Thursday, November 27, 2014

Íslamska ríkið, hvað ber að gera?

Íslamska ríkið fer mikinn og gustar af því þannig að fýluna leggur a.m.k. hingað norður til Danmerkur þar sem ég sit og skrifa. Hér í Aarhus er m.a.s. moska þar sem froðufellandi íslamistar vinna unga menn á sitt band og senda þá á blóðvöllinn. Ég skal játa að ég skil ekki hvers vegna enginn hefur unnið alvarleg ofbeldisverk á þessari mosku og svínunum sem ráða í henni, en látum það liggja milli hluta.

Íslamska ríkið er skilgetið afkvæmi Vesturveldanna. Í aðra ættina er það beint afkvæmi þeirra, og í hina ættina óbeint. Beint, vegna þess að vestræn, einkum bandarísk, öfl hafa beinlínis hjálpað þeim að koma sér á laggirnar með m.a. vopnasendingum og þjálfun, hafa magnað þá upp til að ráða niðurlögum Assads og Baath-flokksins í Sýrlandi. Þeim virðist sem betur fer ekki verða kápan úr því klæðinu, þökk sé stuðningi Rússa og Kínverja og þökk sé tryggð og hreysti sýrlenska hersins og stykri forystu Assads. Og óbeint vegna þess að ólgan sem ÍS sprettur upp úr er meira og minna ruðningsáhrif af Íraksstríðinu, auk þess sem þorparaöfl við Persaflóa leika tveim skjöldum.

Það má heldur ekki gleyma gildi þess að eignast ógurlegan nýjan óvin á svæðinu, sem réttlætir frekari hernað og hermdarverk. Í löndum eins og Sýrlandi og Írak eiga aldrei eftir að ríkja öfl sem eru höll undir Vesturlönd, nema þá í krafti ofbeldis og kúgunar. Á meðan ekki er hægt að brjóta andstöðu fólksins niður með ofbeldi og "friða" löndin þannig, er það því hagur Vesturveldanna að stuðla frekar að upplausn, sundrungu og innbyrðis erjum, þannig að fólkið geti ekki sameinast og veitt heimsvaldastefnunni viðnám. Þá er auðveldara að ráðskast með það. Deila og drottna.

Loftárásir Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra eiga ekki eftir að brjóta ÍS á bak aftur. Þær eiga eftir að valda ómældum hörmungum fyrir óbreytta borgara og þær eiga líka sumpart eftir að styrkja ÍS með því að draga þarna víglínu milli vestrænnar heimsvaldastefnu annars vegar og ÍS hins vegar. Þá munu ungir, róttækir múslimar þyrpast í raðir ÍS og halda að þeir séu að berjast gegn heimsvaldastefnunni.

Ekki bætir það úr skák að réttlætingarnar byggjast á mörgum lögum af hræsni og skinhelgi. Dæmi: IS er stutt af Erdogan Tyrkjavaldi, en Tyrkland er í Nató og á að heita bandamaður Vesturlanda, til að berja á Kúrdum og veraldlega sinnuðum stjórnvöldum Sýrlands. IS er líka stutt af ýmsum, of ríkum, öflum bókstafstrúarmanna við Persaflóa þótt ruddaríkin þar eigi líka að heita bandamenn Vesturvelda. Og Saúdi-Arabar eiga að vera með Vesturveldunum í liði, þótt þeir séu kannski afturhaldssamasta aflið af öllum á svæðinu -- og er þá Íslamska ríkið sjálft kannski eina undantekningin. Eða lítur þannig út í fjölmiðlum; þar er mikið gert úr því þegar Íslamska ríkið í Írak og Sýrlandi hálsheggur gísl -- en þegar íslamska ríkið á Arabíuskaga, Saúdi-Arabía, hálsheggur tugi manns á ári, þá er lítið fjallað um það. Enda bandamenn Vesturvelda.

Það fór um mig hrollur nú síðsumars þegar Bandaríkjamenn kynntu fríðan flokk ríkja sem mundu taka þátt í loftárásum á Íslamska ríkið. Oft var tekið fram í fréttum að það "þætti sterkt" fyrir Obama að hafa Saúdi-Araba og fleiri arabalönd þar á meðal, það gæfi aðgerðinni betra yfirbragð. Ætli arabinn á götunni sé sama sinnis? Ætli þeir séu svo hrifnir af kúgunarvaldi Persaflóafursta?

Fólki getur fundist það sem því sýnist um Bashar al-Assad í Sýrlandi og stjórn hans. Ég fyrir mitt leyti trúi ekki öllu sem ég les í íhaldspressu Vesturlanda, þótt ég viti vel að margt sé að í landinu. Alla vega, það er aukaatriði. Assad og ríkisstjórn hans og her eru (a) tvímælalaust betri kostur en Íslamska ríkið og (b) einu öflin sem geta í alvörunni sigrað það. Skilyrðin fyrir því eru að utanaðkomandi öfl eins og Tyrkir og Flóafífl hætti að styðja Íslamska ríkið og að Sýrlendingar fái stuðning í staðinn. Menn þurfa ekki að elska Assad til að geta valið þann kost, það er einfaldlega skásti kosturinn. Það þýðir ekki að það verði fagurt á að líta; það verður það svo sannarlega ekki, en það eru engir aðrir kostir betri í stöðunni.

No comments:

Post a Comment