Wednesday, September 19, 2012

Besta snjóskófla í heimi

Ég er farinn að hlakka til fyrstu snjókomunnar. Fyrstu 30 ár ævi minnar fannst mér svona tiltölulega leiðinlegt að moka heimreiðina, en lét mig hafa það. Í fyrravor fékk ég hins vegar í bakið -- og það er alls ekki gaman að vera bakveik hengilmæna þegar þarf að moka snjó. Þannig að ég fór í Brynju fyrir tæpu ári og hafði einfalda ósk: Ég vildi fá hina fullkomnu snjóskóflu. Karlinn hélt nú það, rétti mér eina alveg rosalega, með löngu og miklu skafti og svona sköfuhaus. Við venjulega snjókomu er ég núna svona 10-15 sekúndur að moka heimreiðina hjá mér, en uppundir hálfa mínútu ef snjórinn er mjög mikill. Ef ég moka líka innkeyrsluna bætist önnur hálf mínúta við. Og ekki nóg með það, heldur er líka rosalega skemmtilegt að moka með henni. Þannig að ég segi við snjóinn eins og Hallgrímur við dauðann: Kom þú sæll nær þú vilt.

No comments:

Post a Comment