Monday, November 17, 2014

Öfgahægriflokkur sem er á móti ESB

Í frétt Ríkisútvarpsins um heimkomu Vojislav Seselj til Belgrad segir að hann sé "leiðtogi öfgahægriflokks sem vill að Serbía hætti við aðildarumsókn sína að Evrópusambandinu." Flokkurinn hans, Radikali flokkurinn, er gott betur en það. Þetta er ekki einhver anti-ESB flokkur hægripopúlista, þetta er nánast ígildi nasistaflokks. Þetta er öfgafullur þjóðernisflokkur sem hatar múslima og Króata en þó alveg sér í lagi Albana.

Sumarið 2008, þegar Radovan Karadzic var tekinn fastur, var ég staddur í Mostar í Bosníu-Hercegóvínu, og ákvað að drífa mig til Belgrad til að verða vitni að mótmælunum sem vænta mátti þar. Þar voru haldnir miklir útifundir hægriöfgamanna, og greinilega að andstaða við Evrópusambandið var þeim ekki efst í huga. Gríðarstór fáni með andliti Seseljs blakti yfir fundinum, ásamt fleiri táknum þjóðernissinna, menn gengu í bolum með myndum af Radovan Karadzic og Ratko Mladic herforingja, og aðalslagoðr fundarins var "Kosovo je srtse Srbije" - Kosovo er hjarta Serbíu. Þá skörtuðu margir chetnika-höttum eða öðrum einkennisklæðum serbneskra þjóðernis- og konungssinna.

Þetta er ekki einhver borgaralegur fullveldisflokkur, heldur flokkur sem er nátengdur stríðsglæpamönnum úr Bosníustríðinu og snoðkollahreyfingunni. Það er rétt hjá Ríkisútvarpinu að titla hann öfgahægriflokk -- en það er villandi að láta hljóma eins og hann sé aðallega á móti Evrópusambandinu. Eiginlega hljómar það líkast því að andstaða við Evrópusambandið eigi að hljóma eins og öfgastefna. Varla er það undirliggjandi boðskapur frá Ríkisútvarpinu?

1 comment:

  1. Takk fyrir athyglisverðan pistil. Svarið við síðustu spurningunni er já.

    ReplyDelete