Sunday, October 1, 2006

Af klerkum og öðrum í Sómalíu

Þegar er talað um harðlínuklerka er lesandanum ætlað að skilja að þar séu vafasamir menn á ferð. Ekki efast ég um að það sem sómalskir klerkar standa fyrir sé afturhaldssamt og stangist á við hugmyndir Vesturlandabúa um mannréttindi eða lýðræði. Hins vegar held ég að það sé verið að mála skrattann á vegginn, mögulega til að undirbúa jarðveginn fyrir hernaðaríhlutun Eþíópíumanna, bæði vegna eigin hagsmuna eþíópísku ríkisstjórnarinnar og sem leppa vestrænnar heimsvaldastefnu.
Þótt klerkaveldi sé arfaslæmt í sjálfu sér, þá væri það, held ég, skárri kostur en annar tveggja, áframhaldandi borgarastríð eða stríð milli Eþíópíumanna og sómalskrar andspyrnu. Það væri ekki sérlega beysinn kostur heldur, ef hin svokallaða bráðabirgðastjórn Sómalíu -- svokallaða segi ég því hún er næstum valdalaus í reynd -- sækti í sig veðrið, enda er hún líka leppur, bara fyrir önnur öfl. Í stöðunni væri því alls ekki afleitt að klerkarnir næðu undir sig landinu öllu, kannski að Puntlandi og Sómalílandi undanskildu, kæmu á röð og reglu og hæfu einhverja uppbyggingu á innviðum þess.
Pólitískur íslamismi er eins og aðrar pólitískar birtingarmyndir trúar. Þótt þær lofi öllu fögru og sveipi sig stundum byltingarsinnuðu orðfari, þá leiða þær í pólitískar gönur, blindgötur. Þær skila ekki af sér þeim ávexti sem þær lofa. Af þessum ástæðum þætti mér hvorki örvæntingarefni ef talibanar næðu aftur völdum í Afghanistan (í stað borgarastríðs eða erlendrar hersetu) eða klerkarnir í Sómalíu (í stað borgarastríðs eða erlendrar hersetu).
Ef þjóðfrelsi er tryggt, þá hafa menn frekar grundvöll til að byggja næsta pólitíska framfaraskref á. Í klerkaveldi kemur fyrr eða síðar að því að almenningur fær nóg af klerkunum og steypir þeim aftur. Það liggur í augum uppi að slík bylting er ólíklega á klerklegum forsendum. Hins vegar er hugsanlegt að hún sé á sósíalískum forsendum. Hún mundi beinast gegn innlendri valdastétt, þ.e.a.s. nærtækasta og skeinuhættasta óvininum.
Íran og Afghanistan hafa nú þegar á að skipa skæruliðum maóista og annarra kommúnista. Slík sveit gæti gagnast Sómalíu vel. Miðað við að sósíalismi virðist eiga erfitt uppdráttar í Sómalíu sem stendur, þá virðast objektífar aðstæður ekki vera hagstæðar. Ein aðalástæðan fyrir því hlýtur að vera ættbálkahyggjan (e. tribalism) sem er ríkjandi ídentítets-hugsun meðal Sómala. Klerkaveldi gæti unnið gegn ættbálkahyggju, og það mundi líklega sýna Sómölum að óvinirnir væru ekki almenningur í hinum ættbálkunum, heldur valdastéttin, sem klýfur ættbálkana. Klerkaveldi gæti tæpast þrifist án stuðnings ættbálkahöfðingjanna, svo að þeir yrðu líkast til samsekir í augum þeirra sem sæju hvernig í pottinn væri búið. Þeir gætu að vísu snúið baki við klerkunum þegar færi að halla undan fæti hjá þeim, og þannig bjargað eigin skinni, a.m.k. að einhverju leyti.
Því meiri völd sem klerkarnir öðlast, þess minni orka fer í innbyrðis átök meðal almennings í landinu. Það held ég. Þannig að það fer ekki um mig skelfingarhrollur þegar ég les fréttir um vonda harðlínumenn, hvorki í Sómalíu né í öðrum löndum þar sem pólitískur íslam er áberandi.

No comments:

Post a Comment