Friday, November 17, 2006

Uppreisn á Tonga og hugleiðing út frá henni

Naumast eru það fréttirnar [I, II] frá eyríkinu Tonga: Uppreisn sem hefur kostað 8 manns lífið þegar þetta er ritað. Í september dó gamli kóngurinn eftir 41 ár á valdastóli og ráðgjafanefnd lagði til að "lýðræðislegar umbætur" yrðu gerðar. Svo ákvað stjórnin að fresta þeim. Íbúar höfuðborgarinnar Núkúalófa fara út á göturnar, brjóta rúður, velta bílum og allt er í hers höndum.

Ástralía og Nýja Sjáland búa sig undir íhlutun ef ríkisstjórnin fer þess á leit. Að senda hermenn og lögreglu. Til hvers? Jú: Til að tryggja valdastéttina í sessi í þessari hjálendu sinni. Tonga, eins og fleiri eyríki Kyrrahafsins, er tæpast sjálfstæð nema að nafninu til. Þegar íbúunum er nóg boðið og gera uppsteyt þá er hvíti maðurinn fljótur á vettvang með byssurnar sínar.

Hins vegar er þetta lærdómsríkt. Ef Tonga, með sína rúmlega 114.000 íbúa, logar í uppreisn, hvers vegna ætti Ísland þá ekki að geta gert það? Hver hefur heyrt um uppreisn á Íslandi fyrr? Enginn. En hver hefur heyrt um uppreisn á Tonga fyrr?

Það væri auðvitað fánýtt að reyna uppreisn á Íslandi. Fyrir nokkrum öldum síðan lagði heiðursmaður (hver var það aftur, Diðrik frá Minden?) Ísland undir sig með 6 hermönnum. Það þyrfti varla mikið meira í dag, held ég. Eða hvað? Í öllu falli, þá væri uppreisn á Íslandi eins og að gera uppreisn í fiskabúri. Erlent heimsveldi getur komið fram vilja sínum við okkur pólitísku dvergana þegar því dettur það í hug.

Það þýðir að okkar bylting mun ekki fara fram á Austurvelli heldur í Washington.

Það væri gaman að heyra hvað aðrir hafa um þetta að segja.

No comments:

Post a Comment