmaður, tilheyri sjálfur hópi sem getur stutt kröfur sínar við þetta fordæmi, heldur af einfaldri réttlætiskennd. Hún spurði hvenær ætti að hækka laun þeirra lægst launuðu ef ekki í miðju góðæri. Ég tek undir þá spurningu, hvenær þá? Það ber að nota hvert tækifæri til að minnka launabil fólks og færa í réttlátara horf.

Í öðru lagi: Nú hækka leikskólakennarar í launum. Aðrar láglaunastéttir krefjast þess að fá sambærilega hækkun. Launaskrið fer af stað. Verðbólga, gengisfelling... Verkföll, stéttaátök. Það er í stéttaátökum sem sögunni vindur mest fram. Það er í átökum sem vinnandi fólk vinnur sigra. Þetta er eitt sprek á þann bálköst stéttaátaka sem verður skíðlogandi fyrr en varir. Aðaldrumbarnir í þeim kesti undir katli átakanna verða vitanlega hvellurinn þegar hagkerfi Bandaríkjanna bræðir úr sér, og svo olíukreppan sem virðist ætla að hitta á nokkurn veginn sama tíma. Eins og ég hef áður sagt eru skemmtilegir tímar í vændum fyrir þá sem hafa gaman af kreppum.

Ég er reyndar ekki einn þeirra. Kreppur eru afleitar og andstyggilegar. En raunverulegar engu að síður. Efnahagskreppur fylgja auðvaldsskipulaginu eins og magapína fylgir ofáti. Það er þó eitt sem við mannkynið getum hlakkað til, og það er að í kreppuástandi skapast aðstæður fyrir breytingar, fyrir að andstæður séu leiddar til lykta, fyrir að stéttabaráttunni vindi fram. Því lengra sem henni vindur fram, þess fyrr rennur sá dagur upp að kreppur verði ekki til nema í sögubókum, sá dagur sem hagkerfið verður skipulagt með (a) skynsemi og (b) mannlegar þarfir í huga, en ekki bruðl og óráðsíu auðvaldsskipulagsins. Því fyrr rennur sá dagur upp að heiðarlegt fólk geti um frjálst höfuð strokið, gengið glaðbeitt til vinnu sinnar og notið afrakstursins sjálft.

Er Steinunn Valdís að hrinda af stað byltingu? Nei, það væri víst ofmælt. Svo vinstrisinnuð er hún varla.

Út af fyrir sig er það reaktíft að ætla sér að bæta hag þeirra sem höllum fæti standa með stjórnvaldsaðgerðum en gera það innan takmarka auðvaldsskipulagsins. Hver sigur sem vinnst þannig erafturkallanlegur og verður rekinn til baka við fyrsta tækifæri, eins og reynslan hefur kennt okkur. Í þessu tilfelli má hins vegar vel sjá fyrir sér jákvæðar - eða réttara sagt framsæknar - afleiðingar af annars reaktífri stjórnvaldsaðgerð.

=== === === ===

Ég held að frá sjónarmiði stéttabaráttunnar sé tvímælalaust framsæknara að pró-bisness hægrimenn, hvort sem þeir vilja láta auðvaldið ráða beint (frjálshyggjumenn) eða óbeint (í gegn um ríkisvaldið), ráði ríkjum heldur en tvístígandi, friðkaupandi sósíaldemókratar, ef valið stæði milli þessara tveggja. Pró-bisness hægrimenn mega þó eiga það að þeir eru stéttvísir, á meðan sósíaldemókratar eru stéttsvikarar, a.m.k. til lengri tíma litið, afturhaldssamir hirðgæðingar og höfuðstoðir auðvaldsins. Það er algengur misskilningur að það sé hægt að lagfæra auðvaldsskipulagið. Það er ekki hægt; það er gallað í sjálfu sér, það er kvalítatíft gallað, það byggir á göllum og snýst um innbyggða galla. Að losna við þessa galla útheimtir að losna við sjálft skipulagið sem gengur út á því að heldur þeim við.

Ég þarf varla að taka það fram að stéttvísir kommúnistar eru þeir sem ég vildi helst sjá hafa áhrif. En burtséð frá þeim, þá eru stéttvísir hægrimenn framsæknari en þýlyndi markaðir stéttsvikarar eða hrekklausir taglhnýtingar auðvaldsins.

Fram ber að koma að hér á ég við framsækni í langtímaskilningi stéttabaráttunnar. Velmegun, mannréttindi eða pólitískt og félagslegt frelsi eru aðrar breytur sem vitanlega má ekki líta framhjá -- en engin þeirra er þó hálfdrættingur á við framvindu stéttabaráttunnar.

No comments:

Post a Comment