Ég byrjaði að ganga með Zippo-kveikjara áður en ég byrjaði að reykja. Þeir eru ekki bara svalir, heldur gætu þeir líka hugsanlega stöðvað byssukúlu sem væri skotið að manni.
Nú, þegar ég hafði reykt pípu um hríð, fékk ég mér pípu-Zippó. Eldhólfið er lokað að ofan en opið á hliðunum, þannig að maður geti lagt hann láréttan ofan á pípuna og sogið logann ofan í tóbakið. Eldurinn hefur vitanlega ekki alveg eins gott skjól og í venjulegum Zippó, en feykinóg samt, enda þarf meiri gust til að slökkva bensínloga.
Jæja, veikleikinn við pípuzippóinn er að lokið ofan á eldhólfinu er laust, eða, réttara sagt, það er klemmt ofan í hólfið, og ekki beinlínis fast við neitt. Það er kannski ekki hægt að kalla það hönnunargalla, þar sem það þarf að vera hægt að losa það af ef þarf að skipta um kveik -- en það er engu að síður veikleiki á annars pottþéttu tæki.
Ég var í teiti um daginn, þar sem félagi minn missti zippóinn góða úr höndunum, lokið datt af eldhólfinu og niður á milli borða í palli úti í garði, þar sem það hefði kostað verulega mikið umstang að ná því upp aftur. Sökudólgurinn tók strax að sér að redda málunum og fór með kveikjarann í umboðið, en þessi lok voru ekki til á lager þar. Þeir voru hins vegar allir af vilja gerðir -- enda ævilöng ábyrgð á Zippókveikjurum -- og sendu kveikjarann alla leið til Þýskalands, þar sem nýtt lok var sett á hann. Í leiðinni var þolinmóðurinn í hjörunum hertur, skipt um bómullarinnvolsið og alltsaman fægt upp og var eins og nýtt þegar ég fékk hann til baka, miklu fyrr en ég átti von á. Auk þess fékk ég heilan brúsa af kveikjarabensíni í kaupbæti, og umboðið ku vera komið með svona lok, eins og mig vantaði, á lager, þannig að næsti kúnni með sama erindi fái jafnvel ennþá greiðari afgreiðslu.
Þetta kalla ég þjónustu. Það eru til ýmsar ástæður fyrir því að reykja tóbak -- misgóðar auðvitað -- en að hafa ástæðu til að ganga með zippókveikjara á sér, það er tvímælalaust ein af betri ástæðunum.
Friday, October 26, 2012
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment