Thursday, November 20, 2014

Skuldaleiðrétting - eða félagsvæðing?

Skuldaleiðréttingin mikla, sem fer fram þessa dagana ef trúa má fréttum, er mjög umdeild. Ég er ósammála báðum meginpólunum. Ég tel ekki rétt að hið opinbera fjármagni þetta, en ég tel heldur ekki rétt að láta bara myllusteininn hanga um háls þjóðarinnar. (Ég sagði stundum á síðasta kjörtímabili, að ég væri mikið á móti ríkisstjórninni, en ég væri ennþá meira á móti stjórnarandstöðunni. Það hefur núna snúist við.)

Efnahagsmálahópur VG
Á misserunum eftir hrun tók ég töluverðan þátt í baráttu fyrir skuldaleiðréttingu. Aðallega innanflokks í VG, þar sem lítill hópur starfaði að því en var skjaldaður af flokkseigendafélaginu á svotil hverjum einasta fundi. Það má segja, með smá einföldunum, að barátta okkar hafi snúist um að leiðrétta forsendubrestinn sem varð í hruninu, t.d. með afnámi verðtryggingar, sem tæki gildi snemma árs 2008, þ.e. væri afturvirkt. Lógíkin var að bankar og lífeyrissjóðir ættu enga heimtingu á kröfum sem tilstofnuðust vegna forsendubrests og þar sem þeir hefðu hvort sem er aldrei reiknað með þeim peningum væri það í raun ekki missir fyrir þá að fá þá ekki. Þessar skuldir væru bara tilbúningur og hægt að fella þær niður með lögum. Það var stungið upp á ýmsum aðferðum sem ég ætla ekki að útlista nánar að sinni, en allar þessar tillögur mættu stífri andstöðu flokkseigendafélagsins.

Heyrði ég oft sagt að efnaðasta fólkið ætti ekki að fara að fá gefins peninga, hvers lags sósíalismi væri það? Svarið við því er auðvitað að það á að eiga við stéttaskiptingu með pólitík sem vinnur gegn arðráni, eða, ef maður er krati, með skattkerfi, en ekki nota hamfarir til að refsa öllum í hóp. Þvert á móti, það hefði átt að kasta bjarghring til allra, og ef einhverjir í hópnum hefðu helst átt skilið að drukkna hefði átt að taka þá umræðu í öðru samhengi.

Á landsfundinum 2009 var ég í efnahagsmálahópi, þar sem reyndist vera meirihluti reyndist vera fyrir leiðréttingartillögum. Hópurinn bar fram ályktunartillögu sína þegar fundurinn afgreiddi ályktanir, og reyndist það vera eina ályktunin sem Steingrímu J. Sigfússon tók til máls um í eigin persónu. Hún var var samþykkt með breytingartillögu Steingríms, m.ö.o. slógdregin og innihaldslaus.

Okkar hópi var mikil alvara, enda vægast sagt mikið í húfi. Japl-og-jaml-tillögur sem komu sem eins konar málamiðlun frá flokkseigendafélaginu -- málamiðlun milli hagsmuna heimilanda og hagsmuna fjármálaauðvaldsins -- fólust í einhverjum frystingum og frestunum og 110% leiðum sem fólk þekkir, og gengu allar út á að afskrifa sem minnst. Ástæðan, sem formælendurnir töluðu aldrei um, var auðvitað að afskriftir mundu rýra eignastöðu bankanna og ógna þannig rekstrargrundvelli þeirra. Þessar hálfkáks-hugmyndir fengu ekki stuðning okkar hóps, enda ber í fyrsta lagi ekki að greiða ranglátar skuldir og í öðru lagi er það bara blekking að halda formlega lifandi einhverjum kröfum sem allir vita að verða aldrei innheimtar.

Þessu þarf að halda til haga: Sá vinstriróttæki hópur sem ég starfaði í á fyrstu árum hinnar svokölluðu vinstristjórnar, barðist fyrir skuldaleiðréttingu, en þessi skuldaleiðrétting sem nú fer fram er ekki það sem við börðumst fyrir, og við eigum hvorki heiður né skömm af henni.

Alþýðufylkingin
Í þá daga var ennþá til vinstrivængur í VG. Hann yfirgaf flokkinn meira og minna fyrir síðustu Alþingiskosningar, og tvístraðist í mörg lítil framboð. Þorvaldur Þorvaldsson og ég reyndum allt sem við gátum til að halda þessu fólki saman, m.a. í gegn um félagið Rauðan vettvang, og þótt það hafi ekki (enn) borið tilætlaðan árangur, nýttist starf efnahagsmálahópsins í frekari úrvinnslu og stefnumótun um varanlegri lausnir, eftir því sem leið frá sjálfu hruninu og skuldaleiðréttingin færðist afturfyrir önnur meira "dagsaktúel" mál og varð um leið tæknilega flóknari og flóknari eftir því sem tíminn leið.

Í staðinn fyrir að láta umræðuna leiðast inn í myrkviði tækni- og lagarefja og blaðurs, vildum við marka skýra stefnu, boðskap sem stefndi í alvörunni annars vegar frá vandamálaunum og hins til varanlegra lausna. Félagsvæðing var svarið sem við fundum, (sjá nánar í stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar): Í stuttu máli eigum við að koma á félagslegu fjármálakerfi, byggðu á samfélagslegu eigin fé, sem er ekki rekið í gróðaskyni heldur hjálpar fólki að eignast heimili á kostnaðarverði. Án vaxta. Vextirnir eru nefnilega miklu meira vandamál heldur en verðtryggingin; hún væri frekar lítið mál ef vextirnir væru ekki.

Félagsvætt fjármálakerfi væri ekki bara meiri búbót en skuldaleiðrétting, hún væri í raun á við margar skuldaleiðréttingar þar sem hún mundi að miklu leyti koma í veg fyrir nýjar fjármálabólur og -hrun. Félagsvæðing er ekki það sama og sósíalismi. Hún er skref í áttina. Hvorki meira né minna. Í áttina frá kapítalisma og áttina til sósíalisma. Stórt skref í rétta átt, með öðrum orðum.

Þið sem þetta lesið eruð líkleg til að hafa kosið aðra flokka, jafnvel starfa í þeim. Það hindrar ykkur ekki í að lesa stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar og mynda ykkur skoðun á henni. Hún er stutt og skýr og hún á eftir að koma fram í umræðunni aftur -- og aftur og aftur.



No comments:

Post a Comment