Wednesday, December 7, 2005

Heilræði dagsins

Morgunblaðið skorar ekki hátt hjá mér fyrir forsíðu gærdagsins. Saddam æpandi í réttarsalnum eins og vanviti. Samhengi? Hvaða samhengi? Það hefði mátt koma fram að Saddam var að hafna lögmæti réttarins -- sem er dómstóll sigurvegarans og mun kveða upp úrskurð sigurvegarans -- og segja kvölurum írösku þjóðarinnar að þeir gætu drepið hann ef þeir vildu, hann væri ekki hræddur við það, en þennan dómstól viðurkenndi hann ekki, né lögmæti hans. Morgunblaðið birti Saddam æpandi eins og bjána. Sanngirni? Hvaða sanngirni?
(Annars var gott hjá heiðursmönnunum Saddam og Barzan bróður hans að kalla "Lifi Írak, lifi arabar, niður með einræði, lifi lýðræði" -- þeir geta sko trútt um talað!)
=== === === ===

Nú er ég hræddur um að fari að þrengja að Chavez í Venezuela. Stjórnarandstaðan sniðgekk kosningarnar og Bandaríkin kanna möguleikana á að koma honum frá. Ég er hræddur um að einhvers konar valdarán sé í uppsiglingu, mögulega samhliða borgarastyrjöld. Þegar ríkisstjórn gengur í berhögg við valdastéttina, hvað heldur sú síðarnefnda þá lengi áfram að láta það yfir sig ganga? Hvað kennir reynslan okkur, frá löndum á borð við Spán eða Chile? Humm ... þetta kemur allt í ljós, býst ég við. Chavez er ekki í auðveldri stöðu, svo mikið er víst.
=== === === ===

Jóhannes Björn skrifar um Hrunadans (1, 2) og gerir grein fyrir horfum í efnahagsmálum Vesturlanda. Fróðleg lesning, ekki mjög upplífgandi, en fróðleg og jarðbundin. Teiknin eru á lofti. Hvers vegna þverskallast áhrifamenn við að bregðast við þeim?
=== === === ===

John Chan skrifar um Rong Yiren, "rauða kapítalistann" sem var að deyja í Kína. Greinin er áhugaverð og kemur mikið inn á sögu Kína og hvernig Kínverjar hafa þóst vera meiri sósíalistar en þeir eru í rauninni.
=== === === ===

Robert Stevens skrifar um lúalega tilraun The Guardian til að koma höggi á Noam Chomsky.
=== === === ===

Forum for the Future Ends in Discord er stóráhugaverð grein um umleitanir Bandaríkjastjórnar til að koma á pólitískum breytingum í arabalöndunum. Þar kemur bæði fram hvernig Bandaríkin beita "óháðum" samtökum fyrir sig til að setja pressu á ríkisstjórnir (sbr. Georgíu, Úkraínu, Kyrgyztan og fleiri lönd) og hvað þeim gengur til með lýðræðisglamri sínu, en það er að tryggja pólitískan stöðugleika í strategískt mikilvægum löndum, frekar en að treysta á harðstjóra sem, óvinsælda sinna vegna, eru ótryggir í sessi.

No comments:

Post a Comment