Ríkisútvarpið greinir frá því að Ahmadinejad Íransforseti sé "við sama heygarðshornið" og hóti Ísraelum öllu illu. Fjölmiðlar éta það upp hver eftir öðrum að hann boði tortímingu Ísraels, og má skilja af orðunum að hann meini eitt rosalegt blóðbað, fjöldamorð á gyðingum. Þessi dólgur.
Þegar ég les svona frétt, er ég feginn að hafa lesið greinar eins og þessa. Tilfellið er að orð Ahmadinejads hafa aftur og aftur -- og aftur og aftur og aftur -- verið slitin úr samhengi. Fólk á tilverurétt, ríki ekki. Rasismi, aðskilnaðarstefna og hernám eiga ekki rétt á sér og pólitísk mannvirki sem byggjast á þessum eða öðrum mannréttindabrotum ekki heldur. Lesið greinina, hún skýrir þetta vel.
Áróður er ekki eitthvað sem hvarf af sjónarsviðinu þegar Kalda stríðinu lauk. Íran er eitt af næstu skotmörkum heimsvaldastefnunnar, og aðal hótanirnar hafa verið af hálfu Ísraels í garð Írans. Gleymum því ekki, að Ísrael er eina kjarnorkuveldið í þessum heimshluta, og hefur Bandaríkin á bak við sig. Stór hluti af stríðinu gegn Íran er áróðursstríð, þar sem Ahmadinejad er stillt upp eins og blóðþyrstu villidýri, orð hans tekin úr samhengi og undirliggjandi merkingin að þessum brjálæðingi verði að koma frá völdum með góðu eða illu.
Ég efast um að höfundur fréttarinnar, sem ég vísaði á í upphafi, hafi hlustað á ræðuna og skilji persnesku. Líklegra er að fréttin sé bara þýdd. Hrá og gagnrýnislaust.
Ekki það, að ég skil ekki persnesku heldur, og hef ekki lesið þessa ræðu. En miðað við afbakaðan fréttaflutninginn hingað til -- og miðað við frétt IRNA af þessari ræðu -- þá efast ég um að þarna sé sanngjörn umfjöllun á ferðinni.
Tuesday, September 25, 2012
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment