Monday, November 24, 2014

Palestína: friður verður aldrei byggður á yfirgangi

Mads Gilbert bannað að fara aftur til Gaza, um aldur og ævi, og öryggisástæðum borið við. Þegar ísraelsk yfirvöld segja "öryggisástæður", þá þýðir það yfirleitt annað hvort að það er geðþótti sem ræður, eða eitthvað annað sem hljómar of illa til að segja það. Ástæðan í tilfelli Gilberts er augljóslega að hann lætur ekki duga að hlynna að særðum, heldur ber líka vitni um það í vestrænum fjölmiðlum hvers vegna ástandið er svona, ber vitni um níðingshátt og grimmd Ísraela.

Um leið berast fréttir af því að ísraelsk yfirvöld ætli aftur að fara að rústa heimilum í hefndarskyni þótt einhverjir embættismenn hafi "dregið árangur þess í efa", eins og Vísir orðar það. Hefndaraðgerðir, með öðrum orðum. Áhrif þeirra er ekki að fæla herskáa Palestínumenn frá því að beita ofbeldi, heldur að reita aðra Palesínumenn enn meira til reiði og framkalla þannig ennþá meira ofbeldi af þeirra hálfu -- sem Ísraelar munu svo nota til að réttlæta fjöldamorð með stórvirkum vinnuvélum næst þegar hægriöfgamenn þurfa að píska upp stuðningsmóðursýki sjálfum sér til handa eða hafa meiri peninga af Bandaríkjunum.

Vandamálið í samskiptum Ísraela og Palestínumanna er í grunninn til ekki flókið. Vandamálið er að Ísraelar halda mestum hluta Palestínu hernumdum, en hafa herkví um afganginn. Fyrir utan þá hluta sem þeir hafa þjóðernishreinsað og innlimað. Skæruhernaður Palestínumanna verður ekki brotinn á bak aftur með hervaldi. Það verður því ekki friður á meðan harðlínuzíonistar (trúar- og þjóðernisöfgamenn) fá að halda ranglæti sínu áfram.

No comments:

Post a Comment