Saturday, June 7, 2014

Skýrsla fagráðs kaþólsku kirkjunnar

Á Vísir.is segir frá því að "Lögmaður eins af fórnarlömbunum í Landakotsmálinu ætlar að höfða mál á hendur kaþólsku kirkjunni fái umbjóðandi hans ekki afrit af þeim hluta skýrslu fagráðs kirkjunnar er varðar hann." Þar er einnig haft eftir kirkjunni
 að "skýrsla fagráðs kaþólsku kirkjunnar á Íslandi sé ætluð til innri nota fyrir stjórn kirkjunnar en ekki til almennrar dreifingar. Á þeim grundvelli hafi stjórn kaþólsku kirkjunnar ákveðið að verða ekki við beiðni um að fá sendan almenna hluta skýrslunnar."

Ég verð að segja að mér þykir þetta skrítið og hljómar eins og geðþóttaákvörðun. Vegna þess að ég á eintak af skýrslunni. Prentað eintak sem ég fékk hjá kaþólsku kirkjunni.

Ég gekk í Landakotsskóla fjóra vetur, man mjög vel eftir séra Georg og Margréti Müller og skrifaði síðbúin minningarorð um MM fyrir nokkrum árum, um það leyti sem þessi umræða um skötuhjúin var að koma upp á yfirborðið. Rannsóknarnefnd kaþólsku kirkjunnar hafði samband við mig og bað mig að koma og segja frá. Það gerði ég. Og m.a. vegna þess, og persónulegra kynna mína af þessu óþverrapari, vildi ég gjarnan sjá skýrsluna.

Þannig að ég hafði samband við kaþólsku kirkjuna, nánar tiltekið Hjálmar Blöndal, lögmann hennar, og bað um eintak. Hann sagði að það væru til nokkur eintök og að ég mætti alveg fá eitt þeirra. Fékk ég það daginn eftir, las það dagana eftir það og síðan hefur soðið á mér af reiði í hvert sinn sem mér verður hugsað til hennar.

Ég ætla ekki að fara út í hvað mér væri skapi næst að gera, en það var semsagt ekki prinsippmál kirkjunnar að halda þessari skýrslu frá sjónum almennings -- altént ekki þegar hún var nýútkomin árið 2012. Já, og svo er hún líka á netinu.

1 comment:

  1. Getur fórnarlambið þá ekki einmitt nálgast þetta þarna á netinu, eða er sá hluti skýrslunnar sem það vill sjá ekki þar inni?

    ReplyDelete