Wednesday, May 28, 2014

Auðvitað á að leyfa mosku

Það er ljóta ruglið sem Framsókn hefur komið sér í með þessum örvitalegu athugasemdum um moskuna. Glæsilegur oddviti sem þeir hafa valið sér og vonandi trampast þessa flokksafskræmi núna niður í flór sögunnar í eitt skipti fyrir öll.
 
Auðvitað á að leyfa íslenskum múslimum að byggja sér mosku, það eru bara þeirra réttindi. Ef menn ímynda sér að þar verði skipulögð hryðjuverk eða leyniskyttur verði uppi í mínarettunni, þá þurfa menn að leita sér hjálpar. Kommon!
 
Nú ætla ég hvorki að taka upp hanskann fyrir íslam per se né önnur trúarbrögð -- en er það ekki eftirtektarvert, að þegar sjálfmiðaðir vesturlandabúar gagnrýna t.d. illa meðferð á konum í íslömskum samfélögum -- þ.e.a.s. gagnrýna karlrembu og kynbundið ofbeldi -- þá beina þeir spjótunum að íslam en hvorki að karlrembunni sem slíkri né ofbeldinu sem slíku. Kjarni þessara viðhorfa, það sem umræðan snýst um, er ekki mannréttindi heldur óttinn við hina.

Ef íhaldssöm viðhorf eða herská menning eru vandamálið, þá á ekki að gera einhver trúarbrögð að sökudólgi -- en ef maður færi eftir því, lægi beinast við að gagnrýna í leiðinni íhaldssöm viðhorf og karlrembu á heimaslóðunum í leiðinni, ásamt herskárri menningu og kynbundnu ofbeldi. Ætli það sé það sem menn óttast?

No comments:

Post a Comment